Norski miðillinn VG hefur eftir Anders Strømsæther umsjónarmanni rannsóknarinnar að lögreglunni hafi borist tilkynning um árásina frá vitni um hálfníuleytið í morgun.
Árásin var gerð í undirgöngum nærri grunnskólanum Verket en fimm hundruð börn á aldrinum sex til sextán ára ganga í skólann. Strømsæther segir líklegt að ráðist hafi verið að drengnum með hníf og steini.
Drengurin er ekki alvarlega særður en hann hlaut að sögn Strømsæther skurði og stungusár á nokkrum stöðum á líkamanum.
Maður á sextugsaldri er grunaður um verknaðinn. Hann er í haldi lögreglu og hefur verið ákærður fyrir líkamsmeiðingar.
„Þetta virðist hafa verið slys. Það hefur reynst okkur erfitt að finna skýra ástæðu á bak við árásina. Hinn grunaði mun hitta lækni bráðlega og við vonum að þá verði einhverjum spurningum um þetta svarað,“ segir Strømsæther.