Skoðun

Um 60 prósent af farar­tækjum Póstsins umhverfisvæn

Ásdís Káradóttir skrifar

Loftslagsdagurinn 2024 fór fram í Hörpu í fyrradag. Fulltrúar á vegum Póstsins hlýddu á erindin enda loftslagsmál og orkuskipti eitt mikilvægasta viðfangsefnið okkar.

Eyrún Gígja Káradóttir, verkefnastjóri Orkuseturs, flutti erindi sem nefndist Erum við hætt við orkuskiptin? Í máli hennar kom fram að aðeins 7% nýskráðra sendibíla á árinu gengju fyrir rafmagni og velti fyrir sér hvað ylli. Hún nefndi að mögulega væru lítið framboð, hagkvæmni, drægni og hleðsluinnviðir í veginum. Í framhaldinu gerði hún grein fyrir að þessir þættir ættu ekki að koma veg fyrir rafbílavæðingu í mörgum þessara tilfella.

Samkvæmt Eyrúnu er nóg framboð af rafbílum og hún sýndi dæmi um að þótt stofnkostnaðurinn væri meiri gæti fjárfestingin borgað sig upp á þremur árum. Drægni og hleðsluinnviðir haldast í hendur og sýnir nýtt app, hleðslukortið, að þétt net hraðhleðslustöðva er hringinn í kringum landið.

Pósturinn er svo sannarlega ekki hættur við orkuskiptin. Það er áhugavert að spegla aðgerðir Póstsins í loftlagsmálum í því sem fram kom í máli Eyrúnar. Þær hafa m.a. snúist um að endurnýja bílaflotann og nú eru tæp 60% farartækja Póstsins umhverfisvæn, ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.

Á þessu ári hefur Pósturinn fjárfest í átta nýjum dísilsendibílum. Sú ákvörðun að kaupa nýja dísilbíla er ekki léttvæg en þrátt fyrir brýningu Eyrúnar er ástæðan sú að sums staðar þurfa landpóstar að vera á fjórhjóladrifnum bílum, sem hafa ekki verið í boði rafknúnir, auk þess sem langar vegalengdir og skortur á hleðsluinnviðum setja okkur í vanda. Til allrar hamingju menga nýir dísilbílar töluvert minna en eldri bílar.

Orkuskiptin eru eitt stærsta verkefnið okkar í sjálfbærnimálum. Þriðjungur bílaflotans eru hreinorkubílar. „Grænt Reykjanes“ er til marks um framfarir í umhverfismálum hjá Póstinum. Þá er öll bréfadreifing „græn“ á höfuðborgarsvæðinu og sama gildir að mestu í stærri þéttbýliskjörnum.

Notkun jarðefnaeldsneytis hjá Póstinum dróst saman um 11% árið 2023. Meðal annars eignaðist Pósturinn tvo rafmagnsflutningabíla frá Volvo með 10 tonna flutningsgetu, þá fyrstu sinnar tegundar hér á landi. Stærstu flutningabílarnir okkar fara mun lengri veg en sendibílar og hjól og valda mikilli losun. Horft er til þess hvort í framtíðinni verði hægt að nýta vetni til að knýja allra stærstu flutningabílana lengstu leiðirnar.

Hleðslustöðvum Póstsins hefur verið fjölgað til muna á síðustu misserum. Meðal annars hefur verið sett upp 225 kW hleðslustöð við Póstmiðstöðina á Stórhöfða auk tíu nýrra hleðslustöðva. Á landsvísu eru hleðslustöðvar Póstsins orðnar 30 talsins.

Í lokin benti Eyrún á það að þrátt fyrir allt væru hagkvæmustu orkuskiptin fólgin í minni notkun. Þess má geta að farartæki Póstsins óku 5,2 milljónir kílómetra árið 2022 en „aðeins“ 4,7 milljónir á síðasta ári. Það má helst rekja til þess að nú er net afgreiðslustaða orðið mun þéttara en áður, í formi póstboxa, sem styttir vegalengdir sem ekið er með sendingar.

Höfundur er sjálfbærnistjóri Póstsins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×