Sport

Segir peninga­verð­laun á ÓL vera and­stæð Ólympíu­andanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamaísku spretthlauparnir Elaine Thompson-Herah og Shelly-Ann Fraser-Pryce fagna gulli sem þær unnu á síðustu Ólympíuleikum.
Jamaísku spretthlauparnir Elaine Thompson-Herah og Shelly-Ann Fraser-Pryce fagna gulli sem þær unnu á síðustu Ólympíuleikum. Getty/Tim Clayton

Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætlar að borga gullverðlaunahöfum á Ólympíuleikunum í París í sumar í peningum og þeim þykir heiðurinn eða gullverðlaunin ekki vera nóg.

Hæstráðandi í hjólreiðaheiminum er ekki ánægður með þessa þróun og hefur gagnrýnt hana opinberlega.

Frjálsíþróttir eru fyrsta íþróttagreinin sem býður keppendum verðlaunafé fyrir að vera Ólympíumeistari. Hver gullverðlaunhafi mun fá fimmtíu þúsund dollara í vasann fyrir hvert gull eða rúmar sjö milljónir króna.

„Ólympíuandinn snýst um að deila gróðanum milli allra og hjálpa fleiri íþróttamönnum að keppa á heimsvísu,“ sagði David Lappartient, forseti Alþjóða hjólreiðasambandsins.

„Ekki það að setja allan peninginn í besta íþróttafólkið heldur útdeila peningunum. Ef við setjum meiri pening í toppfólkið okkar þá munu mörg tækifæri hverfa fyrir íþróttafólk heimsins,“ sagði Lappartient.

Ólympíuleikarnir voru lengi aðeins fyrir áhugafólk og þegar íþróttafólkið gerðist atvinnumenn í sinni íþrótt þá missti það keppnisréttinn. Það hefur breyst en þetta er risastórt skref í allt aðra átt.

Alþjóða Ólympíunefndin gefur ekki verðlaunafé en heimssamböndin fá styrki. Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætlar að nota hluta af þeim styrk í verðlaunaféð og hefur sett sér það takmark að greiða líka verðlaunafé til silfur- og bronsverðlaunahafa á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028.

Hjólreiðarnar ætla ekki að fara sömu leið.

„Við trúum við staðfastlega að þetta sé ekki í takt við Ólympíuandann. Við ræddum þetta aldrei,“ sagði Lappartient.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×