Erlent

Sunak og Star­mer tókust á um skatta, út­lendinga­mál og NHS

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starmer og Sunak mættust í gær í fyrstu kappræðunum fyrir kosningar.
Starmer og Sunak mættust í gær í fyrstu kappræðunum fyrir kosningar. Getty/ITV/Jonathan Hordle

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, og Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins, mættust í gær í fyrstu kappræðum sínum fyrir þingkosningarnar í Bretlandi sem fara fram 4. júlí næstkomandi.

Leiðtogarnir tókust á um skatta, heilbrigðiskerfið og innflytjendur en Starmer sagði atkvæði til handa Íhaldsflokknum jafngilda því að afhenda brennuvargi eldspýtur. Sunak ráðlagði áhorfendum hins vegar að byrja að safna fyrir útsvarinu ef það sæi fyrir sér að Verkamannaflokkurinn kæmist til valda.

„Verkamannaflokkurinn mun hækka skattana ykkar. Það er í erfðaefninu þeirra. Starfið þitt, bíllinn þinn, eftirlaunin þín; Verkamannaflokkurinn mun skattleggja það,“ sagði Sunak og hélt því fram að stefnumál Verkamannaflokksins myndi kosta fjölskyldur 2.000 pund á ársgrundvelli.

Þessu hafnaði Starmer og sagði töluna uppspuna Íhaldsflokksins byggðan á skálduðum stefnumálum.

Starmer sagði aðeins eina ástæðu fyrir því að forsætisráðherrann hefði boðað til þingkosninga í sumar; hann vissi að áætlanir hans í efnahags- og útlendingamálum myndu ekki ganga eftir.

Hvað varðar útlendingamálin hét Starmer því að Bretland yrði áfram aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu en Sunak gaf í skyn að Íhaldsflokkurinn myndi mögulega ganga frá borði; ef valið stæði á milli þess að treysta landamærin eða eiga aðild að „erlendum dómstól“ myndi hann forgangsraða öryggi landsins.

„Við munum ekki draga okkur úr alþjóðlegum sáttmálum og alþjóðalögum sem njóta virðingar um allan heim,“ sagði Starmer hins vegar. „Því ég vil að Bretland sé virtur þátttakandi á hinu alþjóðlega sviði, ekki úrhrak sem er ósammála alþjóðalögum.“

Leiðtogarnir ræddu heilbrigðiskerfið og voru á öndverðum meiði þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir myndu nýta sér einkarekna þjónustu til að komast framhjá biðlistum. Sunak sagði já en Starmer nei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×