Skoðun

Þess vegna mun ég kjósa Katrínu

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Vegna þess að hún yrði góður forseti og þar sem Kata er þar er skemmtilegt. Hún er eldklár, hrikalega dugleg, með góða nærveru og ákveðnar skoðanir en samt ávallt tilbúin til þess að hlusta. Hún hefur alltaf málefni kvenna og minnihlutahópa í huga i öllu sem hún fæst við og kemur því ákveðið að í ræðu eins oft og mögulegt er. Hún talar fyrir friði og er snillingur í að miðla málum, enda einkenni hennar að hún rífst ekki heldur horfir á hvert einstaka mál út frá mörgum hliðum, með víðsýni og án fljótfærni. Hún er alltaf með augun á boltanum en samt með öll verkefnin sem hún þarf að sinna samhliða í huga, ákveðin og röggsöm hvar sem hún kemur enda fá sem er betur treystandi fyrir vandasömum ákvörðunum. Hún er þó líka venjuleg húsmóðir í fjölbýlishúsi í Vesturbænum sem mætir í foreldrasamtöl og fer með vinkonum sínum í bröns. Bakar pizzur á föstudögum, mögulega með pepperoni og bönunum enda er það eina vitið, og sest til borðs með strákunum sínum eins oft og hún getur. Ber umhyggju fyrir sínum nánustu og spyr fólk sem hún hittir í sameiginlega þvottahúsinu eða í Melabúðinni eftir fréttum því hún er áhugasöm um fólk og málefni. Hún ræktar matjurtir á svölunum og gengur í hverri einustu lopapeysu sem henni er gefin enda smellpassa þær við gallabuxur og adidas skó. Hún hleypur líka og er ein þeirra sem hefur látið gott af sér leiða með því að safna fyrir Píeta og Alzheimer samtökin. Þekking hennar á glæpasögum finnst mér aðdáunarverð enda deili ég þeim áhuga, já og auðvitað eigum við aðdáun okkar á Liverpool sameiginlega en það er í raun alveg sama upp á hvaða samræðum er fitjað, alltaf getur hún tekið þátt og virðist þekkja til og hafa gaman af ótrúlega mörgu, snillingurinn sem hún er. Það þarf varla að nefna gríðarlega mikla þekkingu hennar á alþjóðlegum málefnum og hve mikill sómi er af henni hvar og hvenær sem er. Þess utan er manneskja sem fer í jólaskap við að horfa á Jól Prúðuleikaranna og finnst bókin um Jón Odd og Jón Bjarna skemmtilegasta barnabókin, manneskja sem ég gef óhikað mitt atkvæði.

Höfundur er menntunarfræðingur og leikskólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×