Þetta var önnur stoðsending Þóris í 17 leikjum fyrir Braunschweig í 2. Bundesliga á tímabilinu, hann hefur að auki skorað eitt mark. Liðið berst við að halda sér uppi í deildinni, sem stendur eru þeir í 16. sæti, því þriðja neðsta og á leiðinni í umspil við liðið sem endar í 3. sæti í deildinni fyrir neðan.
Það er þó stutt í næstu lið fyrir ofan og Braunschweig í góðum séns ef þeir fara að sækja úrslit.
Liðið fyrir ofan Þóri og félaga, Kaiserslautern, vann öruggan 3-0 útisigur á liðinu fyrir neðan þá, Hansa Rostock. Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði Hansa Rostock en var tekinn útaf í hálfleik.
Í leik Fortuna Düsseldorf og Hannover var það vinstri vængbakvörðurinn Christos Tzolis sem skoraði bæði mörk gestanna frá Düsseldorf snemma í fyrri hálfleik. Það fyrra eftir stoðsendingu Nicolas Gavory og það seinna eftir stoðsendingu Ao Tanaka.
Andreas Voglsamm minnkaði svo muninn fyrir heimamenn í seinni hálfleik og Cedric Teuchert jafnaði metin undir lokin.
Düsseldorf missti þar af frábæru tækifæri til að minnka muninn í efstu lið deildarinnar. Þeir sitja áfram í 6. sæti, fjórum stigum frá 3. sætinu. Efstu tvö liðin fara sjálfkrafa upp í efstu deild en liðið í 3. sæti spilar umspilsleik við liðið sem endar í 16. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.
Að öllum líkindum verður það Köln, Mainz eða SV Darmstadt sem endar í 16. sæti en þau þrjú lið eru í fallbaráttu Bundesliga og langt frá öruggu sæti.
Düsseldorf er einnig komið í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar og á erfitt verkefni fyrir höndum þegar þeir mæta Bayer Leverkusen þann 3. apríl.