Innlent

Hjól­barði undan strætó hafnaði á húsi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Hjólbarði fór undan strætisvagni og lenti á nærliggjandi húsi í Laugardal, ásamt því að fara utan í nokkrar kyrrstæðar bifreiðar. Myndin er úr safni.
Hjólbarði fór undan strætisvagni og lenti á nærliggjandi húsi í Laugardal, ásamt því að fara utan í nokkrar kyrrstæðar bifreiðar. Myndin er úr safni. Vísir/Arnar

Nóttin var nokkuð róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt dagbók sneru útköll að mestu að hefðbundnum ölvunar-og hávaðatilkynningum. Þó var eitthvað um fremur óvenjuleg verkefni, til dæmis losnaði hjólbarði undan strætisvagni og endaði á nærliggjandi húsi eftir að hafa farið utan í nokkra kyrrstæða bíla.

Fimm eyddu nóttinni í fangaklefa. Tveir voru handteknir í aðskildum fjársvikamálum, grunaðir um að hafa notað stolin greiðslukort. 

Þá hafði lögregla afskipti af fimm ökumönnum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis og/ eða fíkniefna.

Eldur í potti og árekstur í Grafarvogi

Dælubílar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu fóru fóru í tvö útköll síðasta sólarhringinn, annarsvegar tengt árekstri í Grafarvogi og hinsvegar potti á eldavél í Hlíðarhverfi. 

 Á Facebook síðu slökkviliðsins segir að ekki hafi verið þörf á mikilli aðstoð dælubílsins vegna umferðarslyssins en í Hlíðunum þurfti að reykræsta. 

Sjúkrabílar voru boðaðir í 118 verkefni, þar af 22 forgangsverkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×