Fótbolti

Alonso á­fram hjá Leverkusen: Besti staðurinn fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso fagnar einum af mörgum sigrum sem þjálfari Bayer 04 Leverkusen.
Xabi Alonso fagnar einum af mörgum sigrum sem þjálfari Bayer 04 Leverkusen. AP/Tom Weller

Xabi Alonso staðfesti það sjálfur í gær að hann verði áfram með lið Bayer Leverkusen á næstu leiktíð. Það gerir hann þótt bæði Liverpool og Bayern München hafi verið að banka á dyrnar hans síðustu mánuði.

Liverpool hafði degi áður gefið frá sér möguleikann að hann væri að koma til Bítlaborgarinnar og Bayern gaf það seinna út að hann kæmi ekki þangað heldur.

Seinna um daginn útskýrði Xabi Alonso sjálfur stöðuna á blaðamannafundi fyrir leik Leverkusen liðsins um helgina.

„Þetta hefur verið tímabil þar sem hafa verið í gangi miklar vangaveltur um mína framtíð. Ég vildi nota landsleikjagluggann til að skoða hvað væri í boði og taka mína eigin ákvörðun,“ sagði Xabi Alonso.

„Í síðustu viku átti ég góðan fund með Simon [Rolfes, íþróttastjóri Leverkusen] og Fernando [Carro, framkvæmdastjóri Leverkusen] og þar tilkynnti ég þeim að ég yrði áfram þjálfari Bayer Leverkusen,“ sagði Alonso.

„Það þarf alltaf að skoða hlutina vel áður en þú tekur svona stóra ákvörðun og ég reyni að taka réttar ákvarðanir. Ég reyni að taka ákvörðun sem kemur til mín náttúrulega og eins og staðan núna þá finnst mér þetta vera rétti staðurinn fyrr mig til að þróa mig sem þjálfara,“ sagði Alonso.

„Ég er ungur þjálfari og ég verða að finna réttu tilfinninguna. Mér líður þannig að þetta sé besti staðurinn fyrir mig,“ sagði Alonso.

„Mínu starfi hjá Bayer er ekki lokið. Ég vil hjálpa félaginu, hjálpa leikmönnunum að verða betri og stjórinu er frábær. Það er frábært að vera hér,“ sagði Alonso.

„Þetta er ferli og uppbyggingin á þessu liði er hliðstæð þróuninni hjá mér sem knattspyrnustjóra. Þetta er mitt fyrsta fulla tímabil sem þjálfari. Ég á enn eftir að sanna mikið fyrir sjálfum mér. Ég þarf að ná mér í meiri reynslu og nú er ég í stöðu þar sem ég finn stöðugleika og ég er mjög ánægður með liðið og félagið,“ sagði Alonso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×