Hann sagði reiknaðar spár um veður næstu mánuða dottnar í hús og að kuldakast síðustu vikna vera að baki. Við tekur sól og blíða.
„Veistu það, nú er gaman að lifa. Það er akkúrat helgin sem er núna að líða, um hana urðu mjög miklar breytingar og við erum að sigla inn í alveg einstaka veðurblíðu,“ segir Siggi.
Hiti verði tíu til fimmtán stig á Suðurlandi og hlýjast við ströndina og á láglendi. Það gæti verið skýjað vestast á landinu á þriðjudag eða miðvikudag en meira og minna bjart veður.
„Aðalatriðið er þetta: það er að koma sumar og sumarið sést á kortunum. Þannig ég er mjög brattur með þessa viku eins og hún lítur út,“ segir Siggi.
Hann segir reiknaðar spár fyrir sumarið komnar nú þegar veturinn er loks að baki. Maí verði ósköp venjulegur maí, bjartur og svalur en að frá og með byrjun júní verði hlýtt og sólríkt á landinu.
„En svo eru spár að reikna að það verði hlýtt sumar alveg júní, júlí og ágúst. Og líka að það verði úrkomulítið í sumar sem þýðir að það verður sennilega sólríkt sumar víða um land. Mér líst mjög vel á allt framhald. Þetta byrjar allt í dag og á morgun.“