Orlando Pride í Bandaríkjunum hefur fest kaup á sambíska framherjanum Barbra Banda frá Shanghai Shengli í Kína. Kaupverðið er 581 þúsund pund, eða tæplega 102 milljónir íslenskra króna, sem gerir hana að næstdýrasta leikmanni sögunnar.
Dýrasta fótboltakona sögunnar er landa Banda, Racheal Kundananji. Í síðasta mánuði keypti bandaríska félagið Bay FC hana frá Madrid CFF fyrir 685 þúsund pund, sem samsvarar rétt tæplega 120 milljónum króna.
Banda gerði fjögurra ára samning við Orlando Pride. Hún verður einn launahæsti leikmaður bandarísku NWSL deildarinnar.
„Ég er mjög spennt að ganga til liðs við Orlando Pride. Þetta er frábært félag og ég er hrifin af því sem það er að gera,“ sagði Banda sem verður 24 ára síðar í mánuðinum. Hún skoraði 41 mark í 52 leikjum fyrir Shanghai Shengli.
Banda sló í gegn á Ólympíuleikunum í Tókýó þar sem hún skoraði þrennu í tveimur leikjum í röð. Alls hefur hún skorað 51 mark í 58 leikjum fyrir sambíska landsliðið.