Fótbolti

Guardiola ráð­lagði Bayern að ráða Kompany

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany var fyrirliði Manchester City undir stjórn Pep Guardiola. Hér fagna þeir Englandsmeistaratitli.
Vincent Kompany var fyrirliði Manchester City undir stjórn Pep Guardiola. Hér fagna þeir Englandsmeistaratitli. Getty/Anthony Devlin/

Bayern München leitaði til Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, áður en félagið fór í viðræður við Vincent Kompany.

Það stefnir allt í það að fyrrverandi knattspyrnustjóri Burnley fái eitt stærsta starfið í evrópska fótboltanum þrátt fyrir að Burnley hafi fallið úr ensku úrvalsdeildinni á dögunum. Bayern hefur trú á Belganum sem er enn að stíga sín fyrstu skref sem knattspyrnustjóri.

Karl-Heinz Rummenigge staðfesti samtal við Guardiola þegar hann ræddi við Sky Sports. Rummenigge hætti sem framkvæmdastjóri Bayern árið 2021 en situr enn í stjórn félagsins.

Bayern hefur gengið illa að finna eftirmann Thomas Tuchel og Rummenigge var ósáttur með að hvert nafnið á fætur öðru lak út úr innsta koppi.

Hinn 68 ára gamli Rummenigge vildi segja frá því að félagið hafi leitað ráða hjá Guardiola, sem þjálfaði þýska félagið frá 2013 til 2016.

Guardiola þekkir vel til Kompany sem spilaði undir hans stjórn hjá City frá 2016 til 2019.

„Pep hjálpaði okkur með Kompany og talaði mjög vel um hann. Hann sagði hann vera hæfileikaríkan þjálfara. Pep þekkir Vincent mjög vel og metum hans álit mikils,“ sagði Rummenigge.

Guardiola gerði Bayern þrisvar sinnum að þýskum meisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×