Skoðun

Þjóðinni ógnað. Guð blessi Ís­land

Ástþór Magnússon skrifar

Fyrir 28 árum kom ég fram með hugmyndafræðina að virkja embætti forseta Íslands til friðar- og lýðræðismála og gaf út bókina Virkjum Bessastaði sem dreift var á öll heimili landsins.

Sérfræðingar sögðu forseta ekki hafa málsskotsrétt

Þá talaði ég fyrir því að vísa umdeildum málum í þjóðaratkvæðagreiðslur. Ríkisfjölmiðlarnir tefldu fram sérfræðingum úr háskólasamfélaginu sem sögðu mig fara með hreina fjarstæðu. Þetta væri ekki hægt, engin hefð fyrir því og forseti hefði ekki þessi völd. Sannarlega var þetta hægt eins og í ljós kom þegar forseti Íslands vísaði Icesave málum til þjóðarinnar.

Þjóðinn missir sinn öryggisventil

Forsetinn á að standa vaktina á Bessastöðum sem óhlutdrægur fulltrúi þjóðarinnar og gæta þess að stjórnmálaöflin geti ekki spilað með og vanvirt lýðræðið. Með því að velja forseta úr stjórnarráðinu missir þjóðin sinn öryggisventil á Bessastöðum.

Herlaus vagga lýðræðis

Kjarninn í boðskapnum að Virkja Bessastaði er að embætti forseta Íslands gerist alþjóðlegur boðberi friðar. Að Ísland skapi sér hlutverk sem alþjóðlegt friðarríki, herlaus vagga lýðræðis í heiminum. Sagan af alþingisfundi forfeðra okkar árið 1000 á þingvöllum, lýsir einstöku umburðarlyndi og virðingu fyrir mannréttindum sem er kjarninn í friðsælu samfélagi. Ég hef stundum sagt að þessi boðskapur sé eins mikilvægur og jólaguðspjallið fyrir mannkynið. Þetta er okkar grunnur og við eigum taka frumkvæði í því að leiða heiminn til friðar.

Stríðsæsingur leiðir til árásar á Ísland

Fyrir átta árum í kosningasjónvarpi RÚV varaði ég sterklega við því að stríð myndi brjótast út milli Íslands og Rússlands yrði ekki gripið í taumana. Nú er sú styrjöld hafin og búið að loka Íslenska sendiráðinu í Moskvu. Stjórnvöld hafa gengið enn lengra með vopnakaupum og vopnaflutningum og mannfallið eykst. Ekki hefur frá Íslandi komið eitt orð, ekki eitt einasta orð, ekki einn einasti fundur, ekki eitt einasta símtal til friðar. Stríðsæsingurinn er slíkur að aðeins er tímaspursmál hvenær verður ráðist á okkur.

Aðeins tveir valkostir í þessum forsetakosningum

Framtíð okkar veltur á þér. Það eru aðeins tveir valkostir í þessum forsetakosningum. Stríð eða friður. Guð blessi Ísland.

Á vefnum nuna.is er bókin Virkjum Bessastaði aðgengileg án endurgjalds.

Höfundur er forsetaframbjóðandi.




Skoðun

Sjá meira


×