Myndband úr öryggismyndavél verslunarinnar sýnir manninn ganga inn í verslunina og ráðast að því er virðist tilefnislaust á tvo menn á bakvið afgreiðslukassann með hníf. Þeim tekst að hrinda honum í burtu frá sér og komast undan án þess að særast alvarlega.
Árásin átti sér stað á milli fjögur og fimm í gær.
Lögreglan segir að meta verði hvort færa eigi manninn fyrir dómara og fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð. Hann hefur verið dæmdur í fangelsi hér á landi áður og verið sakfelldur fyrir brot eins og líkamsárás, húsbrot, valdstjórnarbrot og brot á sóttvarnarlögum.
Uppfært 21:04:
Maðurinn er um þrítugt og hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í kjölfar yfirheyrslu hjá lögreglunni í dag. Þeir sem urðu fyrir árásinni voru báðir fluttir á slysadeild og er líðan þeirra eftir atvikum samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.