Fótbolti

Meiðsli herja á landsliðskonur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Karólína Lea fór meidd af velli í fyrri hálfleik í leik Bayer Leverkusen gegn Frankfurt.
Karólína Lea fór meidd af velli í fyrri hálfleik í leik Bayer Leverkusen gegn Frankfurt. Skjáskot / bayer04.de

Áfram herja meiðsli á sóknarmenn íslenska landsliðsins og setja svip sinn á þýsku úrvalsdeildina í fótbolta. Sveindís Jane Jónsdóttir verður ekki með Wolfsburg næstu misserin og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður Bayer Leverkusen, fór meidd af velli í dag. 

Wolfsburg vann 4-1 fyrr í dag gegn Freiburg. Sveindís Jane var auðvitað ekki með vegna meiðsla sem hún varð fyrir á öxl í landsleik gegn Þýskalandi á dögunum. Betur fór þar en óttast var, ekki liggur fyrir enn hversu lengi hún verður frá. 

Þá fór Karólína Lea snemma meidd af velli seinni leik dagsins, Leverkusen gegn Frankfurt, á 33. mínútu. 

Í fyrri landsleik Íslands gegn Póllandi um daginn, 5. apríl, fór hún hálf meidd af velli. Þurfti tvisvar aðhlynningu sjúkraþjálfara en Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, sagði það hafa verið til þess að laga sjúkralímbandið frekar en vegna meiðsla. Hún spilaði svo allan leikinn gegn Þýskalandi fjórum dögum síðar. 

Engar frekari fregnir hafa borist um alvarleika meiðslanna en lið hennar og landslið má auðvitað illa við því að lykilleikmenn séu lengi frá. 

Næstu landsleikir Íslands eru svo tveir afar mikilvægir leikir við Austurríki, 31. maí ytra og 3. júní á Íslandi, en þeir leikir gætu skorið úr um hvort liðanna kemst beint inn á EM 2025 í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×