Tapið þýðir að FH tekur á móti ÍBV á sunnudaginn kemur í oddaleik um sæti í úrslitum Olís-deildarinnar.
Stemningin í Eyjum var gríðarleg í kvöld. Er erfitt að mæta á völl sem þennan?
„Við þekkjum alveg að mæta til Eyja, að sjálfsögðu frábær heimavöllur. Er líka ofboðslega þakklátur þeim fjölda Hafnfirðinga sem mættu hingað með okkur í dag. Sterkur heimavöllur en ekkert annað en það.“
Var erfitt að reyna halda spennustiginu réttu?
„Það er eins og gefur að skilja í svona látum þá gengur á ýmsu. En það er rétt hjá þér, það féllu dómar í dag sem voru að mér fannst ansi augljósir en því miður misstu dómararnir af því,“ sagði Sigursteinn við Svövu Kristínu Grétarsdóttur að leik loknum.
FH vann fyrstu tvo leiki einvígisins en ÍBV hefur komið til baka og nú er allt undir í oddaleik á sunnudaginn.
„Við erum bara í úrslitakeppni, ÍBV er frábært lið og við þurfum á öllu okkar að halda. Því miður var stöngin út í dag. Nú förum við heim, söfnum kröftum og mætum í stappfullan Kaplakrika á sunnudag,“ sagði Sigursteinn að lokum.