Innlent

Fólki bjargað á landi sem sjó

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bílar sátu fastir á Mývatnsheiði við Másvatn.
Bílar sátu fastir á Mývatnsheiði við Másvatn.

Skúta komst í hann krappann á Suðurlandi, lítill fiskibátur á Patreksfirði sömuleiðis og ferðamenn á Mývatnsheiði festu bíla sína. Björgunarsveitarfólk hefur haft í nægu að snúast síðan í nótt.

Í nótt var björgunarskipið Þór frá Vestmannaeyjum kallað út vegna skútu sem var í vandræðum djúpt suður af landinu. Þór er nú kominn undan Vík í Mýrdal með skútuna í togi, og eiga eftir nokkra siglingu til hafnar í Vestmannaeyjum. Það stefnir í að sú aðgerð fari hátt í sólarhring.

Skútan í taumi á leið til Vestmannaeyja.

Í morgun var björgunarskipið Vörður á Patreksfirði kallað út vegna lítils fiskibátar sem lenti í vélarvandræðum í mynni Patreksfjarðar. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og var Vörður kominn til hafnar á Patreksfirði með bátinn í togi rétt fyrir klukkan ellefu í morgun.

Um hádegisbil voru svo Hjálparsveit Skáta í Reykjadal og Björgunarsveitin Stefán á Mývatni kallaðar út vegna ferðafólks á þó nokkrum bílum sem sátu fastir á Mývatnsheiði við Másvatn.

Ferðamönnum komið til bjargar á Mývatnsheiði.

Leiðindaveður var á þessum slóðum og þó nokkur snjór á vegi. Einhverjir voru selfluttir niður af heiðinni með björgunarsveit, en aðrir hinkruðu eftir moksturstæki sem fór yfir heiðina rétt fyrir klukkan 14. Leiðin var þó ekki talin fær nema bifreiðum með fjórhjóladrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×