Kadetten vann þá sjö marka heimasigur á HC Kriens-Luzern, 32-25, og þar með úrslitaeinvígið 3-2. Þetta er í fjórtánda sinn sem félagið verður svissneskur meistari en sá fyrsti kom í hús árið 2005.
Kadettan hafði fyrr í vetur tryggt sér bikarmeistaratitilinn. Liðið er svissneskur meistari þriðja árið í röð en vann nú tvöfalt í fyrsta sinn á þessum tíma. Þetta er í fyrsta sinn í átta ár sem Kadetten vinnur bæði deild og bikar.
Óðinn Þór var að venju öflugur. Hann nýtti öll níu skotin sín í bikarúrslitaleiknum fyrr í vetur og var með átta mörk úr níu skotum í oddaleiknum í dag. Fimm marka hans komu úr vítum. Hann var marahæsti leikmaður Kadetten í leiknum.
Kadetten lenti 1-0 undir í einvíginu með því að tapa fyrsta leiknum á heimavelli en vann svo tvo leiki í röð. Kriens-Luzern tyggði sér oddaleik með sex marka sigri á heimavelli í fjórða leiknum.
Kadetten byrjaði ekki vel og var komið þremur mörkum undir, 4-7, þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður. Kadetten jafnaði í 7-7 og komst síðan yfir 12-11 með marki Óðins rétt fyrir hálfleik. Staðan var hins vegar jöfn í hálfleik, 12-12.
Óðinn nýtti öll þrjú skotin sín í fyrri hálfleiknum en eitt markanna kom úr víti.
Óðinn skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks en Kadetten byrjaði hálfleikinn vel og náði strax tveggja marka forystu.
Óðinn kom liðinu síðan í fyrsta sinn þremur mörkum yfir í stöðunni 17-14 með sínu sjötta marki í leiknum. Eftir að var leikurinn í öruggum höndum heimamanna.