Körfubolti

Guðni stal senunni í Smáranum: „Sástu for­setann þarna?“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðni Th, fráfarandi forseti Íslands, var á meðal áhorfenda á fyrsta leik Grindavíkur og Keflavíkur í undanúrslitum Subway deildar karla í körfubolta
Guðni Th, fráfarandi forseti Íslands, var á meðal áhorfenda á fyrsta leik Grindavíkur og Keflavíkur í undanúrslitum Subway deildar karla í körfubolta

For­seti Ís­lands, Guðni Th. Jóhannes­son var á meðal á­horf­enda á fyrsta leik Grinda­víkur og Kefla­víkur í undan­úr­slitum Subway deildar karla í körfu­bolta í gær. Hrifning hans á einni af flottustu körfu leiksins leyndi sér ekki og voru sér­fræðingar Körfu­bolta­kvölds yfir sig hrifnir af viðbrögðum Guðna sömu­leiðis.

Leiknum lauk með átta stiga sigri Grindavíkur, 102-94 og halda þeir því inn í leik tvö í Keflavík með einn vinning á móti engum vinningi Keflvíkinga sem munu þurfa að spjara sig án síns besta leikmanns, Remy Martin, sem sleit hásin í leik gærkvöldsins og verður ekki meira með á þessu tímabili. 

Bæði lið sýndu fína takta í leik gærkvöldsins og var hvergi gefið eftir. Þeir sem horfðu á ættu þó að geta sammælst um að Grindvíkingar hafi átt eina flottustu körfu leiksins undir lok annars leikhluta. 

Í þeirri sókn átti Ólafur Ólafsson langa sendingu fram völlinn frá annarri endalínunni í átt að DeAndre Kane sem á einhvern óskiljanlegan hátt náði að setja niður þriggja stiga körfu úr því sem virtist nær vonlaus staða. Spjaldið og ofan í. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var á meðal áhorfenda í Smáranum og hrifning hans af þessari spilamennsku Grindvíkinga leyndi sér ekki. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Guðni Th. stal senunni í Smáranum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×