Þetta kemur fram í Facebook færslu sem Sverrir Einar Eiríksson eigandi B5, Exit og Nýju vínbúðarinnar, birti í dag.
„B5 Exit gæti maður sagt í gríni. Við höfum sem sagt ákveðið að einbeita okkur að rekstri skemmtistaðarins Exit í Reykjavík og höfum sagt skilið við Bankastrætið í góðri sátt við leigusala,“ kemur fram í færslunni.
„B5 er mesta fjör sem hann hefur nokkurn tímann komið að. En allt hefur sinn tíma,“ segir Sverrir Einar í samtali við fréttastofu.
Hann segir þetta gert til þess að kröftum rekstraraðila sé ekki dreift um og of. Stefnt sé á áframhaldandi gleði og gott gengi á Exit sem notið hefur gríðarlegra vinsælda í skemmtanalífi bæjarins.
Reksturinn verið þungur
Sverrir Einar keypti rekstur B5 í júní í fyrra ásamt Vestu Minkute, unnustu sinni. Staðurinn hét þá Bankastræti Club og var meðal annars í eigu Birgittu Lífar Björnsdóttur markaðsstjóra World Class. Hún hóf reksturinn í júlí árið 2021, en fyrir þann tíma hafði staðurinn um árabil borið nafnið B5.
Um skeið hét staðurinn þó einungis B, meðan hann var undir rekstri Sverris. Það var vegna þess að leyfi fyrir vörumerkinu B5, sem er skráð í eigu KG ehf., var ekki fyrir hendi. Áður en málið hafði verið útkljáð fyrir dómi ákvað Sverrir Einar að láta slag standa og halda „B5“ nafninu.
Á föstudaginn fyrir rúmri viku innsiglaði lögregla húsnæði B5, Exit og Nýju vínbúðarinnar að beiðni Skattsins og var Sverrir Einar handtekinn vegna gruns um að hafa rofið innsiglin á Exit.
Sama dag sendi hann Vísi tilkynningu þar sem hann sagði rekstur B5 hafa verið þungan í kjölfar afskipta lögreglu af staðnum. Inngrip Ríkisskattstjóra sé því eðlilegt hvað B5 varðar, en ekki hvað varðar Exit og Nýju vínbúðina.
Sverrir Einar segir dyrnar að Exit og Nýju vínbúðinni hafa verið opnaðar að fullu á mánudagsmorgunn, tæpum þremur sólarhringum eftir lokunina. „Skatturinn baðst afsökunar. Þetta var algjör feill,“ segir Sverrir og bendir á að B5 hafi verið lokaður um skeið þegar lögregla innsiglaði staðinn fyrir rúmri viku.
Í október á síðasta ári afturkallaði sýslumaður starfsleyfi B5, sem þá hét B í kjölfar deilna um notkun vörumerkisins B5. Áður hafði lögregla haft afskipti af Sverri og rekstri staðarins í september, þegar Sverrir var leiddur í járnum. Fram kom að sýslumanni hafi meðal annars borist ítrekaðar tilkynningar frá lögreglu um gesti undir lögaldri.