Skoðun

937 karlar og þeim fjölgar

Sigríður Gunnarsdóttir skrifar

Í Mottumars Krabbameinsfélagsins í ár hvetjum við karla þessa lands til að hreyfa sig, með sérstöku Kallaútkalli. Það er ekki að ástæðulausu, því regluleg hreyfing er eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að draga úr áhættunni á að fá krabbamein.

Árlega greinast að meðaltali 937 karlar með krabbamein á Íslandi, algengast er blöðruhálskirtilskrabbamein, en þar á eftir koma ristil- og endaþarmskrabbamein og lungnakrabbamein. Margir læknast eða fá meðferð sem lengir líf en þrátt fyrir það er krabbamein dánarmein rúmlega fjórðungs þeirra sem látast árlega á Íslandi. Algengasta dánarmeinið er blöðruhálskirtilskrabbamein, þar á eftir fylgja lungnakrabbamein, ristil- og endaþarmskrabbamein og briskrabbamein.

Fjölgun framundan

Spáð er mikilli fjölgun krabbameina á Íslandi á næstu árum eða 57% aukningu til ársins 2040. Þetta er fyrst og fremst vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar en rúmlega helmingur allra krabbameina greinist hjá fólki sem er 65 ára og eldra.

Best er að koma í veg fyrir krabbamein en næstbest er að greina þau snemma. Við þurfum því öll að þekkja helstu einkenni krabbameins og leita til læknis ef við verðum þeirra vör. Má þar nefna óvenjulegar blæðingar, sár sem ekki gróa, þykkildi, hnúta, nýja eða breytta fæðingabletti, óþægindi í meltingavegi, breytingar á hægðum og þvaglátum, þyngdartap, þrálátan hósta eða hæsi, óvenjulega þreytu eða viðvarandi verki.

Lífsstíllinn skiptir máli

Orsakir krabbameina er flókið samspil erfða og umhverfis og ekki er hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein. Hinsvegar er vitað að 30-40% krabbameina tengjast lífsstíl og að hreyfing er ein öflugasta forvörnin ásamt því að forðast tóbak, verja sig fyrir sólargeislum, borða hollan og fjölbreyttan mat og lágmarka áfengisneyslu.

Öll hreyfing skiptir máli og mikilvægast að hver og einn finni þá hreyfingu sem honum hentar og ekki er verra ef hægt er að hafa gaman í leiðinni. Við skorum því á alla karla að standa upp úr sófanum, skella sér í sokkana og taka þátt í kallaútkalli Krabbameinsfélagsins.

Höfundur er forstöðumaður Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×