FH og ÍBV þurfa að mætast í oddaleik í undanrslitum Olís-deildar karla í handbolta en það varð ljóst eftir að Eyjamenn knúðu fram sigur í fjórða leik liðanna í einvíginu í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í dag.
FH-ingar höfðu frumkvæðið lungann úr leiknum en munurinn var í kringum tvö mörk allan leikinn og Eyjaliðið ætlaði greinilega ekki í snemmbúið sumarfrí. ÍBV var raunar yfir 25-24 þegar hálf mínúta var eftir af venjulegum leiktíma.
Jón Bjarni Ólafsosn tryggði FH svo framlengingu með marki undir lok leiksins. Það var svo Kári Kristján Kristjánsson sem setti leikinn í vítakastkeppni eftir að leikurinn hafði verið tvíframlengdur.
Þar hafði ÍBV betur en Einar Erni Sindrasyni og Einari Braga Aðalsteinssyni brást bogalistinn á vítalínunni á meðan Eyjamenn skoruðu úr öllum sínum vítum. Þar með varð ljóst að liðin þurfa að etja kappi í oddaleik.
Atvik leiksins
Undir lok fyrri framlengingarinnar vildu FH-ingar fá dæmdan ruðning áður en Daniel Vieira jafnaði metin og setti leikinn í aðra framleingingu. Annars voru fullt af vafaatriðum í þessum leik eins og vænst var í leik þar sem jafn mikið var undir. Þá skipti það sköpum að Aron Pálmarsson þurfi að fara af velli vegna meiðsla um miðbik seinni hálfleiks.
Stjörnur og skúrkar
Enn og aftur átti Elmar Erlingsson stórleik en hann skoraði 11 mörk og var með sóknarleik Eyjamanna á herðum sér. Kári Kristján Kristjánsson, Daniel Vieira og Arnór Viðarsson áttu einnig góðan dag. Símon Michael Guðjónsson og Jóhannes Berg Andrason skoruðu mest fyrir FH.
Dómarar leiksins
Dómarar leiksins, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, dæmdu leikinn heilt yfir vel þrátt fyrir að bekkir beggja liða hafi á stundum verið ósammála ákvörðunum þeirra eins og gengur og gerist þegar spennustigið er jafn hátt og raun bar vitni í dag.
Stemming og umgjörð
Það var gjörsamlega pakkað í Íþróttamiðstöðinni í kvöld og stemmingin gjörsamlega frábær.