Samkvæmt frétt New York Times komst dómarinn Scott McAfee að þeirri niðurstöðu að ákæruliðirnir sex væru of óljósir. Ekki kæmi nægilega vel fram um hvað sakborningarnir væru sakaðir og það gæti komið niður á vörnum þeirra.
Sjá einnig: Tóku Trump upp ef hann segði ósatt frá, sem hann svo gerði
Trump og aðrir hafa verið ákærðir af yfirvöldum í Georgíu fyrir að reyna að snúa úrslitum forsetakosninganna þar árið 2020. Nokkrir þeirra voru ákærðir fyrir að reyna að stela kjörgögnum og eiga við kosningavélar en kjarni ákæranna snýr að því að reynt hafi verið að fá hóp til Repúblikana í Georgíu til að staðfesta ranglega að þeir væru réttkjörnir kjörmenn ríkisins og senda Bandaríkjaþingi skjöl þess efnis þrátt fyrir að kjörmennirnir ættu með réttu að tilheyra Joe Biden.
Trump og Rudy Giuliani, fyrrverandi einkalögmaður hans, stóðu báðir frammi fyrir ákærum í þrettán liðum hvor en þeim hefur nú verið fækkað í tíu. Hægt er að áfrýja úrskurði McAfee en saksóknarar geta einnig lagt fram nýjar og ítarlegri ákærur eða einfaldlega sætta sig við úrskurðinn.
Úrskurður McAfee tengist ekki tilraunum til að þvinga héraðssaksóknarann Fani Willis til að segja sig frá málinu vegna meints sambands hennar og Nathan Wade, sem haldið hefur utan um málaferlin gegn Trump.
Sjá einnig: Meint framhjáhald gæti tafið málaferli gegn Trump um ár
Ásakanirnar gætu leitt til margra ára tafa á málaferlunum gegn Trump og öðrum sem voru ákærðir með honum.
Donald Trump hefur verið ákærður fjórum sinnum.
Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur ákært Trump í tveimur málum. Annað þeirra snýr að viðleitni hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 á landsvísu. Réttarhöldin áttu að hefjast 4. mars en hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Hitt snýr að opinberum gögnum og leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu þegar hann flutti til Flórída og neitaði að afhenta. Réttarhöldin eiga að hefjast í maí.
Hann hefur einnig verið ákærður í New York fyrir brot á lögum um kosningar vegna þagnargreiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Réttarhöldin eiga að hefjast 25. mars.
Trump hefur þar að auki verið ákærður í Georgíu og fyrir að reyna að snúa úrslitum kosninganna þar. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin í Georgíu eiga að hefjast en búið er að ákveða að sýnt verði frá þeim í beinni útsendingu.