Fótbolti

39 leikir í röð án taps hjá Leverkusen eftir dramatík í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrik Schick fagnar dramatísku sigurmarki sínu fyrir Bayer Leverkusen í dag.
Patrik Schick fagnar dramatísku sigurmarki sínu fyrir Bayer Leverkusen í dag. Getty/Lars Baron

Bayern Leverkusen er enn á sigurbraut í þýsku deildinni eftir 2-1 endurkomusigur á Hoffenheim í dag.

Xabi Alonso tilkynnti í gær að hann yrði áfram þjálfari Bayern Leverkusen á næsta tímabilinu og leikmenn hans héldu upp á það með enn einni endurkomunni undir lok leiks.

Hoffenheim komst í 1-0 á 33. mínútu og þannig var staðan þar til að aðeins þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Leverkusen var í stórsókn allan leikinn og eitthvað varð undan að láta.

Leikmenn Leverkusen skoruðu á endanum tvö mörk í blálokin. Fyrst jafnaði Robert Andrich metin á 88. mínútu og svo skoraði Patrik Schick sigurmarkið í uppbótatíma.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið sanngjörn úrslit því Leverkusen átti 36 skot að marki þar af 12 þeirra á marki. Xg þeirra var 4,08 á móti aðeins 0,63 hjá Hoffenheim.

Oliver Baumann, markvörður Hoffenheim, var maður leiksins en hann varð alls tíu skot í leiknum.

Leverkusen er því enn taplaust á tímabilinu og með þrettán stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar.

Liðið hefur leikið 39 leiki í öllum keppnum án þess að tapa, 34 hafa unnist og í fimm hefur orðið jafntefli. Í nokkrum þeirra hefur liðið lent undir en alltaf komið til baka og náð eitthvað út úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×