Hvalur hf. sótti um leyfi til veiða á langreiðum til matvælaráðuneytisins 30. janúar síðastliðinn en enn hafa ekki borist svör við þeirri umsókn að því er fréttastofa kemst næst. Hefð er fyrir því að vertíðin hefjist stuttu eftir sjómannadag, sem er 2. júní næstkomandi, og tíminn því naumur.
Kristján Loftsson, eigandi Hvals, sagði í viðtali við Morgunblaðið um miðjan apríl að ef ekki væri útséð um starfsleyfi væri ekki hægt að ganga í mannaráðningar og kaup á aðföngum, sem sé forsenda þess að halda til veiða.
„Það er mjög óþægilegt fyrir alla að það sé ekkert ennþá í hendi. Ég vona að ástæðan fyrir því að þetta taki svona langan tíma sé að það sé verið að vanda sig betur en var gert í fyrra, þegar Svandís tilkynnti degi fyrir veiðar að það yrði ekki veitt,“ segir Valgerður Árnadóttir, talsmaður Hvalavina.
Hún vísar þar til umdeildrar ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, um að fresta hvalveiðum sem hún tilkynnti 20. júní en veiðar áttu að hefjast daginn eftir. Valgerður segir ýmislegt benda til að ekki verði veitt í sumar.
„Okkur grunar samt, miðað við hvernig allt lítur út, að það verði ekki veitt. Við höfum engar fregnir af því að Kristján hafi ráðið menn fyrir sumarvertíðina. Við höfum ýmsa heimildarmenn sem láta okkur vita þegar slíkt gerist,“ segir Valgerður.
„Skipin, Hvalur átta og níu, hafa ekki verið dregin í slipp eins og er gert á vori hverju þegar veitt er. Það þarf að ditta að þessum skipum, sem eru orðin mjög gömul, fyrir vertíðina. Við erum að vona það besta, við erum að vona að það verði engin vertíð í sumar.“