Innlent

Ó­þægur strætófarþegi sparkaði í lög­reglu­þjón

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Farþegi Strætó var til vandræða í Hlíðunum og þurfti að kalla til lögreglu vegna hans. Við handtöku sparkaði maðurinn í lögregluþjón.
Farþegi Strætó var til vandræða í Hlíðunum og þurfti að kalla til lögreglu vegna hans. Við handtöku sparkaði maðurinn í lögregluþjón. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkrum útköllum vegna slysa í dag. Á Völlunum í Hafnarfirði lenti vinnumaður undir þakplötu, í Kópavoginum datt vinnumaður úr stiga og í miðborginni féll maður í götuna. Nokkrar tilkynningar um þjófnað úr verslunum bárust lögreglu og sparkaði óþægur strætófarþegi í lögregluþjón.

Þetta segir í dagbók lögreglunnar um verkefni dagsins.

Lögreglunni barst tilkynning um ógnandi einstakling í Laugardalnum en ekki er greint nánar frá málalyktum. Þá segir að farþegi í Strætó hafi verið með leiðindi í Hlíðunum og var lögregla kölluð á vettvang. Þegar maðurinn var handtekinn reyndi viðkomandi að sparka í lögregluþjón. Í miðborginni datt einstaklingur sem var síðan fluttur á sjúkrahús með ótilgreinda áverka.

Lögreglan og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins voru kallað út að byggingasvæði á Völlunum í Hafnarfirði á öðrum tímanum í dag vegna vinnuslyss. Karlmaður festist undir þakplötu sem verið var að steypa og gaf sig. Hann var klukkustund síðar fluttur á sjúkrahús og fór betur en á horfðist.

Af öðrum verkefnum lögreglunnar í Hafnarfirði má nefna tilkynningu um óvelkominn einstakling í hjólageymslu í hverfi 221, hund sem var tekinn af eiganda vegna hirðuleysis í miðbæ Hafnarfjarðar og þjófnað úr verslun í hverfi 221.

Í miðbæ Kópavogs var tilkynnt um þjófnað úr verslun og vinnuslys þar sem aðili datt úr stiga. Einnig barst lögreglu tilkynning um innbrot í hverfi 201.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×