Grindavík var undir nánast allan leikinn í gær en átti frábæran lokasprett og sótti sigur undir lokin.
„Trúin. Trú á hvorn annan, hver sem staðan er þá höldum við ró. Vorum undir allan leikinn en héldum áfram að berjast og gáfumst aldrei upp“ sagði Kane eftir að hafa skilað Grindavík sigrinum í gær.
DeAndre Kane hefur verið frábær í fyrstu tveimur leikjunum, skoraði 35 stig í fyrsta leik og 37 stig í gær. Hann hefur áður sagt að hann sé besti leikmaður deildarinnar og vegna þess verði Grindavík Íslandsmeistari.
„Ég var nú bara aðeins að grínast í fréttamanninum. En ég trúi því að mín reynsla vegi þungt og ég geti hjálpað þeim að verða meistarar. Engin spurning að þetta er ekki bara ég, við erum með frábæran hóp og frábæra þjálfara.“
Stefán Árni spurði þá hvort hann hafi átt við að reynslan sem hann býr yfir myndi hjálpa Grindavík að fara alla leið.
„Ó já, Ég trúi því alveg að við verðum meistarar. Mér finnst ég vera besti leikmaðurinn á Íslandi og ef ég er í liðinu þá verðum við meistarar.“
Á leiknum í gær seldu Grindvíkingar boli merkta leikmönnum. Bolur DeAndre Kane var sá eini sem seldist upp í öllum stærðum.
„Ég fæ mikla ást hérna. Aðdáendurnir hafa verið frábærir frá því ég kom og ég elska þá. Ég vil endurgjalda þessa ást með meistaratitli. Við höfum öll gengið í gegnum margt, bærinn á skilið titil og það er ég að reyna.“
Innslagið allt úr Subway Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum að ofan. Næsti leikur Vals og Grindavíkur fer fram á fimmtudag klukkan 19:15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.