„Þetta eru ærumeiðingar, Gunnar Ingi!“ Jakob Bjarnar skrifar 20. mars 2024 06:01 Aðalsteinn gengur inn í réttarsalinn. Í baksýn má sjá Sigurð G. og Pál Vilhjálmsson. Þegar málflutningi var lokið rétti Sigurður Aðalsteini höndina og hann tók í hana. En sagðist ekki skyldugur til að brosa til hans að auki. Aðalsteini var ekki skemmt. Vísir/vilhelm „Þetta eru ærumeiðingar, Gunnar Ingi!“ hrópaði Páll skipstjóri Steingrímsson að Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns. Dómari þurfti að sussa á Pál svo málflutningur gæti haldið áfram. Gunnar Ingi hafði þá sagt að það væri ekkert vitað um það hversu óháður Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari og bloggari væri, hann gæti allt eins verið á launum hjá Samherja við skrif sín. Það væri ekki vitað. Tekist var á um þetta og ýmislegt fleira í hressilegum málflutningi sem fram fór í sal 401 í Héraðsdómi Reykjavíkur, í ærumeiðingarmáli Aðalsteins Kjartanssonar á hendur Páli Vilhjálmssyni að mánudagsmorgni. Hér var tekist á um blaðamennsku, falsfréttir, svívirðingar, gildisdóma, falsfréttir og inní fléttuðust nokkur af stærri fréttamálum undanfarinna ára. Þetta er veisla nema fyrir þá sem í standa. „Misnotuðu veika konu til að byrla og stela“ Aðalsteinn stefnir Páli fyrir svipaðar sakir og Páll hafði áður verið dæmdur fyrir í máli af sama toga þegar þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður sama miðils, stefndu Páli fyrir meiðyrði og kröfðust ómerkingar á tvennum ummælum á bloggsíðu hans á vefsvæði Mbl.is. Annars vegar voru það ummæli um að tvímenningarnir hefðu átt „aðild, beina eða óbeina“ að því að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, hefði verið byrlað og síma hans stolið. Hins vegar voru það ummæli Páls um að saksóknari gæfi út ákæru á hendur blaðamönnunum. Páll var dæmdur sekur en hann hefur áfrýjað því máli til Landsréttar. Málið kemur til kasta Landsréttar 2. maí. Í máli Aðalsteins gegn Páli eru talsvert fleiri ummæli undir en hann krefst ómerkingar eftirfarandi ummæla sem birtust á bloggsíðu Páls, Tilfallandi athugasemdir: 1. 2. apríl 2022:: „Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi“. „…og Aðalsteinn Kjartansson á stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skiptstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“. 2. 25. ágúst 2022: „Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“. 3. 28. október 2022: „Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“ „Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“. „Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“. 4. 15. febrúar 2023: „Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“. „Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“. 5. 27. febrúar 2023: „Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“. „Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt. „En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“. „Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar.” 6. 21. mars 2023: „Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“ „Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“. „Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“. 7. 22. mars 2023: „Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“. „Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“. 8. 14. apríl 2023: „RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“ Eins og sjá má af ofansögðu hefur Páll verði iðinn við kolann og skrifað ókjör um þessi mál. Hann hefur jafnframt furðað sig á að fjölmiðlar hafi ekki tekið hans útleggingar upp. Eitt þeirra atriða var meðal þeirra sem komu til álita við aðalmeðferðina. Lögmaður Páls er Sigurður G. Guðjónsson og hann var með tvö vitni í málinu. Pálana tvo, Pál Vilhjálmsson stefnda og Pál Steingrímsson, kallaður skipstjóri. Það var sá fyrrnefndi sem gaf skýrslu fyrst. Páll sá þegar í hendi sér að fiskur lá undir steini Sigurður spurði um menntun og reynslu en fram kom að Páll hefði lært blaðamennsku við Oslóarháskóla og starfað sem blaðamaður og ritstjóri en síðustu 15 árin eða svo hafi hann bloggað auk þess að gegna starfi kennara við Framhaldsskólann í Garðabæ. Sigurður spurði Pál út í ómerkingarkröfu á einni athugasemdinni, þar sem Lasse Skytt kemur við sögu? Hver væri það? Páll sagði að þetta væri danskur blaðamaður sem talaði mjög máli blaðamannanna. En hann hafi þau ummæli einfaldlega úr grein hans að bráðlega verði ákært í málinu. Hann væri í mjög góðu sambandi við blaðamennina og hann hafi gefið sér að um ákæru væri að ræða. Sigurður spurði þá Pál út atriði sem krafist er ómerkingar á, að gögn hafi glatast, símagögn og hvaða heimildir hann hefði fyrir því? Páll sagði að um væri að ræða síma Páls Steingrímssonar skipstjóra. Síminn hans hafi verið tekinn traustataki meðan hann var meðvitundalaus, gögn úr símanum urðu fréttaefni. Páll sagðist hafa skrifað blogg um málið og hann hafi orðið var við mikil viðbrögð í samfélaginu. Hann hafi því haldið áfram að fjalla um þetta; hvernig þetta bar að með fréttir sem byggðu á birtingu gagna úr síma skipstjórans. Páll sagðist kunna blaðamennsku og hann hafi fljótlega áttaði sig á því að það væri eitthvað plan á bak við þetta, skipulag; að nákvæmlega þennan dag með stuttu millibili hafi birst í sitthvorum miðlinum frétt um „Skæruliðadeild Samherja.“ Í Stundinni og Kjarnanum. Það slær mann að það er ekkert fjallað um málið, hvernig þetta bar að og hafandi þann bakgrunn hafi hann tamið sér að fjalla um þetta. Páll vildi meina að þetta væri ábyrg fjölmiðlarýni. Páll einn um hituna Páll segir að Rakel Þorbergsdóttir fráfarandi fréttastjóri fréttastofu Ríkissjónvarpsins hafi látið af störfum fljótlega í kjölfar þessa og Aðalsteinn og Þórður Snær Júlíusson þá ritstjóri Kjarnans hafi skrifað samtímis pistla þar sem þeir segðu Pál fara með fleipur. „Hér er ósagðasta frétt íslenskrar fjölmiðlasögu,“ sagði Páll. Hann hélt áfram að rekja það hvernig hans skrif, en hann var nánast einn um að fjalla um þetta, hafi þróast. Við hann hafi haft samband aðilar sem höfðu á þessu skoðun og það styrkti hann í að fjalla um málið. Aðrir fjölmiðlar sinntu því ekki og ef þá hafi það verið á forsendum blaðamannanna sem urðu seinna sakborningar í málinu. Reyndar er ekki alveg nákvæmt hjá Páli að ekkert hafi verið um þetta fjallað, en það er aukaatriði í þessu samhengi. Sigurður lögmaður hans hélt áfram að þýfga hann um tilurð ýmissa þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á. Og Páll sagði að það sem meðal annars kæmi fram í gögnum rannsóknarinnar var horfið símtæki Páls. Og þáverandi eiginkona Páls skipstjóra játi að hafa byrlað Páli. Þóra Arnórsdóttir þáverandi ritstjóri Kastljóss biðji um símtæki konunnar, eða maður á hennar vegum, og að þeir fái að hafa símann í heilan dag. „Mér fannst einboðið að hugsunin væri að taka úr honum gögn sem skipta miklu máli um sönnunarfærsluna í Efstaleiti.“ Páll segist hafa séð gögn í málinu Sigurður spurði þá nánar út í ummælin „Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“ hvort hann hefði einhverjar heimildir fyrir þessu? Páll Vilhjálmsson sagðist hafa séð drjúgt af gögnum málsins og vitneskja um mögulega gagnaeyðingu hafi komið úr þeim gögnum. Þar sem fyrrverandi eiginkona Páls skipstjóra veiti blaðamönnum heimild til að sækja símkortið sitt á lögfræðiskrifstofu Láru V. Júlíusdóttur lögmanns í skilnaðarferli þeirra Páls skipstjóra. Páll Vilhjálmsson sagði að reynt hafi verið að hafa upp á þeim gögnum sem skipstjórinn teldi horfin. Lögreglan á Akureyri hafi haft samband við Google sem hýsi tölvupóstfang fyrrverandi eiginkonu Páls skipstjóra áður en byrlunin fór fram. Ekkert hafi hins vegar komið út úr athugun Google. Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari og bloggari. Meðal annars var tekist á um það hvort vert væri að kalla hann blaðamann en Sigurður lögmaður hans var helst á því, þó hann starfaði ekki á neinum fjölmiðli.vísir/vilhelm Næst var komið að lögmanni Aðalsteins, Gunnari Inga, að spyrja vitnið og ljóst var að hann gaf ekki mikið fyrir blaðamennsku Páls. „Þú segist hafa blaðamannamenntun?“ spurði hann vitnið. Páll sagðist ekki starfandi blaðamaður. Trúlega væru liðin tuttugu ár síðan hann fékkst við blaðamennsku. Hann jánkaði því að hann þekkti Aðalstein ekki persónulega, hann væri reyndar að sjá hann í fyrsta skipti þar og þá. Gunnar Ingi spurði Pál þá hvort hann hafi haft undir höndum gögn úr þessu sakamáli sem lögreglan á Norðurlandi eystra væri með til rannsóknar? Páll sagðist geta staðfest það, að hann hafi fengið gögn sem væru komin í umferð. Ef blaðamaður eigi kost á frumheimildum, gögnum úr lögreglurannsókn, þá nýti hann sér þau og hann geti staðfest að hann hafi séð þau gögn. Engar fréttir án byrlunar eða símastulds Gunnar Ingi spurði þá hvernig hann fengi það út að Aðalsteinn eigi beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skipstjóra? Páll sagði að án byrlunar og án stulds á síma hefði ekki orðið af neinum fréttum hvorki í Kjarnanum né Stundinni. Þetta væri alger forsenda þeirra frétta að Páll hafi verið gerður óvígur, símanum stolið og hann afritaður. Svo hægt væri að skrifa þessar fréttir. Þetta væri hans ályktun. Ef afbrot er framið og til verði eitthvert þýfi, sem einhver nýtur góðs af, sé sá þjófsnautur. Það þýðir í það minnsta óbein aðild. Páll sagði þetta skrifað snemma í ferlinu en svo hafi gögn farið að dúkka upp eftir því sem málinu vindur fram. Hann reyni að gera sér heildarmynd og leggi sig svo fram um að segja fréttir af þessu. Páll fór þá í það sem hann kallaði rökfræði 101 sem varðaði kaup Þóru Arnórsdóttur á sambærilegum síma í apríl 2021, áður en byrlunin fór fram. Sem gefi til kynna að blaðamenn hafi mátt vita að síminn væri á leiðinni. Þrautþjálfaður í blekkingum? Gunna Ingi vék þá að atriði í stefnunni þar sem Páll heldur því fram að Aðalsteinn sé þrautþjálfaður í blekkingum, hvernig megi það vera? Páll sagði að sem dæmi mætti nefna kæru sem Aðalsteinn hafi ætlað að leggja fram til Mannréttindadóms Evrópu. Engin slík kæra hafi verið lögð fram. Gunnar Ingi sagði það reyndar ekki rétt, það liggi fyrir að slík kæra hafi verið send út til mannréttindadómstólsins og lögð fram þar. Páll sagðist þá geta vitnað til skýrslu sem tekin var af Aðalsteini. Og dró fram blöð úr jakka sínum. Páll sagði Aðalstein hafa haldið því fram að hann hefði aldrei haft téð gögn undir höndum. Hvernig er hægt að skrifa frétt án þess. Það væri ekki hægt. Líney Dan Gunnarsdóttir var að taka lögmannspróf og hún sat réttarhöldin. Gunnar Ingi sagði að frásögn þeirra Páls og Páls hefði sáralítið ef nokkuð með meiðyrðamálið sjálft að gera.vísir/vilhelm Gunnar Ingi spurði þá út í fullyrðingu um að Aðalsteinn ætti von á ákæru, hvort það væri rétt skilið að Páll byggði það á skrifum Lasse Skytt, hins danska blaðamanns? Páll sagði danska blaðamanninn hafa haft samband við Eyþór, aðstoðarsaksóknara hjá lögregluembættinu fyrir norðan, að ákærur væru væntanlegar. Þetta hafi hann uppúr Aftenposten. Páll sagðist hafa notað blaðamenn í fleirtölu. Komið væri á samband við fyrrverandi eiginkonu Páls skipstjóra, sem væri veikur einstaklingur, og skipulagt að hún stæli símanum. Hver verkaskipting blaðamannanna væri vissi hann ekki. En vitað sé að farsími sömu gerðar og Páll átti hafi verið keyptur stuttu áður en byrlun fór fram. Viku eftir að lögreglan hafi borið þetta undir Stefán Eiríksson útvarpsstjóra hafi Þóra Arnórsdóttir verið látin fara frá RÚV. „Eru þetta þínar ályktanir?“ spurði Gunnar Ingi þá. „Nei,“ sagði Páll. Hann hafi séð gögn sem varði samskipti Stefáns Eiríkssonar og lögreglunnar um þennan tiltekna síma. Fjölmiðlar væru ekki áfram um að fjalla um þetta mál en þetta væru gögn sem komin væru í umferð milli sakborninga og tveggja brothafa. Blaðamenn máttu vita að síminn var á leiðinni Um sé að ræða að minnsta kosti fimm blaðamenn sem að koma en Páll sagðist ekki geta fullyrt að Aðalsteinn hafi verið í samskiptum við konuna. En Aðalsteinn birti 21. maí grein sem er upp úr gögnum Páls skipstjóra. Til að komast í þau gögn þurfi að vera einhver samskipti við fólk sem kemst yfir gögnin. Þetta hafi verið birt samdægurs og augljóst að Aðalsteinn sé með vitneskju um málsþættina því að í Kjarnanum, systurmiðli Stundarinnar, sé viðurkennt að lögbrot hafi farið fram áður en gögnin komu fram. Blaðamenn viti að lögbrot hafi verið framið og fyrst og fremst sé skylda blaðamanna að upplýsa um afbrot en ekki hylma yfir. Gögnin sýni fram á að sími sé afritaður í Efstaleiti, samskonar sími svo keyptur fyrir byrlunina. Páll sagðist skrifa bloggið fyrir eigin reikning og á eigin ábyrgð. Hann sagðist telja að lögreglan drægi sínar ályktanir líka. Ákærur hafa ekki verið gefnar út þannig að rannsókn stendur enn yfir. Þá spurði Gunnar Ingi út í ummæli Páls þess efnis að Aðalsteinn hafi verið „fluttur“ af RÚV á Stundina. Páll sagði Aðalstein hafa farið þangað þremur dögum áður en Páli var byrlað, þaðan sem hann hafi unnið undir stjórn Þóru Arnórsdóttur. Og yfir á Stundina. Það hafi þótt merkilegt að blaðamaður skipti um starf í hádeginu. Slíkt gerist ekki nema yfirmenn komi þar að. Þóra ekki að fara í tölvuleik í símanum Páll hélt áfram ótrauður og gaf ekkert eftir. Þóra Arnórsdóttir hafi fengið símann í einn dag og það liggi í augum uppi til hvers. Hún hafi ekki verið að fara í tölvuleik í símanum heldur rannsaka innihald hans. Veika konan veiti svo Aðalsteini heimild til að fara yfir símakort sitt, augljóst að einstaklingur framselji ekki síma sinn nema til að einhverjir geti farið þar inn og tekið þar út það sem er. „Hvað staðfestir það að stefnandi eftir atvikum hafi eytt sönnunargögnum?“ spurði Gunnar Ingi. „Þú ert að meina að þeir hafi farið í tölvuleik?“ spyrði Páll á móti en dómari sagði hér um tiltölulega skýra spurningu að ræða. Páll sagði að blaðamenn hafi vitað um lögbrotið og í Kjarnanum segi í rammagrein að lögbrot hafi verið framið en blaðamenn ekki átt þar hlut að máli. Hér væri því um óbeina aðild að ræða. „Og þú ert þú með þessum ummælum að fullyrða að blaðamenn hafi framið alvarleg lögbrot?“ spurði Gunnar Ingi. Páll sagði að hann væri að segja að lögbrot hafi verið framið, blaðamenn væru í minnsta lagið þjófsnautar af því að hafa fengið afnot af gögnunum. Þetta lægi fyrir. Páll skipstjóri hætt kominn Þegar hér var komið sögu var blaðamaður farinn að velta því fyrir sér hvort verið væri að rétta í meiðyrðamáli eða hvort um væri að ræða mál sem varða kenningar Páls Vilhjálmssonar um það sem hann vill kalla Byrlunarmálið. Og ekki hvarf sú tilfinning þegar næsta vitni tók sæti. En þar var kominn Páll skipstjóri Steingrímsson. Hann sagðist kannast við greinarnarnar umræddu, um Skæruliðadeildina. Páll rakti aðdragandann að símamálinu, að hann hafi verið með skip sem heiti Bergur VE, og hann hafi ákveðið að stoppa í Reykjavík og dvalist á Hótel Óðinsvéum. Þetta var sama dag og Aðalsteinn lauk störfum á RÚV og fór yfir á Stundina. Páll Steingrímsson í héraðsdómi. Hann staðfesti að hafa látið Pál nafna sinn hafa gögn í málinu til að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem hann sagði uppi í málinu.vísir/jakob Páll fór tiltölulega hratt yfir sögu. Hann ákveður að keyra norður til síns heima og er að vinna í garðinum þegar hans fyrrverandi birtist skyndilega, þau eigi stutt spjall. Páll segir að þau hafi haft þann hátt á að hún fengi sér bjór í bolla og sígarettu og skilið afganginn úr bjórdósinni eftir fyrir sig. Hann hafi ekki viljað drekka þarna, hann hafi verið nýbúinn að bursta í sér tennurnar, en eitthvað verður til að hann skellir honum í sig og vaknar nokkrum dögum síðar á gjörgæslu í Reykjavík. Símanum stolið og hann afritaður Páll segist ekkert muna eftir málsatvikum en nágrannar hafi tjáð sér að hann hafi barið þar á dyr og síðan hnigið niður. Páll sagði nágranna sína hafa hringt á sjúkrabíl og þau á Akureyri ekki talið sig hafa ráð til að forða honum frá bráðum bana. Hann var því fluttur til Reykjavíkur og hann endurlífgaður fjórum sinnum, svo tæpt stóð með að hann lifði. Hann var settur á svokallaðan dauðavagn og var svo fluttur á nýrnadeild því nýrun væru svo veik. Þar var fylgst með því hvort komnar væru varanlegar skemmdir á nýrunum. Páll sagði að meðan hann var á gjörgæslunni hafi börn hans verið í kringum hann, eldri dóttir hans sem var að fara aftur norður, yngri dóttir hans bauð honum ipad svo hann hefði einhverja afþreyingu. Sonur hans spurði hann hvort hann væri ekki með Samsung account og þegar hann var að skoða hann sagði hann: Pabbi, síminn þinn er uppi í Efstaleiti! Páll taldi það vitleysu, hann var á Borgarspítalanum í næsta nágrenni en sonur hans hafi einfaldlega stækkað kortið og þá hafi það komið á daginn. Þetta hafi svo verið staðfest seinna í yfirheyrslum hjá héraðssaksóknara að starfsmaður Ríkissjónvarpsins hafi fengið símann í hendurnar. Þá greindi Páll frá því að hans fyrrverandi hafi komið með tösku og síminn var þar í. Honum hafi þótt það skrítið að það væru eftir 47 prósent á batteríinu því hann hefði talið að síminn ætti að vera straumlaus. En rökhugsunin hafi ekki verið sem skyldi eftir veikindin. Páll lýsti því þá að þegar sími er afritaður þá hverfi ýmis öpp af forsíðu skjásins þó þau séu þar ennþá. Tók upp samtöl sín við Þórð Snæ og Aðalstein Sigurður G. spurði Pál hvaðan hann hefði þær upplýsingar að sími hans hafi verið afritaður og hver væri þar að verki? Páll segir það þannig að hann hafi gert sér grein fyrir því 13. maí 2021 og 14. maí hafi hann farið og kært málið til lögreglu. Hann hafi aldrei kært hvorki einn né neinn, það sé vegna rannsóknar lögreglu sem viðkomandi menn séu sakborningar í málinu. Páll sagði sig hafa grunað að hann myndi fá símhringingar og það hafi gerst sem hann ætlaði, að með 11 mínútna millibili, þegar hann var að koma út af lögreglustöðinni, hafi Þórður Snær og þá Aðalsteinn hringt í sig. „Ég veit þá hvert gögnin rötuðu,“ sagði skipstjórinn. Sigurður G. Guðjónsson sneri upp á málið þegar hann nefndi að sjálfur hafi hann verið lögmaður Reynis Traustasonar blaðamanns í máli hans á hendur Arnþrúði Karlsdóttur, sem tapaðist því svívirðingar Arnþrúðar flokkuðust undir gildisdóm.vísir/vilhelm Páll vék þá að því að Aðalsteinn hefði staðhæft að hann hefði aldrei haft gögnin undir höndum og það hlyti þá bara að vera að einhver hafi skrifað fréttina fyrir hann. Við þetta ranghvolfdi Aðalsteinn augum en hann hafði sig að öðru leyti í engu frammi meðan málflutningur fór fram. Gunnar Ingi skaut því inní að þetta sem fram hafi komið hefði nákvæmlega enga þýðingu fyrir málið, enga en Páll sagðist hafa tekið símtölin við Þórð og Aðalstein upp, hann hafi grunað að svo kynni að fara að í hann yrði hringt. Hvort dómari vildi ekki heyra símtölin? Dómari sagðist eftir stutta umhugsun ætla að melta þetta óvenjulega tilboð og ekki fór það svo að upptökur Páls yrðu spilaðar við flutning málsins. Segir Helga Seljan hafa tekið við símanum Sigurður spurði þá Pál að sem brotaþoli hafi hann væntanlega séð öll gögn málsins. Það hafi verið rætt hér áður að blaðamenn hafi viljað fá síma konu þinnar? Páll svarar því játandi og segir að sumarið 2021 hafi eiginkona sín fyrrverandi sent E-mail á Láru V. Júlíusdóttur, Þóru og Aðalstein þess efnis að símkort gætu verið hjá henni. Sigurður G. vitnaði til orða Gunnars Inga, að allt sem hafi komið fram í hans vitnisburði skipti ekki máli, en hann þekki nú væntanlega sakamálið betur en flestir aðrir. Þar hafi réttarstöðu sakbornings fimm blaðamenn. Nú liggi fyrir að meðal starfsmanna á þeim tíma hafi verið Helgi Seljan. Átti hann einhverja aðild að þessu máli? Páll hélt það nú. Aðilinn sem lét RÚV fá símann hafi sagt að Helgi hafi tekið við honum. Ég er viss um að konan mín afhenti Helga símann. En það muni koma fram í öðru máli, tengingin við Helga. Sigurður nefndi þá enn eitt atriði sem hann taldi skipta máli, sem er það sem Páll Vilhjálmsson hafi eftir fyrrnefndum Lasse Skytt, hvort Páll þekki til vinnubragða hans þá í tengslum við vinnuveitanda Páls - Samherja? Páll svaraði því játandi og sagðist hafa gert athugasemd við þann fréttaflutning, sem tilbúning. Hann hafi haft samband við Tíne Skarland, ritstjóra Aftenposten og svarið sem hann hafi fengið þá um kvöldið verið að þau myndu biðjast afsökunar á þessum vinnubrögðum, sem þau svo gerðu. Lét Pál hafa gögn til að leiðrétta rangfærslur Gunnar Ingi var næstur til að spyrja Pál út í, hann vék að sakagögnum í málinu og spurði hvort hann hefði afhent Páli Vilhjálmssyni þau gögn? Eitthvað af þeim, svaraði Páll og þegar hann var spurður í hvaða tilgangi svaraði hann einarðlega: „Til að leiðrétta rangfærslur. Er það bannað?“ Hann sagði Páll titlaðan blaðamann. Páll sagði muninn á sér og blaðamönnum eins og Aðalsteini vera þann að hann vildi ekki ásaka eða gera þeim upp glæpsamlegt athæfi. Þarna var farið að hitna í kolum í réttarsalnum. Gunnar Ingi spurði hvort það fælist í því að gefa til kynna að blaðamenn hafi staðið í byrlun og stuldi á síma? Gunnar Ingi lögmaður sagði það ljóst að ýmislegt færi fram í heilabúi Páls Vilhjálmssonar og þar vildu fæstir dvelja lengi.vísir/vilhelm Páll sagðist ekki ætla þeim það. Og hann geti ekki gert að því hvað nafni hans Vilhjálmsson ráði í gögnin. Aðalsteinn hins vegar segði að menn í Namibíu sætu í fangelsi og hann vildi biðja Gunnar Inga um að spyrja skjólstæðing hans út í málið því ekkert lægi fyrir um það. Gunnar Ingi spurði Pál skipstjóra þá hvort það væri rétt skilið hjá sér að það hafi verið tilviljun að dóttir hans bauð fyrrverandi eiginkonu hans í mat? Þegar hin meinta eitrun hafi átt að eiga sér stað? Páll sagðist ekkert vita um það, hann hafi ekki sett sig inn í það því um mjög veikan einstakling væri að ræða. Gunnar Ingi sagði þá að allar ályktanir um að blaðamenn hafi verið að biðja fyrrverandi eiginkonu hans um síma byggi á tölvupóstum þar sem engin svör eru til. Fullyrðingar um að blaðmenn hafi verið að biðja um eitthvað, það er ekki til neitt um það? Páll sagði þá að það væru líka 20 símtöl milli fyrrverandi eiginkonu sinnar og Þóru Arnórsdóttur og ekkert væri vitað um hvað sagt væri þar. Einkennileg atburðarás hefst Eftir þessar vitnaleiðslur var komið að því að lögmenn flyttu mál sitt og Gunnar Ingi sagði að fæst sem komið hafi fram við þessi réttarhöld hefðu nokkra þýðingu fyrir málið sjálft sem væri meiðyrðamál, ekki sakamál fyrir lögregluembættið á Norðurlandi eystra. Aðalsteinn væri blaðamaður ólíkt Páli en hann skrifi í fjölmiðil. Aðalsteinn hafi hreinan sakaferil honum, honum hafi aldrei verið stefnt sjálfum vegna ærumeiðinga þrátt fyrir mikla reynslu, menntaður í fjölmiðlafræði og margverðlaunaður blaðamaður. Við þessa athugasemd Gunnars Inga um verðlaun Aðalsteins kumraði í Páli skipstjóra en hann hafði tekið sér sæti meðal áhorfenda eftir að hafa vikið úr vitnastúku. Gunnar Ingi rakti að munur væri á titlum þessara tveggja einstaklinga sem hér ættust við í réttarsal. Umfjöllun um Samherja, þetta stóra sjávarútvegsfyrirtæki, fjallaði meðal annars um mútumál og var eitt stærsta fréttamál síðari tíma. Í framhaldinu fjallaði Aðalsteinn um að það fyrirtæki hefði fólk beinlínis í vinnu við að koma höggi á fréttamenn sem höfðu fjallað um það. Sá hópur kallaði sig Skæruliðadeild. Einn liðsmanna þessarar skæruliðadeildar, Páll Steingrímsson, starfaði sem skipstjóri á einu skipa Samherja sem í kjölfarið á þessum uppljóstrunum sá sig knúið til að biðjast afsökunar á þessari framgöngu. „Þetta er ekki léttvægt atriði í málinu,“ sagði Gunnar Ingi. Hann sagði að í kjölfar þessarar umfjöllunar um skæruleiðadeild hafi einkennileg atburðarás hafist. Sem leiddi til þess að Aðalsteinn var skyndilega kominn með stöðu sakbornings hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Fyrir tveimur árum! Hann sé grunaður um brot á friðhelgi, það sýni rannsóknargögn en hann sé ekki grunaður um að hafa stolið farsíma, afritað, hvað þá byrlað einhverri ólyfjan. Enda liggur enginn grunur um fyrir um það í þessari sakamálarannsókn. „Ekkert hefur komið fram sem bendlar Aðalstein við slíka háttsemi,“ sagði Gunnar Ingi. Hann væri einungis með þessa stöðu sakbornings vegna þess að hann skrifaði um þessa Skæruliðadeild. Sturlaðar og samansúrraðar samsæriskenningar Páls Stefndi Páll Vilhjálmsson hafi hins vegar látið þetta mál sig varða og birt það sem í rauninni er ekki hægt að kalla neitt annað en „samansúrraðar samsæriskenningar hans“. Að nafngreindir aðilar, þar á meðal stefnandi Aðalsteinn, hafi beinlínis lagt á ráðin með að eitra fyrir Páli skipstjóra og þetta hafi verið eitt stórt samsæri sem hafi kúlmíneraðist á Akureyri þar sem látið var spilast út að hann hafi verið fluttur hreppaflutningu milli miðla. Gunnar Ingi sagði að það hafi komið á daginn að það var einskær tilviljun sem réði því að Páll hitti konuna, meintan byrlunardag, sem var óvænt boðið í mat. Ef henni hefði ekki verið boðið í mat, hvaða þá? „Þetta eru sturlaðar samsæriskenningar, þær eru í raun ekki neitt annað,“ sagði Gunnar Ingi. Þá sagði hann Pál skipstjóra hafa viðurkennt að hafa látið nafna sinn bloggarann hafa gögn úr málinu nema þau gögn staðfesti ekki neitt í málinu. Engin byrlun hafi verið sönnuð af lögreglunni, enginn stuldur á síma, ekki neitt af þessu. Þetta séu bara einhverjar ályktanir sem stefndi þessa máls og einhverjir aðrir vilji að verði leiddar af þessum gögnum. Stefndi, sem er Páll Vilhjálmsson, hafi hins vegar ákveðið að láta þessar fullyrðingar eftir sér, gegn betri vitund hafi hann fullyrt ýmislegt um gögnin eins og þetta sem kom hér fram fyrir dómi: Að blaðamenn hafi beðið um að sér yrðu send þessi gögn, það séu engin slík gögn í málinu. Af ósvöruðum tölvupóstum eiginkonunnar til Aðalsteins séu dregnar stórkostlegar ályktanir sem ekkert sé til um. Ummæli stefnda feli í sér beinar og almennar staðhæfingar um að Aðalsteinn hafi framið alvarlegan glæp bæði sem aðalmaður og hlutdeildarmaður. Þetta séu ærumeiðingar. Þrátt fyrir það sem finna megi í gögnum hafi Páll haldið sig við skaðlegar ályktanir sínar, því honum hljóti að vera ljóst að þetta séu falskar staðhæfingar. En hann fylli inn í með eigin getgáum og tali um þær sem staðreyndir. Páli hafi boðist að draga þær til baka en það hafi hann ekki gert heldur þvert á móti hafi hann bætt í. Alvarlegar ásakanir meira og minna tilbúningur Páls Páll er ekki blaðamaður, sagði Gunnar Ingi, hann skrifi ekki inn á fjölmiðil. Hann skrifi hins vegar inn á vefsvæði fjölmiðils, sem endurbirti þá skrifin. Gunnar er þarna að tala um Morgunblaðið. Nú sé ekki lengur deilt um það, en hann sé ekki blaðamaður og njóti því engrar verndar laga sem eigi við um blaðamenn. En sem einstaklingur beri hann ábyrgð á því efni sem hann skrifi undir nafni. Gunnar Ingi var þarna að velta því fyrir sér hvar bæri að birta niðurstöðuna ef niðurstaða dóms yrði á þá leið. Gunnar Ingi sagði óumdeilt að öll ummæli sem tíunduð væru í stefnu beindust að Aðalsteini. Óumdeilt. Um væri að ræða alvarlegar fullyrðingar, ósannaðar, ekkert í sakagögnum málsins styddi við þær enda ættu ummælin ekki við nein rök að styðjast. Á hverju byggir hann þessar ályktanir sínar? Gunnar Ingi sagði þetta allt meira og minna tilbúning og Páll hafi sannarlega gerst sekur um athæfi sem varði við hegningarlög. Hann saki skjólstæðing sinn um afbrot sem við liggi 16 ára fangelsi í ákvæðum hegningarlaga: Líkamsárás, þjófnað, rán, byrlun, í félagi við aðra sem er til refsiþyngingar. Og þetta sé ekki verknaður sem verði til spontant heldur skipulögð glæpastarfsemi sem auki enn við alvarleikann. Þarna séu ásakanir um að stefandi hafi gerst sekur um brot gegn ákvæðum hegningarlaga, en þetta styðjist ekki við neinar staðreyndir. Aðalsteinn hafi ekki komið að neinum þessara meintu brota. Ummælin séu því alröng, til þess fallin að skaða æru stefnanda og trúverðuleika hans sem blaðamanns, það sé örugglega partur af tilgangnum með þessu. Dreifa ummælum sem viðkomandi má vita að séu ekki rétt. Sérkennilegar staðhæfingar um vistaskipti Aðalsteins Gunnar Ingi sagði að ekkert réttlæti slík skrif, ef það eigi að bera því við að skrifin séu nauðsynleg fyrir þjóðfélagsumræðu þá sé það einfaldlega ekki talið að röng ummæli eigi neitt erindi inn í þjóðfélagsumræðuna. Falskar staðhæfingar séu ekki hluti af því. Né gagnrýni Páls Vilhjálmssonar, þetta sé ásökun um refsivert athæfi, fullyrðingin ætluð til að draga úr trúverðugleika blaðamanns og slík ummæli njóti ekki verndar. Að blaðamenn eða eftir atvikum sakborningar í sakamáli eigi ekki að þurfa að þola harðari gagnrýni en hver annar, það sé bara einhver misskilningur. Gunnar Ingi rakti ýmis ummæli svo sem þau að það væri leikrit að Aðalsteinn starfaði á Stundinni en ekki á RÚV. Og að hann hafi tekið þátt í samsæri og stefnt lífi í hættu til að geta stolið af honum síma. Ekki væri hægt að skoða þessi ummæli öðru vísi en að Aðalsteinn væri í hringiðu samsærisins en um væri að ræða tilhæfulaus ummæli. Aðalsteinn hætti á RÚV á eigin forsendum og starfi enn á Stundinni nú þremur árum síðar. Páll Vilhjálmsson hljóti þá að velta fyrir sér hvers vegna Stundin sé enn borga laun þessa starfsmanns. Af hverju hann sé ekki farinn aftur heim á RÚV. Nei, það súrnar í þessari samsæriskenningu eftir því sem lengra líður. Og það sé meiðandi að sitja undir þessu. Danski blaðamaðurinn Lasse Skytt blandaðist óvænt inn í málið. Hér er hann tekinn fyrir af Staksteinum Morgunblaðsins, sem hefur löngum endurbirt bloggskrif Páls Vilhjálmssonar. Gunnar Ingi hélt áfram að rekja efnisatriði málsins lið fyrir lið og dró ekki af sér. Að Aðalsteinn væri þrautþjálfaður í blekkingum? Páll hafi ekki lagt neitt fram sem styðji þau ummæli. Og að ákæru á hendur honum væri að vænta og að Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari hjá lögregluembætti Norðurlands eystra hafi staðfest það í samtali við danska blaðamanninn Larse Skytte … jafnvel þó hann hafi lesið einhverja danska grein þá komi í ljós að þetta sé rangt með öllu. Ummælin séu röng og sett fram vísvitandi sem slík. Samsæriskenningarnar gerjast og malla Hér væri því um að ræða eina allsherjar hringavitleysu. Engin gögn staðfesti þetta, þau séu bara ekki til. Og ef það passi ekki kenningum Páls þá hljóti þeim bara að hafa verið eytt. Og ef þau eru ekki til þá heitir það „kringumstæðurök“. Þessir blaðamenn séu bara glæpamenn en allt sé það rangt og hugarburður stefnda ræður, sem er ærumeiðandi og þá ber að ómerkja það. Ekki hafi verið sýnt fram á að neitt haldi í málinu. Gunnar Ingi sagði samsæriskenningarnar „gerjast og malla í höfði stefnda og auðvitað vill maður ekki dvelja lengi þar.“ Að kringumstæðurök standi til þess að blaðamenn hafi komið að byrlun?! Þarna sé Páll búinn að teyma sjálfan sig að þeirri niðurstöðu, og ef sakagögn sem hann hafi undir höndum styðji ekki það sem hann sé að segja sé niðurstaðan sú að sönnunargögnum hafi verið eytt. Og svona var þetta eitt af öðru. Aðalsteinn hafi aldrei svo mikið sem hitt téða fyrrverandi eiginkonu Páls, þarna væri því um algerlega tilhæfulaus og stórkostlega meiðandi ummæli. „Nema í huga stefnda þar sem eitt og annað verður til.“ En um sé að ræða ærumeiðandi ummæli og þau beri að ómerkja. Fyrirvaralaus ummæli sem séu ærumeiðandi beri að ómerkja, nema þau séu rétt eða miklum vafa undirorpin. En þau verði að byggja á einhverju. Ekki skotleyfi á menn þó sakborningar megi heita Gunnar Ingi rakti ítarlega að sá misskilningur virtist uppi að ef einhver hafi réttarstöðu sakbornings, þá megi saka hann um hvað sem er?! En svo sé bara alls ekki og um það vitni dómafordæmi. Gunnar Ingi nefndi til sögunnar hið svokallaða Hlíðamál þar sem tveir sakborningar voru til umfjöllunar. Aðalsteinn sé hins vegar ekki einu sinni til rannsóknar um brot gegn þeim atriðum sem Páll fullyrði að hann sé. Nú var farið að síga á seinni hluta ræðu Gunnars Inga. Hann lauk máli sínu með að segja Pál halda því fram að hann sé menntaður blaðamaður og þekki blaðamennsku. Hann eigi þá að þekkja það líka að þar eigi að gæta góðra vinnubragða. Það sé ekki skotleyfi á sakborninga. Hver maður skuli teljast saklaus uns sekt sannist. Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Páls, steig næstur í pontu en hann var vel vopnum búinn og lagði fram þykkan skjalabunka sem hann dreifði til dómara og lögmanns sækjanda. Hann fór fram á að Páll yrði sýknaður af öllum kröfum og að Aðalsteinn hlyti að borga öll málflutningsgjöld. Sigurður sagði það rétt, Páll kannist við að hafa skrifað öll ummæli sem stefnt sé fyrir. . Og að nú eigi að ómerkja þær vegna þess að í þeim felist móðganir, aðdróttanir sem hafi verið bornar út opinberlega og með því brotið gegn einkalífi viðkomandi. En hér þyrfti að huga að tjáningarfrelsinu, að sögn Sigurðar. Hvað með mál Reynis gegn Arnþrúði? Sigurður sagði að takmörkun tjáningarfrelsins væri nokkuð sem ekki væri hægt að taka sem léttvægu atriði. Og hann nefndi til sögunnar skrif Bjargar Thorarensen um mörk tjáningarfrelsis og einkalífs, að þar væri að finna ítarlega umfjöllun um þau atriði sem þurfa að vera til staðar svo hægt sé að skerða tjáningarfrelsi viðkomandi. Eins og fram komi fram í riti Bjargar, sagði Sigurður, sé á vogarskálinni tjáningarfrelsi versus friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsið megi almennt ekki skerða nema brýn samfélagsleg nauðsyn kalli á skerðingu. Því sagðist Sigurður hafa lagt fyrir dómarann og lögmann stefanda nýlega dóma frá mannréttindadómstólnum í Strassborg sem fjalli um skrif blaðamanns um blaðamann og sjónvarpsfréttamann. Dómurinn sé frá 2021 og hann sé merkilegur dómur því þar sé hrint þeirri hugmynd hæstvirts lögmanns að blaðamenn njóti ríkari verndar en til dæmis stjórnmálamenn. Sigurður G. Guðjónsson sagði að málið snérist um tjáningarfrelsi. Hann sagði að dómarinn stæði frammi fyrir erfiðri spurningu sem væri hvers vegna það teldist nauðsynlegt að reisa Páli þar skorður en ekki öðrum?vísir/vilhelm Og Sigurður hélt áfram að tiltaka dæmi sem hann sagði að kölluðust á við þetta mál. Þar sem tjáningarfrelsið er vegið á móti friðhelgi einkalífs. Eitt af grundvallaratriðum í því er að þeir sem eru opinberar persónur njóta takmarkaðrar friðhelgi einkalífs. Og þetta hafi komið glögglega í ljós í máli sem varðaði málsókn Reynis Traustasonar blaðamanns gegn Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu. Þar hafi sérstaklega verið um það fjallað að Reynir væri opinber persóna og þyrfti sem slíkur að þola að fjallað yrði með afgerandi hætti um hann. „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“ sagði Arnþrúður um Reyni sem þá var stjórnarmaður Stundarinnar. Þetta eru ekki litlar ásakanir sem hafðar eru þarna uppi, sagði Sigurður. Og hann benti á að svo vildi nú til að lögmaður Reynis væri hann sjálfur. Dómurinn hafi hins vegar grundvallast á því að rangfærslur Arnþrúðar; að Reynir birti vísivitandi fréttir til að leggja einkalíf fólks í rúst, hefði ekkert gildi. Þetta flokkaðist sem gildisdómur. Sigurður rifjaði upp að lögmaður Arnþrúðar, sem einnig væri mikill sérfræðingur í mannréttindamálum, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, geti þakkað Gunnari Inga fyrir ötula baráttu í þessum efnum en Erla Hlynsdóttir blaðamaður hafi haft sigur fyrir mannréttindadómsstólnum. Þar hafi íslenskum dómi um ærumeiðingar hennar verið snúið við. En í þessu máli vilji Gunnar snúa þessu við. Umræða sem á erindi við samfélagið Sigurður hélt áfram upprifjun sinni, að lögmaður Arnþrúðar hefði byggt á því að orð hennar ættu brýnt erindi við almenning, að gefnu tilefni og líta þyrfti á þau sem gildisdóma. Því þyrfti hún ekki að sanna þau. Og óæskileg kæfingaráhrif yrðu ef hún yrði dæmd sek í því máli. Hæstiréttur sýknaði Arnþrúði á þeim forsendum að skilgreina þyrfti lögin þröngt og gæta yrði meðahófs hvort skorður yrðu reistar á tjáningarfrelsi. Það væri mikilvægt fyrir þjóðfélagsumræðuna. Heimild til slíks væri túlkuð rúmt. Og þarna væri komið að kjarna þessa máls, að mati Sigurðar. Hér eigi tjáningarfrelsið að sigra friðhelgi einkalífs, það verði að gæta meðalhófs, þegar verið er að tala um umræðu sem á erindi við samfélagið. Gildisdómar nytu aukinnar verndar og ekki bæri að sanna slíkt. Í þessu umáli þurfi að skoða öll ummæli sem krafist er ómerkingar á sem gildisdóma fremur en að um sé að ræða staðhæfingar um staðreyndir. Sigurður sagði að hér væru undir gögn sem stolið hafi verið og þau notuð til fréttaflutnings. Þetta sé hlutur sem erfitt sé að fjalla um vegna þess að þar er komið inn á atriði sem ekki er beinlínis til umfjöllunar. Hér væri um að ræða friðhelgisbrot á þeim gögnum sem fundust í síma Páls skipstjóra. „Þannig er nú það,“ sagði Sigurður og hélt svo áfram. Páll sé hámenntaður blaðamaður Hann sagði merkilegan aðdraganda þegar gögn skipstjórans voru tekin sem yrði að taka með í reikninginn. Að það sé uppspuni sem Páll Steingrímsson hafi farið með í morgun og allt sem Páll hafi skrifað séu hugarórar?! Það sem hins vegar liggi fyrir sé að samkvæmt skýrslu vitnis, mannsins sem átti símann er að honum var stolið, komið í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins, þar sem síminn var afritaður og frá starfsmönnum ríkisútvarpsins komust þessi gögn í hendur tveimur blaðamönnum. Aðalsteinn hafi 20 dögum áður en hann skrifaði greinina farið úr starfi hjá RÚV þar sem hann hafði farið halloka í Kveiksþætti um Samherja. „Það ber nefnilega að skoða málið ekki þröngt eins og lögmaður stefnanda segir heldur í ljósi þeirra hrakfara sem Ríkissjónvarpið, Kastljós og Kveikur, höfðu farið í tveimur atlögum að Samherja,“ sagði Sigurður. Hann hélt því fram að Helgi Seljan Jóhannesson hafi fengið Seðlabankann í lið með sér vegna þess að hann hafði misskilið skjal sem hann hafði í höndum, og gabbað Seðlabankann til að gera húsleit hjá Samherja. Með því að halda því fram að Samherji hefði brotið gjaldeyrisreglur. „Allt þetta fokkaðist upp,“ sagði Sigurður. Aðalsteinn Kjartansson mætir í réttarsal. Hann ranghvolfdi augum þegar báðir Pálar nefndu að það hlyti einhver að hafa skrifað greinina fyrir hann, í ljósi þess að hann hefði haldið því fram í yfirheyrslu að hann hefði engin gögn undir höndum. Aðalsteinn hreyfði að öðru leyti hvorki legg né lið.vísir/vilhelm Hann nefndi þá að Aðalsteinn hefði ásamt Helga og Stefáni Drengssyni skrifað heila bók sem hét „Ekkert að fela“. Á slóð Samherja í Namibíu. Á sama tíma og hann hélt því fram að Samherjaforstjóri og stjórnendur hefðu borið mútur á stjórnmálamenn í Namibíu í skiptum fyrir kvóta í fiskveiðilögsögu Namibíu. Sigurður sagði Pál gagnrýninn blaðamann, hámenntaðan á því sviði og það þýddi ekki að gera lítið úr honum og segja að hann ekki blaðamann þó hann starfi ekki á fjölmiðli. Og í því ljósi beri að meta það hvernig Páll hafi fjallað um störf þremenninganna höfunda bókarinnar. Hér sé verið að fjalla á gagnrýninn hátt um vinnubrögð þeirra. Málið eigi sér langan aðdraganda Sigurður segir Pál hafa lengi fjallað ítarlega um vinnubrögð fréttamanna í tengslum við þessi mál og fór um það nokkrum orðum. Árið 2021 var búið að kæra málið til lögreglu, það er stuldinn á símanum. Það hafi verið gert 13. nóvember 2021. Þögn annarra fjölmiðla yfir því, að enginn fjölmiðill á Íslandi skuli velta þeirri frétt upp að það hafi verið stolið síma af manni sem var í dái, síminn afritaður og afrituðu gögnin sé sérkennilegt og Páll velti því fyrir sér, hvernig það megi vera? Páll sé blaðamaður, þjóðfélagsrýnir og láti sig varða fréttir, skoði upplýsingar og skrifi um þær. Þessu þurfi dómarinn að velta því fyrir sér ef hann ætli sér að taka til greina einhverjar af ómerkingarkröfum sem fyrir liggi. Er einhver brýn nauðsyn sem kallar á að tjáningarfrelsi hans sé skert þegar fyrir liggi að Aðalsteinn hafi sjálfur ekki hikað við að bera sakir á einstaklinga? Hann beri ekki litlar sakir á stjórnendur Samherja í bókinni sinni, RÚV hafi ekki borið litlar sakir á stjórnendur í Seðlabankamálinu. En Páll Vilhjálmsson, hann er eini blaðamaðurinn sem þú getur sagt að sé frjáls, hann er ekki háður neinum, þarf ekki að verja neinn vinnuveitanda, hann þarf aðeins að koma á framfæri sínum skoðunum á þjóðfélagslegum málefnum, eins og þeim hvort það geti verið að blaðamenn hafi fengið í hendur með glæpsamlegu athæfi gögn sem þeir byggðu skrif sín á. Hvers vegna skrifar Páll þetta, jú honum ofbýður að bestu skrif blaðamanna 2021 á sviði rannsóknarblaðamennsku hafi verið það að búa til frétt um Skæruliðadeild Samherja, sem byggi á gögnum sem var fengið með ólöglegum hætti. Nýtur skipstjórinn einskis réttar, þarf ekkert að skoða siðferði blaðamanna? Er Aðalsteinn höfundur greinarinnar? spurði Sigurður. Nei, Páll Vilhjálmsson hafi ekki nítt skóinn af stefnanda, sagði Sigurður Hann sé bara að benda á að Aðalsteinn sé hluti af hópi blaðamanna sem hafi stundum farið offari. Páll kalli þetta árásarblaðamennsku. Það komi líka fram í einum pistla hans þegar verið sé að vitna í Kristinn Hrafnsson forstjóra Wikileaks, að það sé ekki sannleiksgildið sem skipti máli heldur markmiðið. Það sé þetta sem verið sé að gagnrýna, vinnubrögð, og auðvitað sé Aðalsteinn svo óheppinn að vera höfundur greinar sem byggi á stolnum gögnum. Aðalsteinn er hér að taka við blaðamannaverðlaunum ársins fyrir umfjöllun sem tók til ársins 2021. Þessi verðlaun hafa farið mjög fyrir brjóstið á Páli Vilhjálmssyni sem notar þau nú sem háðsglósu. Af hverju er Blaðamannafélagið ekki meira virði en svo að það telji vert að verðlauna blaðamenn sem eru til rannsóknar vegna brota á einkalífi? Páll þurfi ekki að þóknast einum né neinum eins og blaðamenn sem þurfa að þóknast vinnuveitanda sínum. Menn geti velt því fyrir sér af hverju Aðalsteinn hætti í góðu starfi á RÚV þar sem allir vilja vinna. Það vilji enginn vinna á einkamiðlum, þeir séu allir á hausnum. Af hverju er mikilvægt að takmarka tjáningarfrelsi Páls? Hér standi því dómari frammi fyrir þessari erfiðu ákvörðun, það er ef hann ætli að taka undir málsstað Aðalsteins og dæma einhver ummæli dauð og ómerk, að svara því hvaða brýnu nauðsyn í lýðræðislegu samfélagi kalli á það að Páll Vilhjálmsson megi ekki skrifa harðan texta? En Arnþrúður Karlsdóttir megi skrifa fastan texta, Gaukur Úlfarsson megi skrifa harðan texta um Ómar R Valdimarsson sem var almennatengill, þar sem að ýmsar sakir voru hafðar uppi, grófar fullyrðingar, honum var refsilaust að skrifa grófar umsagnir. Og Sigurður nefndi einnig mál Helga Seljan sem lögmaður fór einnig með fyrir Landsrétt. Þar hafi þótt innan marka tjáningarfrelsisins að Helgi gæti haldið því fram í sjónvarpi allra landsmanna að maður sem ekki var viðstaddur væri þekktur ofbeldismaður. Þar hafi ekki verið um að ræða mann sem hafi prófíl eins og Aðalsteinn Kjartansson. En það hafi þótt varða svo mikilvæga umræða í samfélaginu sem sneri að ofbeldi gegn konum. Sigurður sagði að sá sem færi í að lesa vörn lögmanns í því máli átti sig á því að grundvöllur lýðræðisins sé að menn fái að tjá sig og þegar opinberar persónur eins og Aðalsteinn eigi hlut í máli, þá verði hann bara að þola það eins og hver önnur opinber persóna, þola hvassyrt ummæli. „Hann verður bara að þola það,“ sagði Sigurður. Og það væri einmitt það sem Landsréttur og Hæstiréttur hafi sagt í þeim dómum sem hann hefði nú lagt fyrir dómarann í þessu máli. Sigurður spyr hvort og hvers vegna þá sé ástæða til að skerða tjáningarfrelsi Páls Vilhjálmssonar.vísir/vilhelm „Þetta liggur allt skýrt fyrir og sést í reifun minni, hvaða ummæli er vísað til, þetta er ekki allt fallegt,“ sagði Sigurður. Hann taldi skjóta skökku við að Gunnar Ingi hefði vitnað til dóma í Hlíðarmálum í málflutningi sínum til stuðnings horfir hann til Hlíðarmála þegar Fréttablaðið sagði að það væri nauðgunarbúnaður í einhverri íbúð. Þar hafi verið um að ræða menntaskólanema og ekki hægt að horfa til þess sem fordæmis. Öðru máli gegndi um Ómar, Gauk, Reyni og Arnþrúði. Það væri sambærilegt. Barómeterinn farinn að síga í réttarsalnum Sigurður ítrekaði spurningu sína hver nauðsynin væri fyrir því að takmarka málfrelsi Páls? Hann hafi ekki heyrt neitt slíkt frá lögmanni hans. „Auðvitað var hér kveðinn upp rangur dómur sem er til úrlausnar 2. maí í Landsrétti, í máli Þórðar Snæs og Arnars Þórs gegn Páli.“ Sigurður sagði þá úrlausn skipta máli í þessu sambandi en dómari sagði á móti að þeir væru hér og nú. Sigurður sagðist hafa fært fram mjög góð rök fyrir því að ekki væru lagaskilyrði fyrir því að ómerkja nein af téðum ummælum. Hann sagðist hafa látið fylgja í skjölum sínum skrif Ragnars Aðalsteinsson lögmanns sem vörðuðu mál Póra í Laxnesi sem sakaður var um dýraníð. Það væri allt leyfilegt! Sigurður lauk máli sínu á að segja miskabótakröfuna, tvær milljónir, út úr öllu korti. Þetta sé eins og menn hafi lent í slysi. Það sem máli skipti er að Aðalsteinn sé enn blaðamaður, þetta hafi ekki raskað einu né neinu í hans máli, hann sé enn að við að skrifa misgóðar greinar. Þegar þarna var komið sögu var við frostmark í réttarsalnum. Gunnar Ingi fékk að koma með andsvör og hann nýtti sér það. Hann sagði að Reynir gegn Arnþrúði væri ekki gott dæmi. Hér væri um að ræða fullyrðingar, eitthvað sem væri hægt að sanna. Og ekki væri hægt að afgreiða slíkt sem gildisdóm. Auk þess sem Reynir væri umdeilur blaðamaður, hann hefði verið í ótal dómsmálum meðan Aðalsteinn væri ekki með nein slík á bakinu. Hann hefði aðeins unnið sitt starf sem felst í að miðla upplýsingum til almennings, eins og heiðarlegt er að gera það. Og unnið til verðlauna fyrir það í stað þess að vera stefnt fyrir dóm. Vitum ekki nema Páll sé á launum hjá Samherja Þá sagði Gunnar að dæmi sem Sigurður tiltók, með að Helga hefði tekist að gabba Seðlabankann, ekki hafa nokkra þýðingu fyrir þetta mál. Því máli hafi lokið vegna þess að það vantaði einhverja reglugerðarheimild. Þá sagði Gunnar að það væru ekki rök í málinu þó ekki nokkur fjölmiðill hefði tekið samsæriskenningar Páls upp, nema þvert á móti. „Það er málið. Að Páll sé frjáls og engum háður. Hann telur sig ekki háðan sannleikanum heldur og það er vandamálið.“ Og Gunnar sagðist ekkert liggja fyrir um óhæði Páls. Það viti enginn nema Páll sé á launaskrá Samherja við að skrif sín. Eins og Skæruliðadeildin. Nú gat Páll skipstjóri ekki setið á sér lengur. „Þetta eru ærumeiðingar, Gunnar Ingi!“ hrópaði þá Páll skipstjóri. Dómari þurfti að sussa á Pál Steingrímsson og varð ekki mikið rask í kjölfarið. Páll Steingrímsson gat ekki stillt sig þegar Gunnar Ingi velti því upp að það vissi svo sem enginn hversu óháður Páll væri, hann gæti allt eins verið á launaskrá Samherja, eins og Skrímsladeildin.vísir/jakob Gunnar Ingi hélt tölu sinni áfram tiltölulega ótruflaður. Og spurði hvaða nauðsyn bæri til að vernda orðspor Aðalsteins? Trúverðugleiki hans, sem Páll vildi eyðileggja, væri nokkurs virði. Páll hins vegar hafi verið í því að birta falsfréttir eins og það sé partur af tjáningarfrelsinu?! Það þurfi að vernda orðspor fólks. Og enginn vafi leiki á um að ummælin eru ærumeiðandi fyrir stefnanda. Gunnar Ingi sagði að þetta mál gæti allt eins farið upp í Landsrétt og það væri óháð niðurstöðunni, þetta væru ólík mál. Það að vera sakborningur í máli gefi ekki skotleyfi á viðkomandi heldur þvert á móti. Það sé ekki gerð krafa til þess að Páll sé virtur sem blaðamaður, það sé ekki hægt að sitja úti í bæ, ekki starfa fyrir neinn fjölmiðil en heimta að njóta friðhelgi sem blaðamaður. Hefur ekkert álit á blaðamönnum upp til hópa Nú var klukkan farinn að ganga eitt, fjórar klukkustundir að baki, og dómari minnti menn á að þeir þyrftu að losa salinn fyrir næsta mál. Sigurður lofaði að hann yrði fljótur. Sigurður sagði að stefndi vildi að Páll hagaði sér sem blaðamaður en að hann sé ekki blaðamaður? Þetta mál eigi sér langa rót. Umfjöllun Páls um íslenska blaðamennsku, sérstaklega af hálfu Ríkisútvarpsins, nái allt aftur til 2012. Að þar sé stunduð ásökunarblaðamennska. Og enn sé Páll að gera athugasemdir. Nú megi hann sitja undir dylgjum að hann sé leigupenni Samherja. Sem hann sé ekki og hafi aldrei verið. Hann sé ófeiminn við að skrifa um Þorstein Má þegar svo beri undir. Hann starfi sem framhaldsskólakennari í Garðabæ og þetta sé eitthvað sem verði að taka sérstaklega á, dylgjur Gunnars Inga um að hann sé leigupenni Samherja. Sigurður sagði að ekkert ætti að fá því hrundið gagnvart íslenskum lögum og mannréttindasáttmála Evrópu að Páll geti ekki með hvössum orðum gagnrýnt blaðamannastéttina upp til hópa, sem hann hefur ekki mikið álit á. Reikna má með dómi í málinu eftir um fjórar vikur. Dómsmál Tjáningarfrelsi Fjölmiðlar Samherjaskjölin Samherji og Seðlabankinn Byrlunar- og símastuldarmálið Mest lesið Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent Allir starfsmenn jafnréttisaðgerða sendir í leyfi fyrir lok dags Erlent Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Innlent Yfirmaður strandgæslunnar látinn fjúka Erlent Kæra ákvörðun Trumps: „Hann getur ekki breytt stjórnarskránni með einu pennastriki“ Erlent Fjárfesta í gervigreind fyrir 70 billjónir Erlent Heitar umræður um lokun flugbrautar Innlent „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Innlent Íhugar að leggja viðbótartoll á allar vörur frá Kína Erlent 76 látnir eftir eldsvoðann í Tyrklandi Erlent Fleiri fréttir Agaleysi í skólum og geðrof tengt ADHD lyfjum Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Heitar umræður um lokun flugbrautar Eldur kviknaði í pappagámi í Skeifunni Prammi á ferðinni á Ölfusá vegna nýrrar brúar Sýklalyfjaónæmi raunveruleg ógn Kristrún væntir áframhaldandi náinna samskipta við Bandaríkin 155 milljónir til sviðslistaverkefna Dagur kveður eftir 23 ár í borginni Rýnt í fyrsta dag Trumps í embætti og deilt um Reykjavíkurflugvöll Sjúkraflug mikilvægara en „að rífast um einhver tré“ Einhver heimili enn keyrð á varaafli Hefur ekki fengið verkefni í mánuð Sjá auknar líkur á eldgosi í kortunum Öllum rýmingum aflétt Sagði skilaboð þar sem hann sagðist fullur eftirsjár fölsuð Þúsund skref aukalega skila 15 prósent lægri dánartíðni Undirbúa móttöku þeirra sem verða sendir frá Bandaríkjunum Ætla að breytast í stjórnmálaflokk á fyrsta landsfundinum í sex ár Rýmingum aflétt í Neskaupstað en ekki Seyðisfirði Ákærður fyrir tilraun til manndráps á Vopnafirði Búast við afléttingu fyrir austan í hádeginu Kaldasta árið á landinu í rúman aldarfjórðung Kallar eftir þjóðarátaki: Skólastjóri segir agaleysi innan skólanna óboðlegt Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“ Bein útsending: Veður og veitur – áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga Ráðast í átaksverkefni í kjölfar sýkingarinnar á Mánagarði Rýmingum væntanlega aflétt og fært um Fjarðarheiðina Sjá meira
Gunnar Ingi hafði þá sagt að það væri ekkert vitað um það hversu óháður Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari og bloggari væri, hann gæti allt eins verið á launum hjá Samherja við skrif sín. Það væri ekki vitað. Tekist var á um þetta og ýmislegt fleira í hressilegum málflutningi sem fram fór í sal 401 í Héraðsdómi Reykjavíkur, í ærumeiðingarmáli Aðalsteins Kjartanssonar á hendur Páli Vilhjálmssyni að mánudagsmorgni. Hér var tekist á um blaðamennsku, falsfréttir, svívirðingar, gildisdóma, falsfréttir og inní fléttuðust nokkur af stærri fréttamálum undanfarinna ára. Þetta er veisla nema fyrir þá sem í standa. „Misnotuðu veika konu til að byrla og stela“ Aðalsteinn stefnir Páli fyrir svipaðar sakir og Páll hafði áður verið dæmdur fyrir í máli af sama toga þegar þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður sama miðils, stefndu Páli fyrir meiðyrði og kröfðust ómerkingar á tvennum ummælum á bloggsíðu hans á vefsvæði Mbl.is. Annars vegar voru það ummæli um að tvímenningarnir hefðu átt „aðild, beina eða óbeina“ að því að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, hefði verið byrlað og síma hans stolið. Hins vegar voru það ummæli Páls um að saksóknari gæfi út ákæru á hendur blaðamönnunum. Páll var dæmdur sekur en hann hefur áfrýjað því máli til Landsréttar. Málið kemur til kasta Landsréttar 2. maí. Í máli Aðalsteins gegn Páli eru talsvert fleiri ummæli undir en hann krefst ómerkingar eftirfarandi ummæla sem birtust á bloggsíðu Páls, Tilfallandi athugasemdir: 1. 2. apríl 2022:: „Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi“. „…og Aðalsteinn Kjartansson á stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skiptstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“. 2. 25. ágúst 2022: „Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“. 3. 28. október 2022: „Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“ „Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“. „Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“. 4. 15. febrúar 2023: „Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“. „Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“. 5. 27. febrúar 2023: „Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“. „Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt. „En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“. „Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar.” 6. 21. mars 2023: „Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“ „Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“. „Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“. 7. 22. mars 2023: „Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“. „Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“. 8. 14. apríl 2023: „RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“ Eins og sjá má af ofansögðu hefur Páll verði iðinn við kolann og skrifað ókjör um þessi mál. Hann hefur jafnframt furðað sig á að fjölmiðlar hafi ekki tekið hans útleggingar upp. Eitt þeirra atriða var meðal þeirra sem komu til álita við aðalmeðferðina. Lögmaður Páls er Sigurður G. Guðjónsson og hann var með tvö vitni í málinu. Pálana tvo, Pál Vilhjálmsson stefnda og Pál Steingrímsson, kallaður skipstjóri. Það var sá fyrrnefndi sem gaf skýrslu fyrst. Páll sá þegar í hendi sér að fiskur lá undir steini Sigurður spurði um menntun og reynslu en fram kom að Páll hefði lært blaðamennsku við Oslóarháskóla og starfað sem blaðamaður og ritstjóri en síðustu 15 árin eða svo hafi hann bloggað auk þess að gegna starfi kennara við Framhaldsskólann í Garðabæ. Sigurður spurði Pál út í ómerkingarkröfu á einni athugasemdinni, þar sem Lasse Skytt kemur við sögu? Hver væri það? Páll sagði að þetta væri danskur blaðamaður sem talaði mjög máli blaðamannanna. En hann hafi þau ummæli einfaldlega úr grein hans að bráðlega verði ákært í málinu. Hann væri í mjög góðu sambandi við blaðamennina og hann hafi gefið sér að um ákæru væri að ræða. Sigurður spurði þá Pál út atriði sem krafist er ómerkingar á, að gögn hafi glatast, símagögn og hvaða heimildir hann hefði fyrir því? Páll sagði að um væri að ræða síma Páls Steingrímssonar skipstjóra. Síminn hans hafi verið tekinn traustataki meðan hann var meðvitundalaus, gögn úr símanum urðu fréttaefni. Páll sagðist hafa skrifað blogg um málið og hann hafi orðið var við mikil viðbrögð í samfélaginu. Hann hafi því haldið áfram að fjalla um þetta; hvernig þetta bar að með fréttir sem byggðu á birtingu gagna úr síma skipstjórans. Páll sagðist kunna blaðamennsku og hann hafi fljótlega áttaði sig á því að það væri eitthvað plan á bak við þetta, skipulag; að nákvæmlega þennan dag með stuttu millibili hafi birst í sitthvorum miðlinum frétt um „Skæruliðadeild Samherja.“ Í Stundinni og Kjarnanum. Það slær mann að það er ekkert fjallað um málið, hvernig þetta bar að og hafandi þann bakgrunn hafi hann tamið sér að fjalla um þetta. Páll vildi meina að þetta væri ábyrg fjölmiðlarýni. Páll einn um hituna Páll segir að Rakel Þorbergsdóttir fráfarandi fréttastjóri fréttastofu Ríkissjónvarpsins hafi látið af störfum fljótlega í kjölfar þessa og Aðalsteinn og Þórður Snær Júlíusson þá ritstjóri Kjarnans hafi skrifað samtímis pistla þar sem þeir segðu Pál fara með fleipur. „Hér er ósagðasta frétt íslenskrar fjölmiðlasögu,“ sagði Páll. Hann hélt áfram að rekja það hvernig hans skrif, en hann var nánast einn um að fjalla um þetta, hafi þróast. Við hann hafi haft samband aðilar sem höfðu á þessu skoðun og það styrkti hann í að fjalla um málið. Aðrir fjölmiðlar sinntu því ekki og ef þá hafi það verið á forsendum blaðamannanna sem urðu seinna sakborningar í málinu. Reyndar er ekki alveg nákvæmt hjá Páli að ekkert hafi verið um þetta fjallað, en það er aukaatriði í þessu samhengi. Sigurður lögmaður hans hélt áfram að þýfga hann um tilurð ýmissa þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á. Og Páll sagði að það sem meðal annars kæmi fram í gögnum rannsóknarinnar var horfið símtæki Páls. Og þáverandi eiginkona Páls skipstjóra játi að hafa byrlað Páli. Þóra Arnórsdóttir þáverandi ritstjóri Kastljóss biðji um símtæki konunnar, eða maður á hennar vegum, og að þeir fái að hafa símann í heilan dag. „Mér fannst einboðið að hugsunin væri að taka úr honum gögn sem skipta miklu máli um sönnunarfærsluna í Efstaleiti.“ Páll segist hafa séð gögn í málinu Sigurður spurði þá nánar út í ummælin „Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“ hvort hann hefði einhverjar heimildir fyrir þessu? Páll Vilhjálmsson sagðist hafa séð drjúgt af gögnum málsins og vitneskja um mögulega gagnaeyðingu hafi komið úr þeim gögnum. Þar sem fyrrverandi eiginkona Páls skipstjóra veiti blaðamönnum heimild til að sækja símkortið sitt á lögfræðiskrifstofu Láru V. Júlíusdóttur lögmanns í skilnaðarferli þeirra Páls skipstjóra. Páll Vilhjálmsson sagði að reynt hafi verið að hafa upp á þeim gögnum sem skipstjórinn teldi horfin. Lögreglan á Akureyri hafi haft samband við Google sem hýsi tölvupóstfang fyrrverandi eiginkonu Páls skipstjóra áður en byrlunin fór fram. Ekkert hafi hins vegar komið út úr athugun Google. Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari og bloggari. Meðal annars var tekist á um það hvort vert væri að kalla hann blaðamann en Sigurður lögmaður hans var helst á því, þó hann starfaði ekki á neinum fjölmiðli.vísir/vilhelm Næst var komið að lögmanni Aðalsteins, Gunnari Inga, að spyrja vitnið og ljóst var að hann gaf ekki mikið fyrir blaðamennsku Páls. „Þú segist hafa blaðamannamenntun?“ spurði hann vitnið. Páll sagðist ekki starfandi blaðamaður. Trúlega væru liðin tuttugu ár síðan hann fékkst við blaðamennsku. Hann jánkaði því að hann þekkti Aðalstein ekki persónulega, hann væri reyndar að sjá hann í fyrsta skipti þar og þá. Gunnar Ingi spurði Pál þá hvort hann hafi haft undir höndum gögn úr þessu sakamáli sem lögreglan á Norðurlandi eystra væri með til rannsóknar? Páll sagðist geta staðfest það, að hann hafi fengið gögn sem væru komin í umferð. Ef blaðamaður eigi kost á frumheimildum, gögnum úr lögreglurannsókn, þá nýti hann sér þau og hann geti staðfest að hann hafi séð þau gögn. Engar fréttir án byrlunar eða símastulds Gunnar Ingi spurði þá hvernig hann fengi það út að Aðalsteinn eigi beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skipstjóra? Páll sagði að án byrlunar og án stulds á síma hefði ekki orðið af neinum fréttum hvorki í Kjarnanum né Stundinni. Þetta væri alger forsenda þeirra frétta að Páll hafi verið gerður óvígur, símanum stolið og hann afritaður. Svo hægt væri að skrifa þessar fréttir. Þetta væri hans ályktun. Ef afbrot er framið og til verði eitthvert þýfi, sem einhver nýtur góðs af, sé sá þjófsnautur. Það þýðir í það minnsta óbein aðild. Páll sagði þetta skrifað snemma í ferlinu en svo hafi gögn farið að dúkka upp eftir því sem málinu vindur fram. Hann reyni að gera sér heildarmynd og leggi sig svo fram um að segja fréttir af þessu. Páll fór þá í það sem hann kallaði rökfræði 101 sem varðaði kaup Þóru Arnórsdóttur á sambærilegum síma í apríl 2021, áður en byrlunin fór fram. Sem gefi til kynna að blaðamenn hafi mátt vita að síminn væri á leiðinni. Þrautþjálfaður í blekkingum? Gunna Ingi vék þá að atriði í stefnunni þar sem Páll heldur því fram að Aðalsteinn sé þrautþjálfaður í blekkingum, hvernig megi það vera? Páll sagði að sem dæmi mætti nefna kæru sem Aðalsteinn hafi ætlað að leggja fram til Mannréttindadóms Evrópu. Engin slík kæra hafi verið lögð fram. Gunnar Ingi sagði það reyndar ekki rétt, það liggi fyrir að slík kæra hafi verið send út til mannréttindadómstólsins og lögð fram þar. Páll sagðist þá geta vitnað til skýrslu sem tekin var af Aðalsteini. Og dró fram blöð úr jakka sínum. Páll sagði Aðalstein hafa haldið því fram að hann hefði aldrei haft téð gögn undir höndum. Hvernig er hægt að skrifa frétt án þess. Það væri ekki hægt. Líney Dan Gunnarsdóttir var að taka lögmannspróf og hún sat réttarhöldin. Gunnar Ingi sagði að frásögn þeirra Páls og Páls hefði sáralítið ef nokkuð með meiðyrðamálið sjálft að gera.vísir/vilhelm Gunnar Ingi spurði þá út í fullyrðingu um að Aðalsteinn ætti von á ákæru, hvort það væri rétt skilið að Páll byggði það á skrifum Lasse Skytt, hins danska blaðamanns? Páll sagði danska blaðamanninn hafa haft samband við Eyþór, aðstoðarsaksóknara hjá lögregluembættinu fyrir norðan, að ákærur væru væntanlegar. Þetta hafi hann uppúr Aftenposten. Páll sagðist hafa notað blaðamenn í fleirtölu. Komið væri á samband við fyrrverandi eiginkonu Páls skipstjóra, sem væri veikur einstaklingur, og skipulagt að hún stæli símanum. Hver verkaskipting blaðamannanna væri vissi hann ekki. En vitað sé að farsími sömu gerðar og Páll átti hafi verið keyptur stuttu áður en byrlun fór fram. Viku eftir að lögreglan hafi borið þetta undir Stefán Eiríksson útvarpsstjóra hafi Þóra Arnórsdóttir verið látin fara frá RÚV. „Eru þetta þínar ályktanir?“ spurði Gunnar Ingi þá. „Nei,“ sagði Páll. Hann hafi séð gögn sem varði samskipti Stefáns Eiríkssonar og lögreglunnar um þennan tiltekna síma. Fjölmiðlar væru ekki áfram um að fjalla um þetta mál en þetta væru gögn sem komin væru í umferð milli sakborninga og tveggja brothafa. Blaðamenn máttu vita að síminn var á leiðinni Um sé að ræða að minnsta kosti fimm blaðamenn sem að koma en Páll sagðist ekki geta fullyrt að Aðalsteinn hafi verið í samskiptum við konuna. En Aðalsteinn birti 21. maí grein sem er upp úr gögnum Páls skipstjóra. Til að komast í þau gögn þurfi að vera einhver samskipti við fólk sem kemst yfir gögnin. Þetta hafi verið birt samdægurs og augljóst að Aðalsteinn sé með vitneskju um málsþættina því að í Kjarnanum, systurmiðli Stundarinnar, sé viðurkennt að lögbrot hafi farið fram áður en gögnin komu fram. Blaðamenn viti að lögbrot hafi verið framið og fyrst og fremst sé skylda blaðamanna að upplýsa um afbrot en ekki hylma yfir. Gögnin sýni fram á að sími sé afritaður í Efstaleiti, samskonar sími svo keyptur fyrir byrlunina. Páll sagðist skrifa bloggið fyrir eigin reikning og á eigin ábyrgð. Hann sagðist telja að lögreglan drægi sínar ályktanir líka. Ákærur hafa ekki verið gefnar út þannig að rannsókn stendur enn yfir. Þá spurði Gunnar Ingi út í ummæli Páls þess efnis að Aðalsteinn hafi verið „fluttur“ af RÚV á Stundina. Páll sagði Aðalstein hafa farið þangað þremur dögum áður en Páli var byrlað, þaðan sem hann hafi unnið undir stjórn Þóru Arnórsdóttur. Og yfir á Stundina. Það hafi þótt merkilegt að blaðamaður skipti um starf í hádeginu. Slíkt gerist ekki nema yfirmenn komi þar að. Þóra ekki að fara í tölvuleik í símanum Páll hélt áfram ótrauður og gaf ekkert eftir. Þóra Arnórsdóttir hafi fengið símann í einn dag og það liggi í augum uppi til hvers. Hún hafi ekki verið að fara í tölvuleik í símanum heldur rannsaka innihald hans. Veika konan veiti svo Aðalsteini heimild til að fara yfir símakort sitt, augljóst að einstaklingur framselji ekki síma sinn nema til að einhverjir geti farið þar inn og tekið þar út það sem er. „Hvað staðfestir það að stefnandi eftir atvikum hafi eytt sönnunargögnum?“ spurði Gunnar Ingi. „Þú ert að meina að þeir hafi farið í tölvuleik?“ spyrði Páll á móti en dómari sagði hér um tiltölulega skýra spurningu að ræða. Páll sagði að blaðamenn hafi vitað um lögbrotið og í Kjarnanum segi í rammagrein að lögbrot hafi verið framið en blaðamenn ekki átt þar hlut að máli. Hér væri því um óbeina aðild að ræða. „Og þú ert þú með þessum ummælum að fullyrða að blaðamenn hafi framið alvarleg lögbrot?“ spurði Gunnar Ingi. Páll sagði að hann væri að segja að lögbrot hafi verið framið, blaðamenn væru í minnsta lagið þjófsnautar af því að hafa fengið afnot af gögnunum. Þetta lægi fyrir. Páll skipstjóri hætt kominn Þegar hér var komið sögu var blaðamaður farinn að velta því fyrir sér hvort verið væri að rétta í meiðyrðamáli eða hvort um væri að ræða mál sem varða kenningar Páls Vilhjálmssonar um það sem hann vill kalla Byrlunarmálið. Og ekki hvarf sú tilfinning þegar næsta vitni tók sæti. En þar var kominn Páll skipstjóri Steingrímsson. Hann sagðist kannast við greinarnarnar umræddu, um Skæruliðadeildina. Páll rakti aðdragandann að símamálinu, að hann hafi verið með skip sem heiti Bergur VE, og hann hafi ákveðið að stoppa í Reykjavík og dvalist á Hótel Óðinsvéum. Þetta var sama dag og Aðalsteinn lauk störfum á RÚV og fór yfir á Stundina. Páll Steingrímsson í héraðsdómi. Hann staðfesti að hafa látið Pál nafna sinn hafa gögn í málinu til að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem hann sagði uppi í málinu.vísir/jakob Páll fór tiltölulega hratt yfir sögu. Hann ákveður að keyra norður til síns heima og er að vinna í garðinum þegar hans fyrrverandi birtist skyndilega, þau eigi stutt spjall. Páll segir að þau hafi haft þann hátt á að hún fengi sér bjór í bolla og sígarettu og skilið afganginn úr bjórdósinni eftir fyrir sig. Hann hafi ekki viljað drekka þarna, hann hafi verið nýbúinn að bursta í sér tennurnar, en eitthvað verður til að hann skellir honum í sig og vaknar nokkrum dögum síðar á gjörgæslu í Reykjavík. Símanum stolið og hann afritaður Páll segist ekkert muna eftir málsatvikum en nágrannar hafi tjáð sér að hann hafi barið þar á dyr og síðan hnigið niður. Páll sagði nágranna sína hafa hringt á sjúkrabíl og þau á Akureyri ekki talið sig hafa ráð til að forða honum frá bráðum bana. Hann var því fluttur til Reykjavíkur og hann endurlífgaður fjórum sinnum, svo tæpt stóð með að hann lifði. Hann var settur á svokallaðan dauðavagn og var svo fluttur á nýrnadeild því nýrun væru svo veik. Þar var fylgst með því hvort komnar væru varanlegar skemmdir á nýrunum. Páll sagði að meðan hann var á gjörgæslunni hafi börn hans verið í kringum hann, eldri dóttir hans sem var að fara aftur norður, yngri dóttir hans bauð honum ipad svo hann hefði einhverja afþreyingu. Sonur hans spurði hann hvort hann væri ekki með Samsung account og þegar hann var að skoða hann sagði hann: Pabbi, síminn þinn er uppi í Efstaleiti! Páll taldi það vitleysu, hann var á Borgarspítalanum í næsta nágrenni en sonur hans hafi einfaldlega stækkað kortið og þá hafi það komið á daginn. Þetta hafi svo verið staðfest seinna í yfirheyrslum hjá héraðssaksóknara að starfsmaður Ríkissjónvarpsins hafi fengið símann í hendurnar. Þá greindi Páll frá því að hans fyrrverandi hafi komið með tösku og síminn var þar í. Honum hafi þótt það skrítið að það væru eftir 47 prósent á batteríinu því hann hefði talið að síminn ætti að vera straumlaus. En rökhugsunin hafi ekki verið sem skyldi eftir veikindin. Páll lýsti því þá að þegar sími er afritaður þá hverfi ýmis öpp af forsíðu skjásins þó þau séu þar ennþá. Tók upp samtöl sín við Þórð Snæ og Aðalstein Sigurður G. spurði Pál hvaðan hann hefði þær upplýsingar að sími hans hafi verið afritaður og hver væri þar að verki? Páll segir það þannig að hann hafi gert sér grein fyrir því 13. maí 2021 og 14. maí hafi hann farið og kært málið til lögreglu. Hann hafi aldrei kært hvorki einn né neinn, það sé vegna rannsóknar lögreglu sem viðkomandi menn séu sakborningar í málinu. Páll sagði sig hafa grunað að hann myndi fá símhringingar og það hafi gerst sem hann ætlaði, að með 11 mínútna millibili, þegar hann var að koma út af lögreglustöðinni, hafi Þórður Snær og þá Aðalsteinn hringt í sig. „Ég veit þá hvert gögnin rötuðu,“ sagði skipstjórinn. Sigurður G. Guðjónsson sneri upp á málið þegar hann nefndi að sjálfur hafi hann verið lögmaður Reynis Traustasonar blaðamanns í máli hans á hendur Arnþrúði Karlsdóttur, sem tapaðist því svívirðingar Arnþrúðar flokkuðust undir gildisdóm.vísir/vilhelm Páll vék þá að því að Aðalsteinn hefði staðhæft að hann hefði aldrei haft gögnin undir höndum og það hlyti þá bara að vera að einhver hafi skrifað fréttina fyrir hann. Við þetta ranghvolfdi Aðalsteinn augum en hann hafði sig að öðru leyti í engu frammi meðan málflutningur fór fram. Gunnar Ingi skaut því inní að þetta sem fram hafi komið hefði nákvæmlega enga þýðingu fyrir málið, enga en Páll sagðist hafa tekið símtölin við Þórð og Aðalstein upp, hann hafi grunað að svo kynni að fara að í hann yrði hringt. Hvort dómari vildi ekki heyra símtölin? Dómari sagðist eftir stutta umhugsun ætla að melta þetta óvenjulega tilboð og ekki fór það svo að upptökur Páls yrðu spilaðar við flutning málsins. Segir Helga Seljan hafa tekið við símanum Sigurður spurði þá Pál að sem brotaþoli hafi hann væntanlega séð öll gögn málsins. Það hafi verið rætt hér áður að blaðamenn hafi viljað fá síma konu þinnar? Páll svarar því játandi og segir að sumarið 2021 hafi eiginkona sín fyrrverandi sent E-mail á Láru V. Júlíusdóttur, Þóru og Aðalstein þess efnis að símkort gætu verið hjá henni. Sigurður G. vitnaði til orða Gunnars Inga, að allt sem hafi komið fram í hans vitnisburði skipti ekki máli, en hann þekki nú væntanlega sakamálið betur en flestir aðrir. Þar hafi réttarstöðu sakbornings fimm blaðamenn. Nú liggi fyrir að meðal starfsmanna á þeim tíma hafi verið Helgi Seljan. Átti hann einhverja aðild að þessu máli? Páll hélt það nú. Aðilinn sem lét RÚV fá símann hafi sagt að Helgi hafi tekið við honum. Ég er viss um að konan mín afhenti Helga símann. En það muni koma fram í öðru máli, tengingin við Helga. Sigurður nefndi þá enn eitt atriði sem hann taldi skipta máli, sem er það sem Páll Vilhjálmsson hafi eftir fyrrnefndum Lasse Skytt, hvort Páll þekki til vinnubragða hans þá í tengslum við vinnuveitanda Páls - Samherja? Páll svaraði því játandi og sagðist hafa gert athugasemd við þann fréttaflutning, sem tilbúning. Hann hafi haft samband við Tíne Skarland, ritstjóra Aftenposten og svarið sem hann hafi fengið þá um kvöldið verið að þau myndu biðjast afsökunar á þessum vinnubrögðum, sem þau svo gerðu. Lét Pál hafa gögn til að leiðrétta rangfærslur Gunnar Ingi var næstur til að spyrja Pál út í, hann vék að sakagögnum í málinu og spurði hvort hann hefði afhent Páli Vilhjálmssyni þau gögn? Eitthvað af þeim, svaraði Páll og þegar hann var spurður í hvaða tilgangi svaraði hann einarðlega: „Til að leiðrétta rangfærslur. Er það bannað?“ Hann sagði Páll titlaðan blaðamann. Páll sagði muninn á sér og blaðamönnum eins og Aðalsteini vera þann að hann vildi ekki ásaka eða gera þeim upp glæpsamlegt athæfi. Þarna var farið að hitna í kolum í réttarsalnum. Gunnar Ingi spurði hvort það fælist í því að gefa til kynna að blaðamenn hafi staðið í byrlun og stuldi á síma? Gunnar Ingi lögmaður sagði það ljóst að ýmislegt færi fram í heilabúi Páls Vilhjálmssonar og þar vildu fæstir dvelja lengi.vísir/vilhelm Páll sagðist ekki ætla þeim það. Og hann geti ekki gert að því hvað nafni hans Vilhjálmsson ráði í gögnin. Aðalsteinn hins vegar segði að menn í Namibíu sætu í fangelsi og hann vildi biðja Gunnar Inga um að spyrja skjólstæðing hans út í málið því ekkert lægi fyrir um það. Gunnar Ingi spurði Pál skipstjóra þá hvort það væri rétt skilið hjá sér að það hafi verið tilviljun að dóttir hans bauð fyrrverandi eiginkonu hans í mat? Þegar hin meinta eitrun hafi átt að eiga sér stað? Páll sagðist ekkert vita um það, hann hafi ekki sett sig inn í það því um mjög veikan einstakling væri að ræða. Gunnar Ingi sagði þá að allar ályktanir um að blaðamenn hafi verið að biðja fyrrverandi eiginkonu hans um síma byggi á tölvupóstum þar sem engin svör eru til. Fullyrðingar um að blaðmenn hafi verið að biðja um eitthvað, það er ekki til neitt um það? Páll sagði þá að það væru líka 20 símtöl milli fyrrverandi eiginkonu sinnar og Þóru Arnórsdóttur og ekkert væri vitað um hvað sagt væri þar. Einkennileg atburðarás hefst Eftir þessar vitnaleiðslur var komið að því að lögmenn flyttu mál sitt og Gunnar Ingi sagði að fæst sem komið hafi fram við þessi réttarhöld hefðu nokkra þýðingu fyrir málið sjálft sem væri meiðyrðamál, ekki sakamál fyrir lögregluembættið á Norðurlandi eystra. Aðalsteinn væri blaðamaður ólíkt Páli en hann skrifi í fjölmiðil. Aðalsteinn hafi hreinan sakaferil honum, honum hafi aldrei verið stefnt sjálfum vegna ærumeiðinga þrátt fyrir mikla reynslu, menntaður í fjölmiðlafræði og margverðlaunaður blaðamaður. Við þessa athugasemd Gunnars Inga um verðlaun Aðalsteins kumraði í Páli skipstjóra en hann hafði tekið sér sæti meðal áhorfenda eftir að hafa vikið úr vitnastúku. Gunnar Ingi rakti að munur væri á titlum þessara tveggja einstaklinga sem hér ættust við í réttarsal. Umfjöllun um Samherja, þetta stóra sjávarútvegsfyrirtæki, fjallaði meðal annars um mútumál og var eitt stærsta fréttamál síðari tíma. Í framhaldinu fjallaði Aðalsteinn um að það fyrirtæki hefði fólk beinlínis í vinnu við að koma höggi á fréttamenn sem höfðu fjallað um það. Sá hópur kallaði sig Skæruliðadeild. Einn liðsmanna þessarar skæruliðadeildar, Páll Steingrímsson, starfaði sem skipstjóri á einu skipa Samherja sem í kjölfarið á þessum uppljóstrunum sá sig knúið til að biðjast afsökunar á þessari framgöngu. „Þetta er ekki léttvægt atriði í málinu,“ sagði Gunnar Ingi. Hann sagði að í kjölfar þessarar umfjöllunar um skæruleiðadeild hafi einkennileg atburðarás hafist. Sem leiddi til þess að Aðalsteinn var skyndilega kominn með stöðu sakbornings hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Fyrir tveimur árum! Hann sé grunaður um brot á friðhelgi, það sýni rannsóknargögn en hann sé ekki grunaður um að hafa stolið farsíma, afritað, hvað þá byrlað einhverri ólyfjan. Enda liggur enginn grunur um fyrir um það í þessari sakamálarannsókn. „Ekkert hefur komið fram sem bendlar Aðalstein við slíka háttsemi,“ sagði Gunnar Ingi. Hann væri einungis með þessa stöðu sakbornings vegna þess að hann skrifaði um þessa Skæruliðadeild. Sturlaðar og samansúrraðar samsæriskenningar Páls Stefndi Páll Vilhjálmsson hafi hins vegar látið þetta mál sig varða og birt það sem í rauninni er ekki hægt að kalla neitt annað en „samansúrraðar samsæriskenningar hans“. Að nafngreindir aðilar, þar á meðal stefnandi Aðalsteinn, hafi beinlínis lagt á ráðin með að eitra fyrir Páli skipstjóra og þetta hafi verið eitt stórt samsæri sem hafi kúlmíneraðist á Akureyri þar sem látið var spilast út að hann hafi verið fluttur hreppaflutningu milli miðla. Gunnar Ingi sagði að það hafi komið á daginn að það var einskær tilviljun sem réði því að Páll hitti konuna, meintan byrlunardag, sem var óvænt boðið í mat. Ef henni hefði ekki verið boðið í mat, hvaða þá? „Þetta eru sturlaðar samsæriskenningar, þær eru í raun ekki neitt annað,“ sagði Gunnar Ingi. Þá sagði hann Pál skipstjóra hafa viðurkennt að hafa látið nafna sinn bloggarann hafa gögn úr málinu nema þau gögn staðfesti ekki neitt í málinu. Engin byrlun hafi verið sönnuð af lögreglunni, enginn stuldur á síma, ekki neitt af þessu. Þetta séu bara einhverjar ályktanir sem stefndi þessa máls og einhverjir aðrir vilji að verði leiddar af þessum gögnum. Stefndi, sem er Páll Vilhjálmsson, hafi hins vegar ákveðið að láta þessar fullyrðingar eftir sér, gegn betri vitund hafi hann fullyrt ýmislegt um gögnin eins og þetta sem kom hér fram fyrir dómi: Að blaðamenn hafi beðið um að sér yrðu send þessi gögn, það séu engin slík gögn í málinu. Af ósvöruðum tölvupóstum eiginkonunnar til Aðalsteins séu dregnar stórkostlegar ályktanir sem ekkert sé til um. Ummæli stefnda feli í sér beinar og almennar staðhæfingar um að Aðalsteinn hafi framið alvarlegan glæp bæði sem aðalmaður og hlutdeildarmaður. Þetta séu ærumeiðingar. Þrátt fyrir það sem finna megi í gögnum hafi Páll haldið sig við skaðlegar ályktanir sínar, því honum hljóti að vera ljóst að þetta séu falskar staðhæfingar. En hann fylli inn í með eigin getgáum og tali um þær sem staðreyndir. Páli hafi boðist að draga þær til baka en það hafi hann ekki gert heldur þvert á móti hafi hann bætt í. Alvarlegar ásakanir meira og minna tilbúningur Páls Páll er ekki blaðamaður, sagði Gunnar Ingi, hann skrifi ekki inn á fjölmiðil. Hann skrifi hins vegar inn á vefsvæði fjölmiðils, sem endurbirti þá skrifin. Gunnar er þarna að tala um Morgunblaðið. Nú sé ekki lengur deilt um það, en hann sé ekki blaðamaður og njóti því engrar verndar laga sem eigi við um blaðamenn. En sem einstaklingur beri hann ábyrgð á því efni sem hann skrifi undir nafni. Gunnar Ingi var þarna að velta því fyrir sér hvar bæri að birta niðurstöðuna ef niðurstaða dóms yrði á þá leið. Gunnar Ingi sagði óumdeilt að öll ummæli sem tíunduð væru í stefnu beindust að Aðalsteini. Óumdeilt. Um væri að ræða alvarlegar fullyrðingar, ósannaðar, ekkert í sakagögnum málsins styddi við þær enda ættu ummælin ekki við nein rök að styðjast. Á hverju byggir hann þessar ályktanir sínar? Gunnar Ingi sagði þetta allt meira og minna tilbúning og Páll hafi sannarlega gerst sekur um athæfi sem varði við hegningarlög. Hann saki skjólstæðing sinn um afbrot sem við liggi 16 ára fangelsi í ákvæðum hegningarlaga: Líkamsárás, þjófnað, rán, byrlun, í félagi við aðra sem er til refsiþyngingar. Og þetta sé ekki verknaður sem verði til spontant heldur skipulögð glæpastarfsemi sem auki enn við alvarleikann. Þarna séu ásakanir um að stefandi hafi gerst sekur um brot gegn ákvæðum hegningarlaga, en þetta styðjist ekki við neinar staðreyndir. Aðalsteinn hafi ekki komið að neinum þessara meintu brota. Ummælin séu því alröng, til þess fallin að skaða æru stefnanda og trúverðuleika hans sem blaðamanns, það sé örugglega partur af tilgangnum með þessu. Dreifa ummælum sem viðkomandi má vita að séu ekki rétt. Sérkennilegar staðhæfingar um vistaskipti Aðalsteins Gunnar Ingi sagði að ekkert réttlæti slík skrif, ef það eigi að bera því við að skrifin séu nauðsynleg fyrir þjóðfélagsumræðu þá sé það einfaldlega ekki talið að röng ummæli eigi neitt erindi inn í þjóðfélagsumræðuna. Falskar staðhæfingar séu ekki hluti af því. Né gagnrýni Páls Vilhjálmssonar, þetta sé ásökun um refsivert athæfi, fullyrðingin ætluð til að draga úr trúverðugleika blaðamanns og slík ummæli njóti ekki verndar. Að blaðamenn eða eftir atvikum sakborningar í sakamáli eigi ekki að þurfa að þola harðari gagnrýni en hver annar, það sé bara einhver misskilningur. Gunnar Ingi rakti ýmis ummæli svo sem þau að það væri leikrit að Aðalsteinn starfaði á Stundinni en ekki á RÚV. Og að hann hafi tekið þátt í samsæri og stefnt lífi í hættu til að geta stolið af honum síma. Ekki væri hægt að skoða þessi ummæli öðru vísi en að Aðalsteinn væri í hringiðu samsærisins en um væri að ræða tilhæfulaus ummæli. Aðalsteinn hætti á RÚV á eigin forsendum og starfi enn á Stundinni nú þremur árum síðar. Páll Vilhjálmsson hljóti þá að velta fyrir sér hvers vegna Stundin sé enn borga laun þessa starfsmanns. Af hverju hann sé ekki farinn aftur heim á RÚV. Nei, það súrnar í þessari samsæriskenningu eftir því sem lengra líður. Og það sé meiðandi að sitja undir þessu. Danski blaðamaðurinn Lasse Skytt blandaðist óvænt inn í málið. Hér er hann tekinn fyrir af Staksteinum Morgunblaðsins, sem hefur löngum endurbirt bloggskrif Páls Vilhjálmssonar. Gunnar Ingi hélt áfram að rekja efnisatriði málsins lið fyrir lið og dró ekki af sér. Að Aðalsteinn væri þrautþjálfaður í blekkingum? Páll hafi ekki lagt neitt fram sem styðji þau ummæli. Og að ákæru á hendur honum væri að vænta og að Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari hjá lögregluembætti Norðurlands eystra hafi staðfest það í samtali við danska blaðamanninn Larse Skytte … jafnvel þó hann hafi lesið einhverja danska grein þá komi í ljós að þetta sé rangt með öllu. Ummælin séu röng og sett fram vísvitandi sem slík. Samsæriskenningarnar gerjast og malla Hér væri því um að ræða eina allsherjar hringavitleysu. Engin gögn staðfesti þetta, þau séu bara ekki til. Og ef það passi ekki kenningum Páls þá hljóti þeim bara að hafa verið eytt. Og ef þau eru ekki til þá heitir það „kringumstæðurök“. Þessir blaðamenn séu bara glæpamenn en allt sé það rangt og hugarburður stefnda ræður, sem er ærumeiðandi og þá ber að ómerkja það. Ekki hafi verið sýnt fram á að neitt haldi í málinu. Gunnar Ingi sagði samsæriskenningarnar „gerjast og malla í höfði stefnda og auðvitað vill maður ekki dvelja lengi þar.“ Að kringumstæðurök standi til þess að blaðamenn hafi komið að byrlun?! Þarna sé Páll búinn að teyma sjálfan sig að þeirri niðurstöðu, og ef sakagögn sem hann hafi undir höndum styðji ekki það sem hann sé að segja sé niðurstaðan sú að sönnunargögnum hafi verið eytt. Og svona var þetta eitt af öðru. Aðalsteinn hafi aldrei svo mikið sem hitt téða fyrrverandi eiginkonu Páls, þarna væri því um algerlega tilhæfulaus og stórkostlega meiðandi ummæli. „Nema í huga stefnda þar sem eitt og annað verður til.“ En um sé að ræða ærumeiðandi ummæli og þau beri að ómerkja. Fyrirvaralaus ummæli sem séu ærumeiðandi beri að ómerkja, nema þau séu rétt eða miklum vafa undirorpin. En þau verði að byggja á einhverju. Ekki skotleyfi á menn þó sakborningar megi heita Gunnar Ingi rakti ítarlega að sá misskilningur virtist uppi að ef einhver hafi réttarstöðu sakbornings, þá megi saka hann um hvað sem er?! En svo sé bara alls ekki og um það vitni dómafordæmi. Gunnar Ingi nefndi til sögunnar hið svokallaða Hlíðamál þar sem tveir sakborningar voru til umfjöllunar. Aðalsteinn sé hins vegar ekki einu sinni til rannsóknar um brot gegn þeim atriðum sem Páll fullyrði að hann sé. Nú var farið að síga á seinni hluta ræðu Gunnars Inga. Hann lauk máli sínu með að segja Pál halda því fram að hann sé menntaður blaðamaður og þekki blaðamennsku. Hann eigi þá að þekkja það líka að þar eigi að gæta góðra vinnubragða. Það sé ekki skotleyfi á sakborninga. Hver maður skuli teljast saklaus uns sekt sannist. Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Páls, steig næstur í pontu en hann var vel vopnum búinn og lagði fram þykkan skjalabunka sem hann dreifði til dómara og lögmanns sækjanda. Hann fór fram á að Páll yrði sýknaður af öllum kröfum og að Aðalsteinn hlyti að borga öll málflutningsgjöld. Sigurður sagði það rétt, Páll kannist við að hafa skrifað öll ummæli sem stefnt sé fyrir. . Og að nú eigi að ómerkja þær vegna þess að í þeim felist móðganir, aðdróttanir sem hafi verið bornar út opinberlega og með því brotið gegn einkalífi viðkomandi. En hér þyrfti að huga að tjáningarfrelsinu, að sögn Sigurðar. Hvað með mál Reynis gegn Arnþrúði? Sigurður sagði að takmörkun tjáningarfrelsins væri nokkuð sem ekki væri hægt að taka sem léttvægu atriði. Og hann nefndi til sögunnar skrif Bjargar Thorarensen um mörk tjáningarfrelsis og einkalífs, að þar væri að finna ítarlega umfjöllun um þau atriði sem þurfa að vera til staðar svo hægt sé að skerða tjáningarfrelsi viðkomandi. Eins og fram komi fram í riti Bjargar, sagði Sigurður, sé á vogarskálinni tjáningarfrelsi versus friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsið megi almennt ekki skerða nema brýn samfélagsleg nauðsyn kalli á skerðingu. Því sagðist Sigurður hafa lagt fyrir dómarann og lögmann stefanda nýlega dóma frá mannréttindadómstólnum í Strassborg sem fjalli um skrif blaðamanns um blaðamann og sjónvarpsfréttamann. Dómurinn sé frá 2021 og hann sé merkilegur dómur því þar sé hrint þeirri hugmynd hæstvirts lögmanns að blaðamenn njóti ríkari verndar en til dæmis stjórnmálamenn. Sigurður G. Guðjónsson sagði að málið snérist um tjáningarfrelsi. Hann sagði að dómarinn stæði frammi fyrir erfiðri spurningu sem væri hvers vegna það teldist nauðsynlegt að reisa Páli þar skorður en ekki öðrum?vísir/vilhelm Og Sigurður hélt áfram að tiltaka dæmi sem hann sagði að kölluðust á við þetta mál. Þar sem tjáningarfrelsið er vegið á móti friðhelgi einkalífs. Eitt af grundvallaratriðum í því er að þeir sem eru opinberar persónur njóta takmarkaðrar friðhelgi einkalífs. Og þetta hafi komið glögglega í ljós í máli sem varðaði málsókn Reynis Traustasonar blaðamanns gegn Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu. Þar hafi sérstaklega verið um það fjallað að Reynir væri opinber persóna og þyrfti sem slíkur að þola að fjallað yrði með afgerandi hætti um hann. „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“ sagði Arnþrúður um Reyni sem þá var stjórnarmaður Stundarinnar. Þetta eru ekki litlar ásakanir sem hafðar eru þarna uppi, sagði Sigurður. Og hann benti á að svo vildi nú til að lögmaður Reynis væri hann sjálfur. Dómurinn hafi hins vegar grundvallast á því að rangfærslur Arnþrúðar; að Reynir birti vísivitandi fréttir til að leggja einkalíf fólks í rúst, hefði ekkert gildi. Þetta flokkaðist sem gildisdómur. Sigurður rifjaði upp að lögmaður Arnþrúðar, sem einnig væri mikill sérfræðingur í mannréttindamálum, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, geti þakkað Gunnari Inga fyrir ötula baráttu í þessum efnum en Erla Hlynsdóttir blaðamaður hafi haft sigur fyrir mannréttindadómsstólnum. Þar hafi íslenskum dómi um ærumeiðingar hennar verið snúið við. En í þessu máli vilji Gunnar snúa þessu við. Umræða sem á erindi við samfélagið Sigurður hélt áfram upprifjun sinni, að lögmaður Arnþrúðar hefði byggt á því að orð hennar ættu brýnt erindi við almenning, að gefnu tilefni og líta þyrfti á þau sem gildisdóma. Því þyrfti hún ekki að sanna þau. Og óæskileg kæfingaráhrif yrðu ef hún yrði dæmd sek í því máli. Hæstiréttur sýknaði Arnþrúði á þeim forsendum að skilgreina þyrfti lögin þröngt og gæta yrði meðahófs hvort skorður yrðu reistar á tjáningarfrelsi. Það væri mikilvægt fyrir þjóðfélagsumræðuna. Heimild til slíks væri túlkuð rúmt. Og þarna væri komið að kjarna þessa máls, að mati Sigurðar. Hér eigi tjáningarfrelsið að sigra friðhelgi einkalífs, það verði að gæta meðalhófs, þegar verið er að tala um umræðu sem á erindi við samfélagið. Gildisdómar nytu aukinnar verndar og ekki bæri að sanna slíkt. Í þessu umáli þurfi að skoða öll ummæli sem krafist er ómerkingar á sem gildisdóma fremur en að um sé að ræða staðhæfingar um staðreyndir. Sigurður sagði að hér væru undir gögn sem stolið hafi verið og þau notuð til fréttaflutnings. Þetta sé hlutur sem erfitt sé að fjalla um vegna þess að þar er komið inn á atriði sem ekki er beinlínis til umfjöllunar. Hér væri um að ræða friðhelgisbrot á þeim gögnum sem fundust í síma Páls skipstjóra. „Þannig er nú það,“ sagði Sigurður og hélt svo áfram. Páll sé hámenntaður blaðamaður Hann sagði merkilegan aðdraganda þegar gögn skipstjórans voru tekin sem yrði að taka með í reikninginn. Að það sé uppspuni sem Páll Steingrímsson hafi farið með í morgun og allt sem Páll hafi skrifað séu hugarórar?! Það sem hins vegar liggi fyrir sé að samkvæmt skýrslu vitnis, mannsins sem átti símann er að honum var stolið, komið í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins, þar sem síminn var afritaður og frá starfsmönnum ríkisútvarpsins komust þessi gögn í hendur tveimur blaðamönnum. Aðalsteinn hafi 20 dögum áður en hann skrifaði greinina farið úr starfi hjá RÚV þar sem hann hafði farið halloka í Kveiksþætti um Samherja. „Það ber nefnilega að skoða málið ekki þröngt eins og lögmaður stefnanda segir heldur í ljósi þeirra hrakfara sem Ríkissjónvarpið, Kastljós og Kveikur, höfðu farið í tveimur atlögum að Samherja,“ sagði Sigurður. Hann hélt því fram að Helgi Seljan Jóhannesson hafi fengið Seðlabankann í lið með sér vegna þess að hann hafði misskilið skjal sem hann hafði í höndum, og gabbað Seðlabankann til að gera húsleit hjá Samherja. Með því að halda því fram að Samherji hefði brotið gjaldeyrisreglur. „Allt þetta fokkaðist upp,“ sagði Sigurður. Aðalsteinn Kjartansson mætir í réttarsal. Hann ranghvolfdi augum þegar báðir Pálar nefndu að það hlyti einhver að hafa skrifað greinina fyrir hann, í ljósi þess að hann hefði haldið því fram í yfirheyrslu að hann hefði engin gögn undir höndum. Aðalsteinn hreyfði að öðru leyti hvorki legg né lið.vísir/vilhelm Hann nefndi þá að Aðalsteinn hefði ásamt Helga og Stefáni Drengssyni skrifað heila bók sem hét „Ekkert að fela“. Á slóð Samherja í Namibíu. Á sama tíma og hann hélt því fram að Samherjaforstjóri og stjórnendur hefðu borið mútur á stjórnmálamenn í Namibíu í skiptum fyrir kvóta í fiskveiðilögsögu Namibíu. Sigurður sagði Pál gagnrýninn blaðamann, hámenntaðan á því sviði og það þýddi ekki að gera lítið úr honum og segja að hann ekki blaðamann þó hann starfi ekki á fjölmiðli. Og í því ljósi beri að meta það hvernig Páll hafi fjallað um störf þremenninganna höfunda bókarinnar. Hér sé verið að fjalla á gagnrýninn hátt um vinnubrögð þeirra. Málið eigi sér langan aðdraganda Sigurður segir Pál hafa lengi fjallað ítarlega um vinnubrögð fréttamanna í tengslum við þessi mál og fór um það nokkrum orðum. Árið 2021 var búið að kæra málið til lögreglu, það er stuldinn á símanum. Það hafi verið gert 13. nóvember 2021. Þögn annarra fjölmiðla yfir því, að enginn fjölmiðill á Íslandi skuli velta þeirri frétt upp að það hafi verið stolið síma af manni sem var í dái, síminn afritaður og afrituðu gögnin sé sérkennilegt og Páll velti því fyrir sér, hvernig það megi vera? Páll sé blaðamaður, þjóðfélagsrýnir og láti sig varða fréttir, skoði upplýsingar og skrifi um þær. Þessu þurfi dómarinn að velta því fyrir sér ef hann ætli sér að taka til greina einhverjar af ómerkingarkröfum sem fyrir liggi. Er einhver brýn nauðsyn sem kallar á að tjáningarfrelsi hans sé skert þegar fyrir liggi að Aðalsteinn hafi sjálfur ekki hikað við að bera sakir á einstaklinga? Hann beri ekki litlar sakir á stjórnendur Samherja í bókinni sinni, RÚV hafi ekki borið litlar sakir á stjórnendur í Seðlabankamálinu. En Páll Vilhjálmsson, hann er eini blaðamaðurinn sem þú getur sagt að sé frjáls, hann er ekki háður neinum, þarf ekki að verja neinn vinnuveitanda, hann þarf aðeins að koma á framfæri sínum skoðunum á þjóðfélagslegum málefnum, eins og þeim hvort það geti verið að blaðamenn hafi fengið í hendur með glæpsamlegu athæfi gögn sem þeir byggðu skrif sín á. Hvers vegna skrifar Páll þetta, jú honum ofbýður að bestu skrif blaðamanna 2021 á sviði rannsóknarblaðamennsku hafi verið það að búa til frétt um Skæruliðadeild Samherja, sem byggi á gögnum sem var fengið með ólöglegum hætti. Nýtur skipstjórinn einskis réttar, þarf ekkert að skoða siðferði blaðamanna? Er Aðalsteinn höfundur greinarinnar? spurði Sigurður. Nei, Páll Vilhjálmsson hafi ekki nítt skóinn af stefnanda, sagði Sigurður Hann sé bara að benda á að Aðalsteinn sé hluti af hópi blaðamanna sem hafi stundum farið offari. Páll kalli þetta árásarblaðamennsku. Það komi líka fram í einum pistla hans þegar verið sé að vitna í Kristinn Hrafnsson forstjóra Wikileaks, að það sé ekki sannleiksgildið sem skipti máli heldur markmiðið. Það sé þetta sem verið sé að gagnrýna, vinnubrögð, og auðvitað sé Aðalsteinn svo óheppinn að vera höfundur greinar sem byggi á stolnum gögnum. Aðalsteinn er hér að taka við blaðamannaverðlaunum ársins fyrir umfjöllun sem tók til ársins 2021. Þessi verðlaun hafa farið mjög fyrir brjóstið á Páli Vilhjálmssyni sem notar þau nú sem háðsglósu. Af hverju er Blaðamannafélagið ekki meira virði en svo að það telji vert að verðlauna blaðamenn sem eru til rannsóknar vegna brota á einkalífi? Páll þurfi ekki að þóknast einum né neinum eins og blaðamenn sem þurfa að þóknast vinnuveitanda sínum. Menn geti velt því fyrir sér af hverju Aðalsteinn hætti í góðu starfi á RÚV þar sem allir vilja vinna. Það vilji enginn vinna á einkamiðlum, þeir séu allir á hausnum. Af hverju er mikilvægt að takmarka tjáningarfrelsi Páls? Hér standi því dómari frammi fyrir þessari erfiðu ákvörðun, það er ef hann ætli að taka undir málsstað Aðalsteins og dæma einhver ummæli dauð og ómerk, að svara því hvaða brýnu nauðsyn í lýðræðislegu samfélagi kalli á það að Páll Vilhjálmsson megi ekki skrifa harðan texta? En Arnþrúður Karlsdóttir megi skrifa fastan texta, Gaukur Úlfarsson megi skrifa harðan texta um Ómar R Valdimarsson sem var almennatengill, þar sem að ýmsar sakir voru hafðar uppi, grófar fullyrðingar, honum var refsilaust að skrifa grófar umsagnir. Og Sigurður nefndi einnig mál Helga Seljan sem lögmaður fór einnig með fyrir Landsrétt. Þar hafi þótt innan marka tjáningarfrelsisins að Helgi gæti haldið því fram í sjónvarpi allra landsmanna að maður sem ekki var viðstaddur væri þekktur ofbeldismaður. Þar hafi ekki verið um að ræða mann sem hafi prófíl eins og Aðalsteinn Kjartansson. En það hafi þótt varða svo mikilvæga umræða í samfélaginu sem sneri að ofbeldi gegn konum. Sigurður sagði að sá sem færi í að lesa vörn lögmanns í því máli átti sig á því að grundvöllur lýðræðisins sé að menn fái að tjá sig og þegar opinberar persónur eins og Aðalsteinn eigi hlut í máli, þá verði hann bara að þola það eins og hver önnur opinber persóna, þola hvassyrt ummæli. „Hann verður bara að þola það,“ sagði Sigurður. Og það væri einmitt það sem Landsréttur og Hæstiréttur hafi sagt í þeim dómum sem hann hefði nú lagt fyrir dómarann í þessu máli. Sigurður spyr hvort og hvers vegna þá sé ástæða til að skerða tjáningarfrelsi Páls Vilhjálmssonar.vísir/vilhelm „Þetta liggur allt skýrt fyrir og sést í reifun minni, hvaða ummæli er vísað til, þetta er ekki allt fallegt,“ sagði Sigurður. Hann taldi skjóta skökku við að Gunnar Ingi hefði vitnað til dóma í Hlíðarmálum í málflutningi sínum til stuðnings horfir hann til Hlíðarmála þegar Fréttablaðið sagði að það væri nauðgunarbúnaður í einhverri íbúð. Þar hafi verið um að ræða menntaskólanema og ekki hægt að horfa til þess sem fordæmis. Öðru máli gegndi um Ómar, Gauk, Reyni og Arnþrúði. Það væri sambærilegt. Barómeterinn farinn að síga í réttarsalnum Sigurður ítrekaði spurningu sína hver nauðsynin væri fyrir því að takmarka málfrelsi Páls? Hann hafi ekki heyrt neitt slíkt frá lögmanni hans. „Auðvitað var hér kveðinn upp rangur dómur sem er til úrlausnar 2. maí í Landsrétti, í máli Þórðar Snæs og Arnars Þórs gegn Páli.“ Sigurður sagði þá úrlausn skipta máli í þessu sambandi en dómari sagði á móti að þeir væru hér og nú. Sigurður sagðist hafa fært fram mjög góð rök fyrir því að ekki væru lagaskilyrði fyrir því að ómerkja nein af téðum ummælum. Hann sagðist hafa látið fylgja í skjölum sínum skrif Ragnars Aðalsteinsson lögmanns sem vörðuðu mál Póra í Laxnesi sem sakaður var um dýraníð. Það væri allt leyfilegt! Sigurður lauk máli sínu á að segja miskabótakröfuna, tvær milljónir, út úr öllu korti. Þetta sé eins og menn hafi lent í slysi. Það sem máli skipti er að Aðalsteinn sé enn blaðamaður, þetta hafi ekki raskað einu né neinu í hans máli, hann sé enn að við að skrifa misgóðar greinar. Þegar þarna var komið sögu var við frostmark í réttarsalnum. Gunnar Ingi fékk að koma með andsvör og hann nýtti sér það. Hann sagði að Reynir gegn Arnþrúði væri ekki gott dæmi. Hér væri um að ræða fullyrðingar, eitthvað sem væri hægt að sanna. Og ekki væri hægt að afgreiða slíkt sem gildisdóm. Auk þess sem Reynir væri umdeilur blaðamaður, hann hefði verið í ótal dómsmálum meðan Aðalsteinn væri ekki með nein slík á bakinu. Hann hefði aðeins unnið sitt starf sem felst í að miðla upplýsingum til almennings, eins og heiðarlegt er að gera það. Og unnið til verðlauna fyrir það í stað þess að vera stefnt fyrir dóm. Vitum ekki nema Páll sé á launum hjá Samherja Þá sagði Gunnar að dæmi sem Sigurður tiltók, með að Helga hefði tekist að gabba Seðlabankann, ekki hafa nokkra þýðingu fyrir þetta mál. Því máli hafi lokið vegna þess að það vantaði einhverja reglugerðarheimild. Þá sagði Gunnar að það væru ekki rök í málinu þó ekki nokkur fjölmiðill hefði tekið samsæriskenningar Páls upp, nema þvert á móti. „Það er málið. Að Páll sé frjáls og engum háður. Hann telur sig ekki háðan sannleikanum heldur og það er vandamálið.“ Og Gunnar sagðist ekkert liggja fyrir um óhæði Páls. Það viti enginn nema Páll sé á launaskrá Samherja við að skrif sín. Eins og Skæruliðadeildin. Nú gat Páll skipstjóri ekki setið á sér lengur. „Þetta eru ærumeiðingar, Gunnar Ingi!“ hrópaði þá Páll skipstjóri. Dómari þurfti að sussa á Pál Steingrímsson og varð ekki mikið rask í kjölfarið. Páll Steingrímsson gat ekki stillt sig þegar Gunnar Ingi velti því upp að það vissi svo sem enginn hversu óháður Páll væri, hann gæti allt eins verið á launaskrá Samherja, eins og Skrímsladeildin.vísir/jakob Gunnar Ingi hélt tölu sinni áfram tiltölulega ótruflaður. Og spurði hvaða nauðsyn bæri til að vernda orðspor Aðalsteins? Trúverðugleiki hans, sem Páll vildi eyðileggja, væri nokkurs virði. Páll hins vegar hafi verið í því að birta falsfréttir eins og það sé partur af tjáningarfrelsinu?! Það þurfi að vernda orðspor fólks. Og enginn vafi leiki á um að ummælin eru ærumeiðandi fyrir stefnanda. Gunnar Ingi sagði að þetta mál gæti allt eins farið upp í Landsrétt og það væri óháð niðurstöðunni, þetta væru ólík mál. Það að vera sakborningur í máli gefi ekki skotleyfi á viðkomandi heldur þvert á móti. Það sé ekki gerð krafa til þess að Páll sé virtur sem blaðamaður, það sé ekki hægt að sitja úti í bæ, ekki starfa fyrir neinn fjölmiðil en heimta að njóta friðhelgi sem blaðamaður. Hefur ekkert álit á blaðamönnum upp til hópa Nú var klukkan farinn að ganga eitt, fjórar klukkustundir að baki, og dómari minnti menn á að þeir þyrftu að losa salinn fyrir næsta mál. Sigurður lofaði að hann yrði fljótur. Sigurður sagði að stefndi vildi að Páll hagaði sér sem blaðamaður en að hann sé ekki blaðamaður? Þetta mál eigi sér langa rót. Umfjöllun Páls um íslenska blaðamennsku, sérstaklega af hálfu Ríkisútvarpsins, nái allt aftur til 2012. Að þar sé stunduð ásökunarblaðamennska. Og enn sé Páll að gera athugasemdir. Nú megi hann sitja undir dylgjum að hann sé leigupenni Samherja. Sem hann sé ekki og hafi aldrei verið. Hann sé ófeiminn við að skrifa um Þorstein Má þegar svo beri undir. Hann starfi sem framhaldsskólakennari í Garðabæ og þetta sé eitthvað sem verði að taka sérstaklega á, dylgjur Gunnars Inga um að hann sé leigupenni Samherja. Sigurður sagði að ekkert ætti að fá því hrundið gagnvart íslenskum lögum og mannréttindasáttmála Evrópu að Páll geti ekki með hvössum orðum gagnrýnt blaðamannastéttina upp til hópa, sem hann hefur ekki mikið álit á. Reikna má með dómi í málinu eftir um fjórar vikur.
1. 2. apríl 2022:: „Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi“. „…og Aðalsteinn Kjartansson á stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skiptstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“. 2. 25. ágúst 2022: „Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“. 3. 28. október 2022: „Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“ „Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“. „Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“. 4. 15. febrúar 2023: „Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“. „Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“. 5. 27. febrúar 2023: „Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“. „Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt. „En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“. „Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar.” 6. 21. mars 2023: „Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“ „Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“. „Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“. 7. 22. mars 2023: „Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“. „Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“. 8. 14. apríl 2023: „RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“
Dómsmál Tjáningarfrelsi Fjölmiðlar Samherjaskjölin Samherji og Seðlabankinn Byrlunar- og símastuldarmálið Mest lesið Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent Allir starfsmenn jafnréttisaðgerða sendir í leyfi fyrir lok dags Erlent Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Innlent Yfirmaður strandgæslunnar látinn fjúka Erlent Kæra ákvörðun Trumps: „Hann getur ekki breytt stjórnarskránni með einu pennastriki“ Erlent Fjárfesta í gervigreind fyrir 70 billjónir Erlent Heitar umræður um lokun flugbrautar Innlent „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Innlent Íhugar að leggja viðbótartoll á allar vörur frá Kína Erlent 76 látnir eftir eldsvoðann í Tyrklandi Erlent Fleiri fréttir Agaleysi í skólum og geðrof tengt ADHD lyfjum Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Heitar umræður um lokun flugbrautar Eldur kviknaði í pappagámi í Skeifunni Prammi á ferðinni á Ölfusá vegna nýrrar brúar Sýklalyfjaónæmi raunveruleg ógn Kristrún væntir áframhaldandi náinna samskipta við Bandaríkin 155 milljónir til sviðslistaverkefna Dagur kveður eftir 23 ár í borginni Rýnt í fyrsta dag Trumps í embætti og deilt um Reykjavíkurflugvöll Sjúkraflug mikilvægara en „að rífast um einhver tré“ Einhver heimili enn keyrð á varaafli Hefur ekki fengið verkefni í mánuð Sjá auknar líkur á eldgosi í kortunum Öllum rýmingum aflétt Sagði skilaboð þar sem hann sagðist fullur eftirsjár fölsuð Þúsund skref aukalega skila 15 prósent lægri dánartíðni Undirbúa móttöku þeirra sem verða sendir frá Bandaríkjunum Ætla að breytast í stjórnmálaflokk á fyrsta landsfundinum í sex ár Rýmingum aflétt í Neskaupstað en ekki Seyðisfirði Ákærður fyrir tilraun til manndráps á Vopnafirði Búast við afléttingu fyrir austan í hádeginu Kaldasta árið á landinu í rúman aldarfjórðung Kallar eftir þjóðarátaki: Skólastjóri segir agaleysi innan skólanna óboðlegt Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“ Bein útsending: Veður og veitur – áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga Ráðast í átaksverkefni í kjölfar sýkingarinnar á Mánagarði Rýmingum væntanlega aflétt og fært um Fjarðarheiðina Sjá meira
Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent
Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“
Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent