Norðaustan 13 til 20 metrar á sekúndu og víða snjókoma eða él á morgun, en þurrt að kalla sunnan- og suðvestanlands. Áfram kalt í veðri.
Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands að það sé nú allmikil hæð yfir Grænlandi en lægðasvæði suður og suðaustur af Íslandi. Þessi staða breytist lítið næstu daga og landið sitji í kaldri norðaustanátt.
Norðaustan stinningskaldi eða allhvasst verði víða um land í dag. Á fjallvegum fyrir norðan og austan geti jafnframt verið erfið akstursskilyrði og jafnvel ófærð utan þjónustutíma. Því sé mikilvægt að kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað í ferðalag. Að sögn veðurfræðings bætir í ofankomu á morgun og er þá viðbúið að færð versni á norðan- og austanverðu landinu.
Á Suðausturlandi megi staðbundið búast við enn hvassari vindi, einkum undir Vatnajökli og þessir vindstrengir geti verið varasamir fyrir ökutæki, einkum þau sem eru viðkvæm fyrir vindi. Einnig séu líkur á sandfoki í þurrum norðanvindinum. Á mánudag sé síðan útlit fyrir að dragi bæði úr vindi og ofankomu, en að áfram verði kalt í veðri.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Norðaustan 13-20 m/s og víða él eða snjókoma, en þurrt að kalla sunnanlands. Frost 0 til 7 stig.
Á mánudag:
Norðaustan 8-15 og él norðan- og austanlands, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag:
Minnkandi norðaustanátt og léttskýjað, en skýjað á Norður- og Austurlandi og lítilsháttar él framan af degi. Frost 1 til 7 stig og kólnar meira um kvöldið.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Hæg breytileg átt og víða þurrt og bjart veður. Kalt í veðri, talsvert frost að kvöld- og næturlagi.
Á föstudag:
Útlit fyrir austlæga átt með dálitlum éljum sunnan- og austantil.