Fótbolti

Hóta því að lög­sækja FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, með  Aboubacar Sampil, forseta gíneska sambandsins og Erick Thohir forseta indóníska sambandsins.
Gianni Infantino, forseti FIFA, með  Aboubacar Sampil, forseta gíneska sambandsins og Erick Thohir forseta indóníska sambandsins. Getty/Aurelien Meunier

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur bætt enn við þétta leikjadagskrá bestu knattspyrnumanna heims með því að stækka mikið heimsmeistarakeppni félagsliða. FIFA menn virðast hins vegar hafa fundið þolmörkin ef marka má viðbrögðin.

Mikið leikjaálag hefur verið lengi vandamál í knattspyrnuheiminum og því ljóst að með því að bæta við fleiri leikjum þá eru hæstráðendur fótboltans að fara í kolranga átt.

Samtök atvinnumannadeilda annars vegar og atvinnufótboltamanna, Fifpro, hins vegar hafa nú sent FIFA bréf þar sem alþjóðasambandinu er hótað lögsókn.

Í bréfinu kemur fram að mikil andstæða sé gegn fyrirhugaðri nýrri heimsmeistarakeppni félagsliða sem hefur verið sett á sumarið 2025.

32 félög eiga að taka þátt í henni í stað sjö áður. Í raun verður þetta jafnstór keppni og heimsmeistarakeppni landsliða var. Mótið á að fara fram í júní og júlí á næsta ári.

Deildirnar telja sig verða fyrir fjártjóni og leikmenn kvarta að nú sé álagið komið yfir algjör þolmörk.

„EF FIFA neitar beiðni okkar um að leysa þetta mál á næsta stjórnarfundi sínum þá verðum við tilneydd til að ráðleggja okkar meðlimum að skoða mögulegar aðgerðir. Einn af þeim kostum er málshöfðun gegn FIFA,“ segir í bréfinu.

FIFA heldur því fram að þeir hafi tekið tillit til heilsu leikmanna við skipulagningu keppninnar og að nýja keppnin passi vel inn í alþjóðlega fótboltadagatalið.

„Við höfum passað upp á það að það sé nægjanlegur tími á milli úrslitaleiksins og þess tíma þegar margar deildir fara aftur af stað,“ segir meðal annars í yfirlýsingu sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×