Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Örugglega bara það hversu mikið hún fer í hringi!
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég myndi segja að Levi's gallabuxur sem ég thriftaði, það er að segja keypti notaðar. Ég var búin að vera að leita af hinum fullkomnu oversized gallabuxum og ég fann þær loksins í hrúgu af Levi's buxum á nytjamarkaði í London.
Síðan verð ég að segja Prada stígvélin mín, en ég var búin að vera með þau á heilanum í ár áður en þau urðu mín.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það fer eftir dögum og skapi.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi segja að hann sé frekar skandinavískur street style. Ég elska clean, mjúk snið og snyrtilegan fatnað í bland við oversized jakka og grófa skó. En ég er reyndar að elska támjóa skó í augnablikinu.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já vá, hann hefur verið alls konar. Ég tók „arty“ tímabil, „skater“ tímabil og gamla góða Everest buxur, Sparks peysu og nóg af brúnkukremi tímabilið (If you know you know).
Nýturðu þess að klæða þig upp?
Já, mér finnst það mjög gaman.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Mest á samfélagsmiðlum. Síðan nota ég Pinterest mikið þegar mig vantar hugmyndir um það hvernig ég á að para saman ákveðnar flíkur sem ég á nú þegar inni í skáp.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Mér finnst bara að allir megi klæða sig eins og þeim líður vel með.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Ég átti ótrúlega fallegan fringe rúskins jakka sem ég thriftaði fyrir mörgum árum, ég var mikið í honum á eftirminnilega tímabili í lífi mínu. Hann fékk annan eiganda fyrir nokkrum árum en er mjög eftirminnilegur.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Já, bara klæða sig í það sem manni finnst fallegt og líður vel í. Ég mæli sömuleiðis með því að eiga nóg að beisik bolum, til dæmis hvítum, svörtum og brúnum, í ólíkum sniðum og efnum sem maður getur síðan klætt upp við nánast hvað sem er.