Erlent

Ísraels­menn taka yfir landa­mærin að Egypta­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelskir hermenn njóta stundar milli stríða.
Ísraelskir hermenn njóta stundar milli stríða. AP/Tsafrir Abayov

Ísraelsmenn hafa nú stjórn á öllum landamærum Gasa eftir að þeir tóku yfir þann kafla sem liggur að Egyptalandi. Hætta er á að þetta muni flækja samskipti stjórnvalda í Ísrael og Egyptalandi.

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, tilkynnti í gær að herinn hefði tekið yfir svokallaðan Philadelphi-gang en það er heitið sem herinn notar yfir hinn fjórtán kílómetra langa kafla sem aðskilur Gasa og Egyptaland.

Hagari útskýrði ekki nánar hvað þetta þýddi í raun og veru en áður höfðu borist fregnir af hermönnum Ísraels við landamærin.

Talsmaðurinn sagði Philadelphi-ganginn „súrefnisslöngu“ fyrir Hamas, þar sem vopnum væri smyglað inn á Gasa. Herinn hefði uppgötvað um það bil 20 göng á svæðinu.

Egypska fréttastofan Al-Qahera hefur hins vegar eftir háttsettum embættismanni að Ísraelar hyggist nota staðhæfingar um göng undir landamærunum sem fyrirslátt fyrir innrás í Rafah. Engin göng væru á svæðinu.

New York Times hefur greint frá því að sprengjur sem voru notaðar í árás Ísrael á Rafah á sunnudag hefðu verið framleiddar í Bandaríkjunum. Afstaða Bandaríkjamanna gagnvart aðgerðum síðustu daga virðist hins vegar enn óbreytt; ekki sé um að ræða allsherjarinnrás og því hafi Ísraelsmenn ekki farið yfir strikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×