Sport

Nærri sex­tíu fæðubótar-, næringar­efnum og lyfjum dælt í undra­barnið á tveggja ára tíma­bili

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kamila Valieva á Ólympíuleikunum í Peking árið 2022.
Kamila Valieva á Ólympíuleikunum í Peking árið 2022. Dimitris Isevidis/Getty Images

Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, hefur greint frá því að hin rússneska Kamila Valieva hafi fengið alls 56 mismunandi lyf, næringar- og fæðubótarefni á tveggja ára tímabili þegar hún var 13 til 15 ára gömul.

Vísir hefur fylgst vel með gangi mála í máli Kamila Valieva en þessi tánings skautadrottning var fyrr á þessu ári dæmd í fjögurra ára keppnisbann vegna lyfjabrota.

Undir lok árs 2021 fannst hjartalyfið trimetazidine í blóðprufu hennar. Nú hefur BBC, breska ríkisútvarpið, greint frá því að alls hafi táningsstúlkan Valieva fengið 56 mismunandi lyf, næringar- og fæðubótaefni frá því hún var 13 til 15 ára. Ekkert af þeim hafi þó verið á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins (WADA).

Í skjölum CAS um málið kemur fram að FMBA, lyfjastofnun í Rússlandi, hafi skrifað upp á lyfin 56 sem Valieva tók. Í yfirlýsingu frá Rússneska lyfjaeftirlitinu (Rusada) kom fram að óháð rannsókn þeirra á lyfjagjöf táningsins sýndi fram á að ekki væri um nein ólögleg lyf að ræða. WADA svaraði um hæl og sagði „lyfjamisnotkun barna er með öllu ólíðandi.“

Framkvæmdastjóri WADA, Olivier Niggli, sagði í viðtali að málið væri gríðarlega súrt þar sem það væri ljóst að hér hefði ákvörðun verið tekin um að refsa íþróttamanneskjunni frekar en þeim sem hjálpuðu henni að dópa.

Valieva var dæmd í fjögurra ára keppnisbann en þar sem það er afturvirkt og byrjaði í raun eftir að hún féll á lyfjaprófi undir lok árs 2021 má Valieva byrja að keppa að nýju í lok árs 2025.


Tengdar fréttir

Pillur afa hafi laumast í eftirrétt Valievu

Rússneska skautakonan Kamila Valieva, sem var dæmd í fjögurra ára bann fyrir ólöglega lyfjanotkun, hefur komið með útskýringu á því hvað hafi getað valdið því að hún féll á lyfjaprófi.

„Gildir einu hvort einstaklingur er tólf ára eða þrítugur“

Hin rússneska Kamila Valieva, listdansari á skautum, var í vikunni dæmd í fjögurra ára keppnisbann vegna lyfjamisnotkunar þrátt fyrir að vera undir lögaldri. Framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands segir málið leiðinlegt en verki vonandi sem forvörn fyrir aðra.

Fá loks Ólympíugullið tveimur árum seinna

Keppendurnir sem misstu af verðlaunum þegar Rússar unnu gullið í liðakeppni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking 2022 munu fá verðlaun sín við hátíðlega athöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×