Fótbolti

Mikil meiðslavandræði fyrir stórleikinn gegn Arsenal

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kingsley Coman gekk meiddur af velli í gær.
Kingsley Coman gekk meiddur af velli í gær. Getty/ M. Donato

Það bætti gráu ofan á svart fyrir Bayern München þegar Kinglsey Coman fór meiddur af velli í 2-0 sigri þeirra gegn Köln. 

Coman tognaði í lærvöðva og verður frá í nokkrar vikur. Markvörðurinn Manuel Neuer og vængmaðurinn Leroy Sane voru hvíldir í gær til að flýta fyrir endurhæfingu þeirra, en það er enn óljóst hvort þeir nái næsta leik. 

Þá var Serge Gnabry hvergi sjáanlegur í leikmannahópnum en hann fór meiddur af velli í fyrri leik gegn Arsenal. Ólíklegt þykir að hann nái næsta leik. 

Bayern München á afar mikilvægan leik framundan við Arsenal. Fyrri leikur liðanna í Lundúnum endaði með 2-2 jafntefli og það er því til alls að vinna á Allianz vellinum næsta miðvikudag. 

Alphonso Davies, vinstri bakvörður, tekur út leikbann vegna uppsafnaðra spjalda og verður ekki með liðinu. 

Það gæti því farið svo að Bayern München verði án markvarðar síns (Neuer), vinstri bakvarðar (Davies) og þriggja kantmanna (Gnabry, Sané, Coman). 

Vondar fréttir fyrir Bæjara sem munu að öllum líkindum horfa á Bayer Leverkusen lyfta þýska meistaratitlinum síðar í dag, ef Leverkusen tekst að vinna 12. sætis liðið Wolfsburg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×