Handbolti

Viktor ekki á förum frá Nantes: „Kitlaði al­veg egóið að heyra þetta“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson segist ekki á förum frá franska félaginu Nantes, þrátt fyrir orðróma um annað. 
Viktor Gísli Hallgrímsson segist ekki á förum frá franska félaginu Nantes, þrátt fyrir orðróma um annað.  Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður og leikmaður Nantes í Frakklandi, kannast ekki við orðróma um að hann sé á förum frá félaginu. Einbeiting hans er öll á að komast aftur inn á völlinn, verkjalaus. 

„Samningur minn er þar [hjá Nantes] og planið er að vera þar áfram. Það er bara það sem er í myndinni núna. Handboltasamningar eru þannig, maður er ekkert mikið að fara eitthvað áður en samningurinn rennur út þannig að ég verð áfram hjá Nantes,“ sagði Viktor í samtali við Vísi. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem flökkusögur fara af stað um Viktor. Fyrr á tímabilinu var hann orðaður við Kiel, nú er það Wisla Plock og Barcelona. Sjálfur heyrir hann sögurnar alltaf bara á sama tíma og allir aðrir.

„Þetta hefur nú gerst nokkrum sinnum að það komi orðrómar á netið um að ég sé að fara eitthvað, ég heyri það á sama tíma og allir hinir. Gaman að sjá nafn sitt orðað við stórlið en fókusinn minn er bara að komast aftur á handboltavöllinn og spila verkjalaus.“

Þetta eru engir smá klúbbar sem Viktor er orðaður við og þó sögurnar séu ekki sannar er auðvitað ákveðinn heiður að nafn hans sé nefnt í þessu samhengi. 

„Það er alveg gaman að vera orðaður við þessa stóru klúbba. Hefur verið draumurinn að spila fyrir þessa klúbba síðan maður var lítill. Kitlaði alveg egóið að heyra þetta en maður þarf að fókusa á það sem er fyrir hendi núna,“ sagði Viktor að lokum. 


Tengdar fréttir

Þýðir ekki að mæta með hangandi haus: „Það er ekkert bull“

Ís­lenska karla­lands­liðið í hand­bolta mun þurfa að tryggja sér sæti á HM án þess að geta treyst á lands­liðs­mark­vörðinn Viktor Gísla Hall­gríms­son í ein­vígi sínu gegn lands­liði Eist­lands. Lands­liðs­þjálfarinn segir það ekki þýða neitt að mæta með hangandi haus í verk­efnið sem er gegn fyrir fram tölu­vert veikari and­stæðingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×