„Við erum afar stolt af því að bæta Sjálandi við í framboð okkar á veislu- og veitingaþjónustu. Sjáland er einn glæsilegasti veislu- og viðburðastaður landsins á magnaðri staðsetningu við sjávarsíðuna,“ segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis í tilkynningu.
Ófá brúðkaup, afmælisveislur og árshátíðir hafa farið fram í Sjálandi undanfarin ár. Þar eru tveir salir, annar sem hentar stærri viðburðum og svo minni salur sem passar fyrir minni boð. Yfirkokkur Múlakaffis, Eyþór Rúnarsson, hefur umsjón með matseðli og áherslum Sjálands í mat og drykk.
„Við erum nú þegar farin að taka við bókunum fyrir sumarið, síminn hefur varla stoppað síðan að það spurðist út að Sjáland yrði opnað aftur. Enda er húsnæðið sérhannað fyrir veislur og viðburði af öllum gerðum,“ segir Guðríður í tilkynningu.
Líkamsræktarkeðjan World Class keypti húsnæðið í Sjálandi fyrir rúmlega 700 milljónir króna í janúar. Töluverðar framkvæmdir verða á svæðinu áður en opnað verður eftir að minnsta kosti tvö ár.