Hér er um að ræða hina hundrað ára verslun Guðsteins Eyjólfssonar í einu fallegasta húsi miðbæjarins sem byggt er í Jugend stíl.
Vala Matt fór og skoðaði húsið og verslunina og ræddi meðal annars við arkitektinn Pétur Ármannsson hjá Minjastofnun og einnig skoðaði hún mjög sérstakt listaverk á úthlið verslunarinnar sem er orðið eitt helsta kennileiti Reykjavíkur.
„Við reyndum. Ég tek við fyrirtækinu og kem inn í verslunina árið 2016 og þá var blómstrandi Laugavegur og það mátti keyra niður og að húsinu. Síðan kaupum við fyrirtækið 2019, ég og maðurinn minn Hörður og það er eiginlega þá sem við finnum að það er svo mikið að breytast á Laugaveginum. Þeir byrja á því að snúa við akstursleiðinni hjá okkur. Þá um leið vorum við byrjuð að fá hringingar, tölvupósta og fleira um að fólk treysti sér ekki í miðbæinn og það voru ekki alveg allir,“ segir Sólveig Grétarsdóttir eigandi verslunarinnar.
„Fyrir okkar fyrirtæki hentar ekki þessi stefna borgarinnar og þessi aðkoma í miðbæinn. Stæðum hefur fækkað, gjaldskilda hefur hækkað og þetta hefur allt áhrif.“