Innlent

Leitin hefur enn ekki borið árangur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Fram hefur komið að björgunarsveitirnar noti hunda við leitina. Myndin er úr safni.
Fram hefur komið að björgunarsveitirnar noti hunda við leitina. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Maðurinn sem féll í Fnjóská er enn ekki fundinn eftir umfangsmikla leit viðbragðsaðila í kvöld. Leitin mun þó halda áfram inn í nóttina og þá er verið að skipuleggja frekari leit í fyrramálið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

„Mikill fjöldi leitarmanna hefur verið að störfum við Fnjóská frá því tilkynnt var að maður hefði fallið í ána og týnst. Því miður hefur þessi umfangsmikla leit ekki enn borið árangur. Leit verður haldið áfram inn í nóttina og nú er verið að skipuleggja frekari leitaraðgerðir með morgninum,“ segir í tilkynningunni.

Fyrr í kvöld var greint frá því að hinn týndi væri karlmaður um tvítugt. Hann hefði fallið í Fnjóská nokkru ofan við ósa hennar, skammt frá Pálsgerði. Hann var með þremur félögum sínum og hvarf hann þeim sjónum í ánni.

Lögreglu var tilkynnt um fallið í ána klukkan hálf sjö í kvöld.

Fram hefur komið að aðstæður á vettvangi séu erfiðar þar sem að Fnjóská sé nokkuð lituð á þessum slóðum. „En einnig vegna þess að í ósum hennar kvíslast hún mikið þannig að leitarsvæði er víðfeðmt og sums staðar er vatnið það grunnt að erfitt er að koma við tækjum við leitina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×