Erlent

Fyrsti lifandi svín­snýrna­þeginn út­skrifaður af spítalanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Slayman ásamt unnustu sinni og læknum sínum.
Slayman ásamt unnustu sinni og læknum sínum. MGH

Fyrsti maðurinn til að fá grætt í sig svínsnýra hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Hinn 62 ára Richard „Rick“ Slayman, sem þjáist af nýrnabilun á lokastigi, horfir bjartsýnn til framtíðar og segir heilsu sína ekki hafa verið betri í langan tíma.

Nýrað úr erfðabreyttu svíni var grætt í Slayman í fjögurra klukkustunda aðgerð á Massachusetts General Hospital í Boston í mars síðastliðnum. Aðgerðin gekk vel og hrósuðu læknar Slayman fyrir hugrekki hans og vilja til að feta ótroðnar slóðir í þágu læknavísindanna.

Nýru úr svínum hafa áður verið grædd í einstaklinga sem hafa verið úrskurðaðir heiladauðir en þetta er í fyrsta sinn sem svínsnýra er grætt í lifandi einstakling. Tilraunir til að erfðabreyta svínum til að draga úr líkunum á því að mannslíkaminn hafni líffærum þeirra hafa staðið yfir í um 20 ár.

„Ég er spenntur fyrir því að verja tíma með fjölskyldu minni, vinum og ástvinum, laus við byrðar blóðskilunar sem hefur komið niður á lífsgæðum mínum í mörg ár,“ sagði Slayman þegar hann var útskrifaður.

Þá þakkaði hann læknunum sínum og öllum þeim sem höfðu samband við hann, ekki síst þeim sem sjálfir væru á biðlista eftir nýra. „Dagurinn í dag markar nýtt upphaf ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir þá.“ sagði Slayman.

Vonir standa til að líffæraígræðslur með líffærum úr dýrum muni í fyllingu tímans útrýma biðlistum eftir líffærum, sem eru langir. Í Bandaríkjunum eru um 100 þúsund manns á biðlista, flestir eftir nýra, og í Bretlandi um 5.200 manns.

Vísir greindi frá því í janúar 2022 að læknar hefðu grætt svínshjarta í lifandi mann í fyrsta sinn. Líffæraþegin, David Bennett, lést í júlí sama ár. Hann var 57 ára. Margþættar ástæður leiddu til dauða Bennett en læknar sögðu huggun harmi að líffærahöfnun hefði ekki verið ein þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×