Fótbolti

Svein­dís sett á bekkinn en Wolfs­burg brunaði í bikar­úr­slitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tommy Stroot, þjálfari Wolfsburg, setti Sveindís Jane Jónsdóttur á bekkinn.
Tommy Stroot, þjálfari Wolfsburg, setti Sveindís Jane Jónsdóttur á bekkinn. Getty/Swen Pförtner

Wolfsburg átti ekki í miklum vandræðum með að tryggja sér sæti í bikarúrslitaleiknum í þýska kvennaboltanum í dag.

Wolfsburg vann Essen 9-0 í undanúrslitaleik liðanna eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik.

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var sett á bekkinn eftir stórtapið á móti Bayern München í toppslagnum í deildinni á dögunum. Það er líklegt að okkar kona hafi verið hvíld í þessum leik eftir álag að undanförnu.

Sú ákvörðun þjálfarans lítur samt vel út eftir leik því liðið vann sannfærandi sigur og sú sem kom inn fyrir Keflvíkinginn, Vivien Endemann, skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu.

Jule Brand skoraði fyrsta markið á 14. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar hafði Ewa Pajor bætt við öðru marki.

Vivien Endemann, sem kom inn í liðið fyrir Sveindísi, átti stoðsendinguna á Pajor og skoraði síðan þriðja markið sjálf á 37. mínútu.

Endemann var ekki hætt því hún skoraði sitt annað mark og fjórða mark Wolfsburg eftir aðeins sex mínútna leik í seinni hálfleik.

Wolfsburg bætti síðan við fimm mörkum eftir að úrslitin voru ráðin. Dominique Janssen skoraði fimmta markið og sjötta markið var sjálfsmark.

Endemann innsiglaði þrennu sína á 82. mínútu og áttunda markið skoraði Riola Xhemaili. Níunda makrið skoraði síðan Svenja Huth á 89. mínútu.

Wolfsburg mætir annað hvort Bayern München eða Eintracht Frankfurt í bikarúrslitaleiknum en þau spila sinn undanúrslitaleik á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×