Handbolti

Landin hættir í lands­liðinu eftir Ólympíu­leikana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin hefur átt glæsilegan feril með danska landsliðinu.
Niklas Landin hefur átt glæsilegan feril með danska landsliðinu. getty/Lars Baron

Handboltamarkvörðurinn Niklas Landin hefur ákveðið að hætta í danska landsliðinu eftir Ólympíuleikana í sumar.

Landin, sem er 36 ára, hefur leikið með danska landsliðinu í sextán ár og unnið ellefu verðlaun með því á stórmótum.

„Ég hef hugsað um þetta nokkuð lengi en núna er rétti tíminn. Ólympíuleikarnir í París er fullkominn endapunktur. Ég vil ekkert frekar en að kveðja með Ólympíugulli,“ sagði Landin.

„Landsliðið hefur gefið mér besta tímann í handboltanum og ég er gríðarlega stoltur að hafa spilað með svona mörgum hæfileikaríkum mönnum. Fyrst og fremst er ég stoltur að við höfum getum sett saman svona frábært lið sem ég held að Danmörk verði með á næstu árum.“

Landin lék sinn fyrsta landsleik 2008 og hefur alls spilað 273 leiki fyrir danska landsliðið. Hann varð Evrópumeistari með Dönum 2012, Ólympíumeistari 2016 og heimsmeistari 2019, 2021 og 2023.

Landin, sem er 36 ára, varð danskur meistari með Álaborg á laugardaginn. Hann ætlar að halda áfram að spila með liðinu þrátt fyrir að landsliðsferlinum ljúki senn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×