Fótbolti

Tryggði Ís­landi sigurinn mikil­væga en nú í leit að nýju fé­lagi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hildur Antonsdóttir við það að skora sigurmarkið gegn Austurríki.
Hildur Antonsdóttir við það að skora sigurmarkið gegn Austurríki. Vísir/Diego

Hildur Antonsdóttir tryggði íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Austurríki í undankeppni EM 2025 á þriðjudag. Hildur spilaði með hollenska liðinu Fortuna Sittard á nýafstaðinni leiktíð en er í leit að nýju félagi í sumar.

Hildur stóð vaktina á miðri miðju Íslands þegar liðið sótti sigur sem gæti svo gott sem hafa tryggt liðinu sæti á EM sem fram fer í Sviss á næsta ári. Hin 28 ára gamla Hildur var að spila sinn 16 A-landsleik en lék sem hún hefði spilað talsvert fleiri.

Ásamt því að skora það sem reyndist sigurmark leiksins þá stóð hún fyrir sínu á miðsvæðinu og sá til þess að Austurríki ógnaði lítið sem ekkert fyrir utan mark þeirra.

Í viðtali við Fótbolti.net eftir leik staðfesti Hildur að hún yrði ekki lengur hjá hollenska félaginu Fortuna Sittard. Hún gekk í raðir félagsins sumarið 2022 eftir að hafa spilað með uppeldisfélagi sínu Val og Breiðabliki hér á landi.

Hún er á leið í frí á Mallorca áður en hún tekur ákvörðun um næsta skref.

„Ég er að fara finna mér eitthvað nýtt að gera í sumar. Ég mun æfa á fullu fyrir næsta glugga,“ sagði Hildur við Fótbolti.net eftir leik.

Ísland getur tryggt sér sæti á EM í Sviss þann 16. júlí þegar liðið mætir Póllandi ytra. Fjórum dögum áður, þann 12. júlí, mætir liðið Þýskalandi á Laugardalsvelli.


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Karólína Lea best meðal jafningja

Ísland vann Austurríki 2-1 á Laugardalsvellinum í kvöld í 4. umferð undankeppni Evrópukeppninnar 2025. Leikurinn endaði 2-1 þar sem Hlín Eiríksdóttir og Hildur Antonsdóttir skoruðu mörkin en það var Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem var potturinn og pannan í sóknarleik liðsins. Karólína var valinn maður leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×