Körfubolti

„Verð að prófa þessa geð­veiki áður en ég hætti“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Benedikt Guðmundsson er spenntur fyrir komandi tímabili í Skagafirðinum.
Benedikt Guðmundsson er spenntur fyrir komandi tímabili í Skagafirðinum. vísir/sigurjón

Benedikt Guðmundsson var á dögunum ráðinn þjálfari körfuboltaliðs Tindastóls í stað Pavels Ermolinskij. Benedikt segir að ástríðan fyrir körfubolta sé sérstök á Sauðárkróki og hann er afar spenntur fyrir starfinu.

„Þetta tók sinn tíma og við byrjuðum að ræða saman fljótlega eftir tímabilið. Þetta tók um tvær vikur að ná saman,“ segir Benedikt sem varð strax spenntur fyrir starfinu.

„Er þeir hafa samband þá fann ég að þetta kveikti í mér. Fyrsta sem ég hugsaði var að ég verð að prófa þessa geðveiki áður en ég hætti. Þarna er körfuboltaáhuginn svo svakalegur og ástríðan þarna fyrir körfunni er bara topp fimm í Evrópu. Þetta er geggjað umhverfi til að vera í.“

Klippa: Benedikt elskar ástríðuna hjá Stólunum

Benedikt var að íhuga að jafnvel taka sér frí frá meistaraflokksþjálfun áður en símtalið kom úr Skagafirðinum.

„Er ég fann að mig langaði að halda áfram þá var þetta draumadjobb.“

Áhuginn er mikill á körfubolta á Króknum, eins og Benedikt segir, en starfinu fylgir líka pressa. Það er ekkert sem þjálfarinn óttast.

„Maður er búinn að gera það svo lengi að maður þekkir eiginlega ekkert annað. Verið í KR í öll þessi ár til að mynda. Maður elskar svona metnað og að vinna í umhverfi þar sem er stefnt á toppárangur. Nú er undir mér komið að gera eitthvað af viti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×