Lífið

„Það má ekki missa kjarkinn“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Aðalgeir Jóhannsson eða Alli á Eyri er meðal þeirra átta sem bæjarstjórn Grindavíkur heiðraði á afmælishátíð bæjarins í dag fyrir menningarstörf í bæjarfélaginu.
Aðalgeir Jóhannsson eða Alli á Eyri er meðal þeirra átta sem bæjarstjórn Grindavíkur heiðraði á afmælishátíð bæjarins í dag fyrir menningarstörf í bæjarfélaginu. Vísir/Arnar

Átta manns fengu heiðursviðurkenningu frá bæjarstjórn Grindavíkur í dag í tilefni þess að fimmtíu ár er frá því bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Þeirra á meðal er Alli á Eyri sem hvetur Grindvíkinga til að missa ekki kjarkinn. 

Aðalgeir Jóhannsson eða Alli á Eyri er meðal þeirra átta sem bæjarstjórn Grindavíkur heiðraði á afmælishátíð bæjarins í dag fyrir menningarstörf í bæjarfélaginu. Hann hefur um árabil rekið netaverkstæði í bænum og er einn eiganda veitingahússins Bryggjunnar. Þá gaf hann út bókina Grindavíkurblús á síðasta ári.  Hann segir að síðustu mánuðir hafi verið erfiðir en ætlar aftur heim. 

„Staðan er auðvitað grafalvarleg hér í Grindavík. En það má ekki missa kjarkinn. Við erum um það bil að snúa dæminu við. Við ætlum að snúa aftur heim.  Það er ekkert að húsinu mínu. Ég bý hérna í vesturbæ Grindavíkur. Það eru öll hús vestan Víkurbrautar í fínu lagi og skólinn þar með. Mér skilst að leikskólinn sé það líka. Þannig að það á alveg að vera hægt með ákveðinni varkárni að koma sér heim sem fyrst. Ég hef til dæmis verið í bænum undanfarið en konan hefur svolítið hrædd við það en hún er að koma til. Hún mætir mjög fljótlega örugglega nú í apríl,“ segir Aðalgeir.

Leysa heimsmálin á korteri

Hann er ánægður með viðbrögð landsmanna undanfarið. 

„Ég svakalega stoltur yfir íslenskri þjóð. Hvað hún hefur tekið á móti okkur Grindvíkingum í þessum vandræðum. Bæði ríkisstjórn og almenningur. Ég á því  láni að fagna að fá að drekka kaffi á Kaffivagninum Það er yndislegt að hitta karlana þar og leysa heimsmálin eins og við gerðum hérna í Grindavík. Þar er engin vandi að leysa heimsmálin á korteri eða svo,“ segir Aðalgeir. 

Aðalgeir er sannfærður að líf verði komið í Grindavík á næstu mánuðum. 

Það er engan bilbug á mér að finna. Við komum hérna mjög fljótlega. Ég held að það verði hópur manna kominn þegar fer að sumra betur og lauf farin að sjást á trjánum.  Golfvöllurinn er í fínu lagi. Menn fara að spila þar mjög fljótlega,“ segir Aðalgeir að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×