Skoðun

Málið á að endur­spegla fólkið í landinu

Birta Björnsdóttir skrifar

Á dögunum birtist hér á Vísi grein undir yfirskriftinni útrýming mannsins á RÚV. Í greininni eru hressilegar lýsingar á skipulögðum og einörðum hernaðaraðgerðum okkar samstarfsfélaganna gegn íslenskri tungu. Auðvitað er leiðinlegt að skemma gott partý þar sem heill vinnustaður er dreginn sundur og saman í háði. Það er samt ekki gaman að sitja undir ásökunum um hernað og útrýmingu svo þess vegna langaði mig að leggja nokkur orð í belg.

Á fréttastofu RÚV vinnur alls konar fólk með ólíkan bakgrunn, menntun, starfsreynslu og já einnig ólíka máltilfinningu. Hér hafa engar reglur verið settar um útrýmingu á orðinu maður frekar en öðrum orðum. Eina reglan er að tala og skrifa góða íslensku. Sumum þykir betra að tala um fólk, aðrir velja frekar að tala um menn. Sumir nota bæði orðin í sömu fréttunum eða til skiptis.

Við sem skrifum og segjum fréttir hjá RÚV berum ábyrgð á því að tala og skrifa góða íslensku. Það er ábyrgð sem við eigum að standa undir og taka alvarlega. En hvernig íslensku? Eingöngu íslensku sem samræmist skoðunum ákveðins hóps? Ekki að mínu mati. Við eigum að tala og skrifa íslensku sem endurspeglar litróf fólksins sem býr á landinu. Bæði kynhlutlaust mál, íslensku þar sem karlkynið er ráðandi, íslensku með erlendum hreim og svo framvegis. Sjálf er ég fréttamaður, fréttakona, fréttaþulur, móðir og foreldri. Notkun á einu orði og kyni útilokar ekki annað.

Höfundur er yfirmaður erlendra frétta á fréttastofu RÚV.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×