Haukur lenti í árekstri á Reykjanesbrautinni í byrjun febrúar en hann vinnur í Reykjanesbæ en býr á Álftanesinu og er leikmaður nýliða Álftnesinga í Subway-deild karla. Hann hefur verið að glíma við meiðsli í baki eftir slysið og misst af nokkrum leikjum.
Haukur æfði með liðinu í gærkvöldi, fyrsta alvöru æfingin í einhverjar vikur. Það fór ekki betur en svo að leikmaðurinn fékk höfuðhögg og í kjölfarið nokkuð stóran skurð fyrir ofan augað eins og sést á myndinni hér að neðan.
Haukur Helgi hefur verið einn besti leikmaður nýliða Álftnesinga á tímabilinu en liðið berst um þessar mundir um sæti í úrslitakeppninni en núna eru aðeins þrjár umferðir eftir af tímabilinu. Liðið leikur gegn grönnum sínum í Stjörnunni á fimmtudagskvöldið. Álftanes er í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig en Stjarnan situr í því níunda með 18 stig. Átta lið fara í úrslitakeppnina.
