Á vef Veðurstofunnar er að finna umfjöllun um þokuboga. Þar segir að hann líkist hvítum regnboga að því leytinu til að hann sést við ljósbrot sólgeislunar í dropum í lofti, en í mun minni dropum. Jakub Sidor tók myndir sem hann sendi á fréttastofu um klukkan átta í morgun.
Þar segir einnig að hefðbundinn regnbogi sjáist þegar regn fellur en að baki áhorfanda skín sólin. Það þurfi einnig að gerast þegar þokubogi myndast en í stað þess að ljósbrotið sé í regndropum, og litir regnbogans birtist áhorfanda, verður ljósbrotið í skýjadropum.
Við ljósbrot í skýjadropum, á sama hátt og í regndropum, endurkastast ljósið í átt að áhorfandanum frá aftara yfirborði dropans, en dreifing ljósgeislans er ríkjandi þáttur. Það þýðir, samkvæmt vef Veðurstofunnar, að endurkastaði geislinn er breiðari en frá regndropa og litirnir smyrjast út. Það gefur hvítan eða mjög lítinn þokuboga með daufum rauðum lit yst og bláum innst.
Oft sjást þessir litir betur á ljósmyndum en með beru auga. Þokubogar eru einnig að jafnaði breiðari en regnbogar. Skýjadropar geta verið í lofti þótt frost fari allt niður að -15 stigum. Það getur því verið þoka og þokubogar birst áhorfenda þó frost sé allmikið.
„Þoka er ekkert annað en ský við yfirborð og er samsett úr örsmáum vatnsdropum, skýjadropum sem eru 10–1000 sinnum minni er regndropar. Meðalradíus slíkra dropa er um 0,1 millimetrar, en getur verið allt frá 0,01 til 0,1 mm. Skýjadropar eru svo léttir að þeir svífa en þegar droparnir eru nógu þungir til að falla kallast þeir regndropar, og minnstu regndroparnir súldardropar,“ segir á vef Veðurstofunnar.