Skoðun

„Drekkum í dag og iðrumst á morgun!“

Valgerður Rúnarsdóttir skrifar

Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?

Þetta er samviskuspurningin fyrir alla sem koma að því að auka aðgengi að áfengi með nýrri markaðssetningu og tilheyrandi sýnileika, auglýsingum, tilboðum og áhuga.

Það er auðveld reikniformúlan í þessum leik, aukið aðgengi, aukin neysla, aukinn vandi, aukinn kostnaður.

Þeir sem eru mest útsettir og í mestri áhættu vegna markaðssetningar áfengis er ungt fólk á barneignaraldri og eldra fólk í breyttu hlutverki í lífinu. Einnig eru margir hópar í viðkvæmri stöðu varðandi áfengið, t.d. fólk með fíknsjúkdóm og aðra geðsjúkdóma sem hefur hvað mestan vanda af áfengi. Þessir sjúkdómar eru algengir í okkar samfélagi.

Það vantar ekki fræðin, upplýsingar, tölur og vísindi sem beina okkur eindregið frá auknu aðgengi að áfengi. Við þekkjum meira en 200 sjúkdóma sem áfengi veldur. Við vitum um slæm áhrif áfengis á geð- og félagsheilsu. Það er ekki tilviljun að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með sölufyrirkomulagi eins og hefur verið á Íslandi. Öll rök og vísindi segja okkur, að það er hagur samfélagsins að sporna við aðgengi að áfengi.

Orð ábyrgra aðila gegn þessu alvarlega feilspori að auka aðgengi að áfengi, eins og landlæknis, heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra og Læknafélags Íslands, þau heyrast ekki fyrir trommuslættinum. Það er of mikill hávaði í auglýsingum sem fara á skjön við lög og upphafningu á áfengissölu sem fer á skjön við lög. Hvernig stendur á því að samfélagið okkar getur ekki stöðvað þessa óheillaþróun? Hvers vegna ráða markaðsöflin þótt þau daðri við að brjóta lög? Hvers vegna situr kæra inni hjá lögreglu í 4 ár án þess að hún sé tekin fyrir? Er þetta siðlegt hjá okkur? Höfum við misst samfélagsvitundina? Hvað með samfélagsábyrgð fyrirtækja sem var talsvert í tísku fyrir nokkrum árum? Er hún hætt? Forsvarsmenn stórra fyrirtækja hafa möguleika á að hafa mikil áhrif til góðs, styðja við lýðheilsu og láta gott af sér leiða. Ég auglýsi eftir því í þessum hildarleik um aukið aðgengi að áfengi.

Kostnaður samfélagsins í dag vegna áfengisneyslu Íslendinga er 100 milljarðar króna á ári, það er fjandakornið alveg nóg. Höfum við, samfélagið, efni á að auka þann kostnað enn meira, bara svo einhverjir geti grætt á sinni sölu?

Ættum við ekki frekar að standa upp‘á hól og kalla, eða boða stefnumótunarfundi eða þjóðfundi eða samstarf allra hagaðila,… til þess að draga úr núverandi kostnaði vegna áfengisneyslu á Íslandi?

Við höfum aukið aðgengi að áfengi á Íslandi gríðarlega mikið síðustu áratugi. Vínbúðum og vínveitingastöðum fjölgað, opnunartímar lengst. Léttvín og bjór eru víðast hvar nærri okkur og hópurinn stækkar sem drekkur eitthvert áfengi flesta daga (þ.e. 4 eða fleiri daga í viku). Enda höfum við Íslendingar aukið drykkjuna mikið (reiknað í hreinum vínanda á mann á ári). Og við höfum haft af því mikið aukinn vanda, t.d. sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum. Eigum við virkilega að gefa í og auka aðgengi meira?

Verum minnug þess glæsilega árangurs sem við á Íslandi náðum í að snar-minnka sígarettureykingar, með einmitt því, að draga úr aðgengi! Það virkar!

Tökum lýðheilsu alvarlega og sýnum það í verki.

Ekki auka aðgengi að áfengi.

Höfundur er sérfræðilæknir í lyf- og fíknlækningum.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×