Erlent

Fimm dóu þegar hjálpar­gögn lentu á þeim

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjálpargögnum var varpað á Gasaströndina í fallhlífum.
Hjálpargögnum var varpað á Gasaströndina í fallhlífum. AP/Leo Correa

Að minnsta kosti fimm manns eru sagðir hafa látið lífið þegar hjálpargögn sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Gasaströndina úr lofti í gær lentu á þeim. Fallhlíf allavega eins vörubrettis opnaðist ekki og það féll til jarðar á miklum hraða.

Á jörðu niðri hafði fjöldi fólks komið saman til að taka á móti hjálpargögnunum, samkvæmt fregnum sem sagt er frá á vef Times of Israel og annarra miðla.

Fréttamaður Al Jazeera á Gaza segist einnig hafa heyrt fregnir af andlátunum. Þær herma að tveir hafi dáið samstundis þegar birgðirnar féllu á þá og þrír til viðbótar hafi dáið á sjúkrahúsi.

Myndband sem á að sýna eitt vörubrettanna falla til jarðar hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í morgun. Óljóst er hvort fólkið dó eftir að þetta bretti lenti á þeim eða önnur.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í stefnuræðu sinni í gærkvöldi að Bandaríkjamenn ætluðu sér að setja upp bráðabirgðahöfn við Gasaströndina og flytja þannig hjálpargögn á svæðið. Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa opinberað sambærilegar ætlanir og stendur til að senda skip með hjálpargögn á næstunni.

Sjá einnig: Banda­ríkja­menn hyggjast reisa bráða­birgða­höfn á Gasa

Gasaströndin er í rúst eftir rúmlega fimm mánaða hernað og hefur alþjóðlegur þrýstingur á yfirvöld í Ísrael aukist verulega. Íbúar á svæðinu standa frammi fyrir hungursneyð en AP fréttaveitan segir börn byrjuð að deyja úr hungri.

Uppfært: Fólkið lét lífið í gær, ekki í dag eins og stóð fyrst í fréttinni. Þá segja embættismenn í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að umrætt vörubretti hafi ekki verið frá þeim. Fjölmiðlar ytra segja Sameinuðu arabísku furstadæmin einnig hafa varpað hjálpargögnum á Gasaströndina úr lofti í gær.


Tengdar fréttir

Stefnuræða Bidens: Fór hörðum orðum um Trump en nefndi hann aldrei á nafn

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, flutti í gær sína árlega stefnuræðu á bandaríska þinginu þar sem hann fór hörðum orðum um Donald Trump, fyrrverandi forseta og væntanlegan mótframbjóðanda hans, án þess þó að nefna hann á nafn. Þar að auki færði hann rök fyrir öðru kjörtímabili sínu og gagnrýndi Repúblikana harðlega.

Skip sökk eftir loftárás Húta

Flutningaskipið Rubymar sökk í Rauðahafinu í gærkvöldi eftir loftárás Húta í Jemen. Skipið er það fyrsta til þess að sökkva vegna aðgerða Húta í tengslum við stríðið á Gasa. 

Bandaríkin henda hjálpargögnum úr lofti yfir Gasa

Bandaríkin hyggjast henda hjálpargögnum úr lofti yfir Gasa svæðið á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Joe Biden Bandaríkjaforseta. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til Gasa undanfarna daga, vikur og mánuði en gagnrýnendur segja aðferðina lélega og ónákvæma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×