Erlent

Segja frum­varp um gyðinga­and­úð í and­stöðu við Biblíuna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Marjorie Taylor Greene segir frumvarpið vega gróflega að tjáningarfrelsi kristinna.
Marjorie Taylor Greene segir frumvarpið vega gróflega að tjáningarfrelsi kristinna. AP/J. Scott Applewhite

Öfgahópur innan Repúblikanaflokksins hefur mótmælt þverpólitísku frumvarpi sem var samþykkt í fulltrúadeildinni á miðvikudag og miðar að því að útrýma hatursáróðri gegn gyðingum.

Ástæðan?

Jú, hópurinn, undir forystu þingmannanna Matt Gaetz og Marjorie Taylor Greene, segir frumvarpið grafa undan rétti kristinna. Ef það verði samþykkt gætu kristnir átt það á hættu að verða refsað fyrir að halda því fram, sem þeim þykir satt og rétt, að Jesús hafi verið myrtur af gyðingum.

Um er að ræða nokkuð vandræðalegt mál fyrir Repúblikanaflokkinn, sem er sagður hafa lagt frumvarpið fram meðal annars til að þrýsta á Demókrata. Repúblikanar hafa sakað Demókrata um að umbera gyðingaandúð til að þóknast frjálslyndari stuðningsmönnum sínum.

Samkvæmt New York Times vinna nú leiðtogar beggja flokka að því að afla stuðnings við frumvarpið meðal þingmanna öldungadeildarinnar.

Greene, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu í fulltrúadeildinni, sagðist hins vegar ekki geta stutt það þar sem það gæti haft það í för með sér að kristnir yrðu sóttir til saka fyrir að trúa því að Jesús hefði verið „afhentur Heródusi til að verða tekinn af lífi af gyðingunum“.

Frumvarpið freistar þess að skilgreina gyðingaandúð í fyrsta sinn og leggjur það meðal annars á herðar menntamálayfirvalda að rannsaka mál þar sem grunur leikur á um fordóma gegn gyðingum.

Menntastofnanir sem taka ekki á slíkum málum geta átt það yfir höfði sér að verða af fjárveitingum frá hinu opinbera.

Umfjöllun New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×