Matthildur Emma býr í foreldrahúsum í Reykjanesbæ en hún er nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ætla sér svo að læra sálfræði í Háskóla Íslands.Hún er ótrúlega jákvæð, alltaf brosandi og lætur ekkert stöðva sig í lífinu þrátt fyrir fötlun sína.
„Þetta er fyrsti gervifóturinn, sem ég fékk en ég held að ég hafi verið um eins árs þegar ég fékk þennan,” segir Matthildur Emma og bætir við. „Ég fæddist með galla, sem kallast „Proximal focal femoral deficiency”, þannig að lærleggsbeinið hætti að vaxa og ég hef bara verið þannig allt mitt líf.”
Og nú er Matthildur Emma komin með gerfirafmagnsfót, sem hún stjórnar með appi í símanum sínum, magnað.
„Ef ég fer að hjóla þá bara stillist það, kemur bara svona „píp” og þá er hann komin í hjólastillingu,” segir hun.

Svo er Matthildur með sérstakan hlaupafót eða fjöður og þann fót notar hún þegar hún er til dæmis að dansa.
Í gegnum árin hefur hún unnið til fjölda verðlauna í dansinum, sund inu og meira að segja fótbolta, en það er einn verðlaunapeningur í sérstöku uppáhaldi hjá henni.
„Já, það er þriðja sætið í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í dansi,” segir Matthildur Emma og heldur áfram.
„Þegar ég var yngri vorkenndi fólk mér mjög mikið og skyldi ekki alveg, hélt kannski að þetta væri slys eða eitthvað svoleiðis en ég sagði bara alltaf, ekki vera að vorkenna mér, mér finnst þetta bara geggjað, ég myndi ekki breyta þessu ef það væri hægt.”
Af hverju ertu svona jákvæð gagnvart þessu?
„Það er bara ekkert hægt að gera í þessu, við erum bara öll eins og við erum,” segir hún brosandi.
En hvað segir mamma Matthildar, Eygló Rós um dóttir sína?
„Heyrðu, hún er náttúrulega bara algjör snillingur, sem hefur aldrei látið neitt stoppa sig.”
En ykkur var ráðlagt að eyða fóstrinu eða hvað?
„Já það var svolítið ýtt undir það að það væri helsti kosturinn í stöðunni og við fórum í þessa hnakkarþykktarmælingu og allt það dótarí, sem allt leit mjög vel út þannig að okkur datt það bara aldrei í hug,” segir Eygló Rós.

Og Matthildur Emma er að fara að taka þátt í Ungfrú Ísland enda alltaf haft mikinn áhuga á allskonar keppnum.
„Já, ég vil bara vera fyrirmynd fyrir annað fólk, sem er kannski með aðra galla, það á ekkert að láta stoppa mann,” segir hún.
